Hoppa yfir valmynd

Frétt

5. júní 2018 Heilbrigðisráðuneytið

Heyrnarfræðingar löggiltir sem heilbrigðisstétt

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur sett reglugerð sem kveður á um menntun, réttindi og skyldur  heyrnarfræðinga og skilyrði til að hljóta starfsleyfi. Reglugerðin felur í sér löggildingu stéttarinnar og hefur sá einn rétt til að kalla sig heyrnarfræðing og starfa sem slíkur hér á landi sem hefur fengið til þess leyfi landlæknis.

Ákvörðun ráðherra um að löggildingu heyrnarfræðinga er í samræmi við tillögu starfshóps sem þáverandi heilbrigðisráðherra skipaði í ágúst 2017 til að fara yfir þjónustu við einstaklinga með heyrnarskerðingu og talmein með það að markmiði að hún verði sem best.

Heyrnarfræðingar sjá um heyrnarmælingar, fræðslu og endurhæfingu heyrnarskertra. Eins og fram kemur í umfjöllun starfshópsins er mikilvægt að við greiningu á heyrnarskerðingu sé unnið samkvæmt viðurkenndri þekkingu, fræðum og fagmennsku. Því var það mat hópsins að brýnt væri að gera heyrnarfræðinga að löggiltri heilbrigðisstétt til að tryggja gæði þjónustunnar sem þeir veita.

Í samanburði við nágrannalöndin er skortur á heyrnarfræðingum hér á landi. Taldar eru líkur til þess að löggilding muni fjölga nemendum í heyrnarfræði og að íslenskar menntastofnanir taki upp menntunarbraut í heyrnarfræði.

Reglugerðin er sett með stoð í lögum um heilbrigðisstarfsmenn nr. 34/2012. Hún hefur nú verið send Stjórnartíðindum og öðlast gildi við birtingu.

 

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum