Hoppa yfir valmynd

Frétt

15. júní 2018 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Heilbrigðisráðuneytið

Um Evrópuráðstefnu almannatryggingastofnana í Reykjavík

ISSA: International Social Security Association - mynd

Dagana 31. maí til 1. júní var haldin Evrópuráðstefna almannatryggingastofnana  á vegum ISSA, alþjóðasamtaka almannatryggingastofnana (e. International Social Security Association)  um réttindi til lífeyris og almannatrygginga út frá kynja- og jafnréttissjónarmiðum. Ráðstefnan var haldin í Reykjavík í samstarfi við Tryggingastofnun og jafnréttisteymi velferðarráðuneytisins.

Kynbundinn munur á áunnum lífeyrisréttindum og greiðslum var til umræðu og var sjónum beint að orsökum þess að konur njóta minni réttinda og lægri greiðslna, m.a. vegna lægri ævitekna kvenna sem myndast af keðjuverkun kynjaskiptingar starfa og þeirrar staðreyndar að enn eru konur líklegri til að vinna hlutastörf og eru lengur frá launaðri vinnu vegna ábyrgarðar á ólaunuðum heimilis- og umönnunarstörfum. Jafnframt var rætt um lausnir á vandanum til framtíðar og aðferðir til úrbóta í formi samþættingar kynja- og jafnréttissjónarmiða í stefnumótun og starfsemi sem lýtur að almannatryggingum. Einnig var rætt hvaða áhrif fjórða iðnbyltingin getur haft á lífeyrisréttindi og almannatryggingar.

Meðal fyrirlesara var Hans-Horst Konkolewsky framkvæmdastjóri ISSA, Monika Queisser, yfirmaður félags- og atvinnumála hjá Efnahags- og framfarastofnuninni (OECD), og Miguel de la Corte Rodriguez, sérfræðingur hjá jafnréttisdeild framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (ESB),  auk sérfræðinga frá fagstofnunum almannatrygginga á Norðurlöndunum og Þýskalandi og frá velferðarráðuneytinu og Háskóla Íslands.

Gerð var grein fyrir tillögu að tilskipun ESB sem lýtur að aðgerðum til að ná fram auknu jafnrétti kvenna og karla á vinnumarkaði (e. work-life balance proposal). ESB hefur m.a. litið til þeirra leiða sem hafa verið farnar hérlendis til að jafna stöðu og rétt kynjanna, einkum feðraorlofið og jafnlaunavottunin, sem íslenskir sérfræðingar gerðu nánar grein fyrir á ráðstefnunni.  Sérfræðingur frá Noregi gerði grein fyrir þeim leiðum sem farnar hafa verið til að jafna þann 27% mun sem er í lífeyrisgreiðslum til karla og kvenna en 7% eftir að hann hefur verið leiðréttur með aðferðarfræði samþættingar kynja- og jafnréttissjónarmiða. Gerð var grein fyrir reynslu af samþættingu kynja- og jafnréttissjónarmiða í Finnlandi og Svíþjóð og að lokum fjallaði sérfræðingur OECD um vinnumarkað framtíðar og endurskoðun almannatryggingarkerfisins sem endurspeglar að takmörkuðu leyti  veruleika samtímans, þar með talið nútíma atvinnuhætti, fjölskyldu- og búsetuform.

Dagskrá ráðstefnunnar er hægt að nálgast hér sem og framsöguræður Hönnu Sigríðar Gunnsteinsdóttur, skrifstofustjóra lífskjara og vinnumála í velferðarráðuneytinu, og Hans-Horst Konkolewsky framkvæmdastjóri ISSA.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum