Hoppa yfir valmynd

Frétt

19. júní 2018 Forsætisráðuneytið

Ávarp Katrínar Jakobsdóttur, forsætisráðherra, við úthlutun úr Jafnréttissjóði - 19. júní 2018

Ágætu gestir,

Til hamingju með daginn!

Það er mér sérstakur heiður að fá að taka þátt í þessari athöfn. Ég var ein af flutningsmönnum þingsályktunartillögu um Jafnréttissjóð þegar hann var settur á laggirnar í tilefni af aldarafmæli kosningaréttar kvenna á Íslandi. Tillagan var samstarfsverkefni formanna allra flokka sem þá áttu sæti á Alþingi. Ég nefni það hér til að minna á að stundum tekst okkur stjórnmálamönnunum ágætlega til þegar við vinnum saman!

Ég held að um margt hafi hátíðarhöldin í tilefni af aldarafmælinu verið vel heppnuð. Þau minntu okkur á söguna, á baráttu kvenna fyrir lýðræðislegum réttindum sínum og á það réttleysi sem þorri almennings á Íslandi bjó við fyrir aðeins einni öld, þegar lýðræðið var ekki allra heldur eingöngu hinna fáu, það er karla sem bjuggu á eigin heimili, borguðu skatta, áttu eignir eða höfðu lokið háskólaprófi. Aldarafmæli kosningaréttarins var einnig kærkomið tækifæri til að horfa um öxl, fagna þeim áföngum sem náðst hafa og þakka því baráttufólki sem lagði allt sitt í sölurnar til að byggja upp samfélag jafnréttis og lýðræðis. En á sama tíma minnti aldarafmælið okkur á að við eigum enn langt í land.

Ég játa að það kemur stundum á mig hik þegar ég er til viðtals í erlendum miðlum sem vilja vita allt um hvers vegna Ísland er best í heimi í kynjajafnrétti. Því vissulega höfum við frá mörgu að segja í alþjóðlegu samhengi. Persónulega á ég mikið undir þeim tækjum sem hér hafa verið innleidd í þágu kynjajafnréttis. Ef ekki væri fyrir almenna leikskóla, temmilega heildstæðan skóladag og fæðingarorlof karla og kvenna hefði verið þrautinni þyngra að taka þátt í stjórnmálum samhliða því að byggja upp fjölskyldu. Og í hvert skipti sem ég ræði við konur sem búa í löndum þar sem þessi mál hafa ekki verið tekin föstum tökum fyllist ég þakklæti í garð þess baráttufólks sem ruddi veginn hér á landi. Þessa þekkingu vil ég flytja út því ég vil að allar konur búi við það frelsi að geta verið fjárhagslega sjálfstæðar og geta haft áhrif á samfélag sitt, óháð því hvort þær kjósa að eignast börn eða ekki. Þess vegna er ég alltaf tilbúin að boða fagnaðarerindið þegar leitað er eftir því erlendis frá.

En á sama tíma er Ísland langt frá því að vera einhver jafnréttisparadís. Í paradís myndu ekki þúsundir kvenna nota myllumerkið #metoo. Það er heldur engin paradís þar sem konur af erlendum uppruna mæta eitraðri samsetningu af kynþáttafordómum og kynbundnu ofbeldi, eins og sögur þeirra í tengslum við #metoo bylgjuna báru vitni um. Og ekki er það paradís þar sem samtök sem styðja við þolendur kynbundins ofbeldis anna ekki eftirspurn.

„Til að skilja samfélag, er nauðsynlegt að skilja sambandið milli karla og kvenna,“ sagði bandaríska baráttukonan Angela Davis. Davis var fædd í Alabama þegar aðskilnaðarstefna var enn við lýði í fjölmörgum ríkjum Bandaríkjanna og hefur alla tíð barist fyrir lýðræði og frelsi. Í hennar huga er baráttan fyrir frelsi kvenna samofin baráttunni fyrir réttindum svartra. Og allt helst það í hendur við baráttuna gegn efnahagslegu misrétti, baráttu fyrir réttindum fatlaðs fólks og hinsegin fólks og baráttu gegn hvers kyns útlendingaandúð og ofbeldi. Það nægir ekki að bæta ásýnd núgildandi valdakerfa með fjölbreytni í mannavali, heldur þarf að brjóta þau upp. En til þess að brjóta þau upp þarf að skilja þau.

Þekking á sambandinu milli karla og kvenna, á pólitíska sviðinu sem hinu persónulega, þekking á kynjakerfinu er undirstaðan, því án þekkingar komumst við skammt á veg í að breyta samfélaginu. Þess vegna hefur Jafnréttissjóður Íslands reynst afar mikilvægt tæki til að efla og styðja við rannsóknir og þekkingarsköpun hér á landi. Verkefnin hafa mörg hver beina þýðingu fyrir stefnumótun og löggjöf á sviði jafnréttismála og hjálpa okkur þannig að feta áfram veginn í átt til aukins jafnréttis.

Jafnréttismál eru þungamiðja í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og mér er mikið í mun að við höldum áfram á réttri braut. Sum verkefnin eru yfirgripsmikil og stórtæk, en önnur eru smærri að sniðum og jafnvel tæknileg. Skrefin eru stór og smá, en samanlagt þoka þau okkur áfram.

Á vordögum fullgilti Ísland Istanbúl samning Evrópuráðsins en hann er lykilplagg í baráttunni gegn ofbeldi gagnvart konum og heimilisofbeldi. Nú rétt fyrir þinglok samþykkti Alþingi frumvörp félags- og jafnréttismálaráðherra um jafna meðferð óháð kynþætti og þjóðernisuppruna annars vegar og hins vegar um jafna meðferð á vinnumarkaði, en um er að ræða löggjöf sem byggist á mismununartilskipunum Evrópusambandsins og var löngu tímabært að leiða í lög hér á landi.

Ríkisstjórnin vill koma Íslandi í fremstu röð í málefnum hinsegin fólks með metnaðarfullri löggjöf um kynrænt sjálfræði í samræmi við nýútkomin tilmæli Evrópuráðsins vegna mannréttinda intersex-fólks.

Aðgerðaáætlun um úrbætur í meðferð kynferðisbrota hefur verið fjármögnuð að fullu og er þess þegar farið að sjá merki innan réttarvörslukerfisins. Stýrihópur á mínum vegum – og með aðkomu fimm ráðuneyta – fylgir þessu starfi eftir en vinnur einnig að heildarendurskoðun á forvörnum, stefnumótun um stafrænt kynferðisofbeldi, viðbrögðum við #metoo og úrbótum á réttarstöðu brotaþola.

Innleiðing jafnlaunavottunar er í fullum gangi og þótt hún sé kannski tæknileg í eðli sínu þá gefur hún okkur samt enn eitt verkfærið til að varpa ljósi á og uppræta kynbundinn launamun. Því þótt lög um launajöfnuð hafi verið við lýði frá árinu 1961 hefur enn ekki tekist að útrýma launamuni kynjanna, hvort sem er skýrðum eða óútskýrðum.

Öll þessi viðfangsefni, þótt ólík kunni að virðast, eru nátengd. Og aukin þekking er lykillinn að betrumbótum á öllum þessum sviðum.

Þess vegna vil ég nota þetta tækifæri og þakka þeim styrkþegum sem verða kynntir hér á eftir – og fyrri styrkþegum – fyrir störf sín í þágu bættrar þekkingar á stöðu karla og kvenna – og allra kynja – í íslensku samfélagi. Þeim sem sóttu um styrk en ekki fengu vil ég líka þakka. Því þessi sjóður kemst hvergi nærri því að styðja við öll þau mikilvægu verkefni sem við eigum fyrir höndum.

Við vitum að rótgróin viðhorf breytast seint og að enn eigum við mikið verk að vinna á sviði jafnréttismála. Það er verkefni okkar allra að tryggja að kynferði hefti ekki frelsi og réttindi þeirra kynslóða sem nú vaxa úr grasi. Við viljum geta litið um öxl eftir 10, 20 eða 30 ár vitandi að við lögðum okkar lóð á vogarskálarnar.

Aftur, til hamingju með daginn!

Takk fyrir!


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum