Hoppa yfir valmynd

Frétt

29. júní 2018 Forsætisráðuneytið

5. fundur um stjórnarskrármál

Fundur formanna stjórnmálaflokka,
sem sæti eiga á Alþingi, um stjórnarskrármál

5. fundur – haldinn föstudaginn 29. júní 2018, kl. 13-18, í Ráðherrabústaðnum Þingvöllum.

Fundargerð

Mætt eru: Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra (VG), Inga Sæland (Flokki fólksins), Sigurður Ingi Jóhannsson (Framsóknarflokki), Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (Miðflokki), Helgi Hrafn Gunnarsson (Pírötum), Logi Einarsson (Samfylkingu), Bjarni Benediktsson (Sjálfstæðisflokki) og Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (Viðreisn).

Þá situr fundinn Unnur Brá Konráðsdóttir, verkefnisstjóri stjórnarskrárendurskoðunar, og Páll Þórhallsson, skrifstofustjóri forsætisráðuneytinu, sem ritar fundargerð.

1. Fundargerð síðasta fundar
Lögð eru fram drög að fundargerð síðasta fundar. Afgreiðslu frestað til næsta fundar.
Fulltrúi Pírata áréttar að það sé forsenda fyrir þátttöku Pírata í starfinu að allt efni frumvarps stjórnlagaráðs sé til umfjöllunar í þessari heildarendurskoðun.


2. Málefni 1-5 rædd
Umræður fara fram um málefni 1-5 með hliðsjón af þeim spurningum sem finna má í skjalinu Endurskoðun stjórnarskrár 2018-2021, dags. 4. apríl 2018, ásamt fleiri atriðum. 

a. Umhverfisvernd
Niðurstaðan er sú að rétt sé að halda áfram að vinna með tillöguna frá 2016. Ljóst er að sumir vilji vissulega gæta að því að hafa orðalag knappara og skýrara. Þá vanti betri útskýringar í greinargerð um áhrif slíks ákvæðis. Aðrir vilji ganga lengra og bæta fleiri atriðum við. Leitað verður til sérfræðinga um frekari rýni á tillögunni.


b. Auðlindir
Niðurstaðan er sú að rétt sé að halda áfram að vinna með tillöguna frá 2016. Fram koma m.a. ábendingar um að afmarka betur hvaða auðlindir falli undir ákvæðið. Þá er rætt um hvort skerpa megi á orðalagi hér og þar. Leitað verður til sérfræðinga um frekari rýni á tillögunni með hliðsjón af þeirri umræðu sem fram fór á fundinum.

c. Breytingaákvæði
Rætt er m.a. um hvort þörf sé á nýju ákvæði um þetta efni og þá hvernig eigi að útfæra samspil þings og þjóðar við afgreiðslu stjórnarskrárbreytinga þannig að það sé hvorki of erfitt né of auðvelt að ná þeim fram. Niðurstaðan er sú að tekið verði saman með hvaða hætti stjórnarskrárbreytingar fara fram í þeim löndum sem við helst berum okkur saman við og einnig hvernig þær leiðir hafa gefist. Það skjal verði undirstaða frekari umræðu.


d. Framsal valdheimilda
Rætt er m.a. um hvort þörf sé fyrir slíkt ákvæði og þá mögulega útfærslu þess. Nauðsynlegt er talið að taka saman ítarlegra efni sem útskýri betur hvaða þýðingu sú tillaga hafi sem unnið var með 2016 og hvernig hún myndi virka samanborið við óbreytta stjórnarskrá að þessu leiti.

e. Þjóðaratkvæðagreiðslur á grundvelli undirskrifta
Rætt er m.a. um efni tillögunnar frá 2016, ekki síst útfærslu þröskulda, og samspil við 26. gr. (synjunarvald forseta), mögulegan rétt minnihluta þingmanna, sbr. danska fyrirkomulagið, og rétt kjósenda til að eiga frumkvæði að þingmálum.

Ekki næst að tæma umræðuna um ákvæðið og ákveðið að taka hana aftur upp síðar.

3. Önnur mál
Nefndarmenn eru sammála um að fundurinn hafi verið vel heppnaður og framvegis eigi frekar að hafa færri fundi og lengri heldur en fleiri stutta fundi. Næsti fundur verður boðaður með haustinu. Þá verður rætt um II. kafla stjórnarskrárinnar um forseta og framkvæmdarvald.

Fleira ekki rætt.

Fundi slitið kl. 18.00


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum