Hoppa yfir valmynd

Frétt

29. júlí 2018 Forsætisráðuneytið

Ræða forsætisráðherra á Sturluhátíð 2018

Kæru gestir,

við lifum á tímum breytinga þar sem hið eina sem virðist mega ganga að sem gefnu er að framtíðin verði allt öðruvísi en nútíminn. Eitt af því sem hefur breytt miklu í lífi nútímafólks eru nýir miðlar til að tjá hugsun sína. Eins og Kanadamaðurinn Marshall McLuhan, upphafsmaður nútímalegrar fjölmiðlafræði, orðaði það, þá sníður miðillinn skilaboðin að sér. Við sjáum þetta víða í nútímanum, jafnvel á sviði diplómatískra samskipta, þar sem valdamesti maður heims, sjálfur Bandaríkjaforseti, setur fram stefnu gagnvart öðrum ríkjum með 280 bókstöfum á twitter.

Í samanburði við okkar tíma virðist þrettánda öldin, tími Sturlu Þórðarsonar sagnaritara, vera fjarlægur tími þar sem hlutirnir gerðust ekki jafn hratt og í nútímanum. En sú hugmynd er að ýmsu leyti blekking. Sturlungaaldarfólk upplifði mikla umbreytingartíma sem einkenndust ekki einungis af pólitískum hræringum og átökum höfðingja heldur einnig af innleiðingu nýrra miðla til að tjá hugsun sína. Sturla Þórðarson er gott dæmi um það. Sem sagnaritari var hann maður hins ritaða orðs á meðan flestar fyrri kynslóðir Íslendinga höfðu miðlað þekkingu á fortíðinni í gegnum frásagnir sem ekki voru ritaðar. Sturla var höfðingi sem reyndi að brjótast til valda með yfirráðum á tilteknu landsvæði, sem var nýjung á Íslandi um þær mundir.Að lokum gerðist Sturla Þórðarson síðan valdsmaður af nýju tagi, embættismaður Noregskonungs sem Íslendingar gengust undir á þriggja ára tímabili, árin 1262 til 1264.

Í bókinni Auðnaróðal, sem kom út árið 2016, lýsir Sverrir Jakobsson Sturlungaöld sem afsprengi breytingaskeiðs sem hófst löngu fyrr, árið 1096 þegar kirkjunni tókst að koma á nýjum skatti, tíundinni, með stuðningi höfðingja. Kirkjan var fyrsta svæðisbundna valdastofnunin á Íslandi, hún kom á svæðisbundnum biskupsstólum og kirkjusóknum. Í gegnum tíundina greiddu bændur henni skatt. Og hún nýtti sér nýjan miðil að miðla boðskap sínum, hið ritaða orð. Í Jóns sögu helga er sagt frá fyrsta skólameistaranum í Hólaskóla, sem stofnaður var í upphafi 12. aldar, Gísla Finnasyni, að
„ávallt er hann prédikaði fyrir fólkinu þá lét hann jafnan liggja bók fyrir sér og tók þar af slíkt er hann talaði fyrir fólkinu, og gerði hann þetta mest af forsjá og lítillæti, að þar hann var ungur að aldri þótti þeim meira um vert er til hlýddu að þeir sæi það að hann tók sínar kenningar af helgum bókum en eigi af einu saman brjóstviti.“
Í samfélagi þar sem allt snerist um hið talaða orð hefur þetta verið gríðarleg nýjung. Þetta er andstæða við það hvernig höfðingjar höguðu máli sínu. Dæmi um höfðingja af gamla skólanum var Sturla Þórðarson í Hvammi, ættfaðir Sturlunga og afi Sturlu sagnaritara. Hann var kappsamur goðorðsmaður sem vildi auka völd sín og átti iðulega í deilum við aðra höfðingja í sinni heimabyggð. Samkvæmt Sturlu sögu rak Sturla mál sín af hörku á alþingi og leit á það sem leið til auka áhrif sín. Þar kemur fram að „það var oft háttur hans að setja á langar tölur um málaferli sín, því að maðurinn var bæði vitur og tungumjúkur. Vildi hann og að það væri jafnan frá borið að hans virðing yrði víðfræg“.

En fljótlega öðluðust íslenskir höfðingjar tök á nýjum miðlum og námu margt fleira af klerkunum. Þeir komu á fót héraðsríkjum og innan þeirra vildu þeir láta bændur greiða sér skatt, t.d. sauðakvöð, þar sem hver bóndi í héraðinu lagði einn sauð til framfærslu höfðingjans. Og sumir höfðingjaættir fóru að nýta sér hið ritaða orð, svo sem Oddaverjar, Haukdælir og Sturlungar. Hinir síðastnefndu hafa orðið frægastir fyrir rit sín, til dæmis Snorri Sturluson og Sturla Þórðarson, sem báðir gegndu embætti lögsögumanns um tíma. Nú á dögum er tilhneiging til að líta á Snorra og Sturlu sem rithöfunda en þeir voru fyrst og fremst stjórnmálamenn sem lögðu stund á ritstörf í hjáverkum.

Hinum nýju miðlum fylgdu aukin tækifæri fyrir suma en jafnframt þögnuðu aðrar raddir. Þorlákur biskup Þórhallsson, sem uppi var um miðja tólftu öld, lærði til dæmis „ættvísi og mannfræði“ hjá Höllu móður sinni. Konur voru kennarar ekkert síður en karlar. En allir sagnaritarar þrettándu aldar sem við getum nafngreint voru karlar þannig að sagnaritið virðist hafa verið karllægur miðill. Þó er ekki útilokað að á bak við einhverjar Íslendingasögur sem samdar voru á þrettándu öld hafi verið ættvísar og mannfróðar konur, þó að þeir fræðimenn sem leitast við að finna höfunda að þessum sögum nefni þar yfirleitt fyrst og fremst til karla, á 21. öldinni alveg eins og fyrr á tímum.

Sturlungaöldin varð til í samfélagi þar sem margt var að breytast, nýir miðlar, nýjar valdastofnanir og ný gerð af stjórnmálum. Þegar lesið er um stjórnmál þessa tíma minna þau iðulega á ævintýrasögurnar Krúnuleika (eða Game of Thrones), þar sem höfðingjar takast á, beita bæði slægð og hörku til skiptis uns einungis fáir standa eftir. Það gerðist líka á Sturlungaöld, að lokum voru einungis þrír eða fjórir höfðingjar sem réðu mestu og urðu embættismenn Noregskonungs. Þar má nefna Gissur Þorvaldsson, sem einn Íslendinga fékk að kallast jarl, en líka Hrafn Oddsson sem vann samkeppnina við Sturlu Þórðarson um völd hérna á Vesturlandi. Hrafn var tengdasonur Sturlu Sighvatssonar, bræðrungs Sturlu sagnaritara, og það var honum mjög til framdráttar þannig að segja má að eiginkona Hrafns, Þuríður Sturludóttir, hafi verið lykillinn að völdum. Sem ungabarn í vöggu lifði hún af eitt skelfilegasta hryðjuverk þrettándu aldar, Sauðafellsför, en varð að lokum áhrifamesta kona Íslands. Annar tengdasonur Sturlunga, Þorvarður Þórarinsson, nýtti sér einnig þau tengsl. Hann var giftur Solveigu Hálfdanardóttur en móðir hennar var Steinvör Sighvatsdóttur, systir Sturlu og Þórðar kakala. En þegar saga Sturlungaaldar er sögð á okkar tímum gleymast oft konurnar og hlutur þeirra í valdabaráttunni. Kannski vegna þess að sagnaritin voru ekki kvenlegur miðill á þrettándu öld.

Í ár minnumst við þess að öld er liðin síðan að Ísland varð fullvalda. Sú kynslóð sem lifði tímamótin árið 1918, og vildi reisa í verki viljans merki, var afar meðvituð um fortíðina, þar á meðal Sturlungaöld. Stór hluti sjálfstæðisbaráttunnar byggðist á því að horfa til fortíðar og fornsagna, til þess samfélags sem hér var áður en Íslendingar gengu Noregskonungi á hönd sem síðar leiddi til þess að Ísland varð hluti af Konungsríkinu Danmörku.

Fullveldinu fylgdu líka samfélagsbreytingar sem hófust reyndar á árunum áður en fullveldið varð að veruleika. Það voru Íslendingar í Kaupmannahöfn sem fyrstir skildu mikilvægi þess að vera Íslendingur og vildu efla sjálfsmynd þjóðarinnar. Það var nálægðin við heimsborgina, við erlent og annars konar samfélag, sem vakti tilfinninguna um æskuslóðirnar og þess arfs sem Íslendingar bjuggu við. Þegar þessir menn heilsuðu aftur sinni fósturjörð þá hafði hin erlenda speki veitt þeim þörf fyrir að efla það samfélag sem þeir höfðu alist upp í. Eitt af því sem efldi sjálfstraust Íslendinga á nítjándu öld voru sögurnar, menningararfurinn sem naut virðingar út fyrir landsteinana. Og fullveldið skipti máli fyrir örlög Íslendinga. Það var að sönnu sá aflgjafi sem knúði fram þær framfarir sem gerbreyttu íslensku samfélagi, veitti þjóðinni þor til að byggja upp menntakerfi, velferðarkerfi og sækja fram á ólíkum sviðum. Þannig hefur fullveldið verið undistaða allrar okkar efnahagslegu velsældar og velferðar.

Nú, hundrað árum eftir stofnun fullveldis, og margar aldir eru liðnar síðan Sturlungar og aðrir tókust á um völdin á Íslandi, er samfélagið breytt. Við sem hér búum erum talsvert fjölbreyttari hópur en þá, hér eru töluð fleiri tungumál, uppruni fólks, saga og hefðir eru fjölbreyttari og samfélagið allt hefur tekið stórstígum breytingum á öllum sviðum. Meira að segja landið væri líklega óþekkjanlegt Sturlu Þórðarsyni enda mennirnir sett sitt mark á það og ósnortin náttúra orðin fágætt verðmæti. Það eru mun fleiri sem eiga raddir og fleiri sem hafa áhrif á allar ákvarðanir sem teknar eru, sem betur fer. En það sem hefur ekki breyst er að miðlarnir móta að miklu leyti boðskapinn.

Tilkoma samfélagsmiðla hefur gerbreytt skynjun allra á veruleikanum. Það er liðin tíð að menn hæðist að andstæðingnum með dróttkvæðri vísu eins og sjá má dæmi um í Íslendinga sögu Sturlu Þórðarsonar. Sennilega er of tímafrekt að yrkja á dögum þar sem hvert orð fræga fólksins getur deilst um allan heim á örfáum mínútum. Það líður ekki sá dagur að fjölmiðlar beri ekki á borð endursögn á því hvað hafi verið sagt á ýmsum samfélagsmiðlum þann daginn og þar eru sagnirnar hjóla og hrauna mikið notaðar sem hvorug kemur fyrir í verkum Sturlu Þórðarsonar.

Í breytingum af þessu tagi græða einhverjir og aðrir eru hliðarsettir. Andstætt því sem við þekkjum frá innreið hins nýja miðils á Sturlungaöld, þar sem raddir kvenna fengu ekki að heyrast, er kosturinn við nýja miðla okkar tíma að hver sem er hefur aðgang að ræðustól og á möguleika á að ná eyrum alls heimsins. Í þessu felst mikil ábyrgð sem við eigum ef til vill eftir að ná betri tökum á, en að sama skapi tækifæri til raunverulegra áhrifa.

En þó að við öll höfum aðgang að ræðustólnum eru áhrif okkar mismikil. Nú um mundir er áhrifamest að vera ófeilinn tíst-skemmtikraftur eða raunveruleikastjarna og hugsanlega eru mestu skemmtikraftarnir mestu stjórnspekingarnir í nútímanum, það eru þeir sem hafa nýtt sér hina nýju miðla til að ná völdum og áhrifum alveg eins og þeir ágætu stjórnspekingar sem náðu undirtökunum á Sturlungaöld.

Um þessar breytingar er mikilvægt að við séum meðvituð. Við megum ekki leyfa þeim að leiða til fáræðis og fábreytni, við verðum að gæta þess að samfélag okkar glati ekki þeim mikla ávinningi sem náðst hefur á sviði mannréttinda og lýðræðis, fjölræðis og fjölbreytni í þeim miklu breytingum sem nú eiga sér stað. Tækifærin sem felast í tæknibreytingum okkar tíma þarf að nýta með ábyrgð.

Nú þegar við fögnum 100 ára fullveldisafmæli upplifum við enn og aftur umbreytingartíma, líkt og Sturlungaaldarfólk upplifði og þau sem börðust fyrir sjálfstæði Íslands. Nýtum þau tímamót til að velta fyrir okkur gildum komandi hundrað ára; hvernig við getum tryggt að eftir hundrað ár verði hér land þar sem við öll fáum að njóta okkar, jafnaðar- og velferðarsamfélag, þar sem ósnortin náttúra hefur verið vernduð og við tökum saman ákvarðanir eftir lýðræðislegum leikreglum. Þar skiptir ekki minnstu að muna hvaðan við komum og hver við erum. Mikilvægur þáttur í því er að standa vörð og efla okkar menningararf því hann er okkar mikilvæga framlag inn í heimsmenninguna.

Kæru gestir, gleðilega Sturluhátíð og til hamingju með fullveldisafmælið.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum