Hoppa yfir valmynd

Frétt

24. september 2018 Heilbrigðisráðuneytið

Fundað um fyrirkomulag sérgreinaþjónustu og næstu skref

Velferðarráðuneytið Skógarhlíð - myndVelferðarráðuneytið

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra kynnti hugmyndir sínar um framtíðarfyrirkomulag við kaup á þjónustu sérgreinalækna á fundi í velferðarráðuneytinu í dag. Ráðherra lýsti þar vilja sínum til að framlengja gildandi rammasamning um eitt ár meðan unnið yrði að breyttu fyrirkomulagi.

Til fundarins voru boðaðir sömu aðilar og ráðherra fundaði með í júlí síðastliðnum til að ræða um þjónustu sérgreinalækna og faglegt fyrirkomulag hennar með stefnumótun til framtíðar að leiðarljósi. Þetta voru fulltrúar frá Samtökum heilbrigðisfyrirtækja, Læknafélagi Íslands, Sjúkratryggingum Íslands, Læknafélagi Reykjavíkur, Landspítala, Sjúkrahúsinu á Akureyri, Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, auk eins fulltrúa sameiginlega frá heilbrigðisstofnunum allra heilbrigðisumdæma landsins.

Ráðherra leggur áherslu á vilja sinn til að koma á skipan sem stuðlar að samfelldri þjónustu við sjúklinga og tryggir sem best samspil milli meginstoða heilbrigðiskerfisins, þ.e. heilsugæslu, heilbrigðisstofnana, sjálfstætt starfandi heilbrigðisstétta og sérhæfðra sjúkrahúsa.

Ráðherra segir ljóst að endurskipuleggja þurfi fyrirkomulag þessara mála. Ýmsar leiðir komi til greina í þessum efnum og þar horfi hún sérstaklega til kaupa á þjónustu sérgreinalækna á grundvelli sérstakrar forauglýsingar þar sem samið yrði við skipulagðar rekstrareiningar sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólks. Breytt fyrirkomulag kalli á vandaða greiningarvinnu, góðan undirbúning og samráð við hagsmunaaðila. Því sé æskilegt að framlengja gildandi rammasamning.  Framkvæmd hans á gildistímanum verði að byggja á niðurstöðu héraðsdóms sem kveður á um að fram fari faglegt mat á hverri umsókn læknis sem óskar eftir að starfa á grundvelli rammasamningsins.

„Ég er vongóð um að það megi ná niðurstöðu um fyrirkomulag sem allir geta vel við unað og sem er í þágu sjúklinga“ segir Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.

 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum