Hoppa yfir valmynd

Frétt

28. september 2018 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Íslenska í öndvegi: stutt við útgáfu bóka

Frumvarp til laga um stuðning við útgáfu bóka á íslensku verður lagt fram á Alþingi í októberbyrjun. Markmið nýrra laga er að efla bókaútgáfu á íslenskri tungu í ljósi mikilvægis hennar fyrir þróun íslenskunnar og bætt læsi þjóðarinnar. Frumvarpið er liður í aðgerðum til stuðnings íslensku máli og heimilar endurgreiðslu 25% kostnaðar vegna útgáfu bóka á íslensku. Áætlað framlag vegna þessa er um 400 milljónir kr. frá og með árinu 2019 en sú fjárhæð er um 17% af núverandi veltu íslenskrar bókaútgáfu miðað við tölur síðasta árs.

„Við höfum kynnt heildstæðar aðgerðir til stuðning íslenskunni og þetta frumvarp er mikilvægur liður í þeim. Það er staðreynd að lestur og bóksala hefur dregist verulega saman á undanförnum árum og það er ekki síst á herðum íslenskrar bókaútgáfu að bregðast við þeim aðstæðum og þróa sína útgáfu svo hún mæti betur lesendahóp dagsins í dag. Þessi endurgreiðsluleið skapar tækifæri til þess og von okkar er að hún muni hafa jákvæða keðjuverkun í för með sér fyrir íslenska lesendur og alla þá er koma að bókaútgáfu hér á landi,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Ráðgert er að endurgreiðslurnar muni hvetja til aukinnar útgáfu á prenti og rafrænum miðlum og auka framboð og fjölbreytni efnis fyrir lesendur. Fordæmi fyrir þessari stuðningsleið má meðal annars finna í tímabundnum endurgreiðslum vegna kvikmyndagerðar og hljóðritunar sem gefist hafa vel.

Helstu skilyrði fyrir endurgreiðslum samkvæmt frumvarpinu:
• Útgefin bók sé á íslensku.
• Umsækjandi sé skráður virðisaukaskattsskyldur aðili.
• Endurgreiðsluhæfur kostnaður umsækjanda nemi a.m.k. 1.000.000 kr.
• Umsækjandi færi bókhald yfir kostnað í samræmi við lög um bókhald og ársreikninga.
• Umsækjandi sé ekki í vanskilum við opinbera aðila.
• Hafi umsækjandi hlotið styrk frá opinberum aðilum til útgáfu sömu bókar dregst styrkurinn frá þeirri fjárhæð sem telst endurgreiðsluhæfur kostnaður.

Fyrirhugað er að gerð verði úttekt á árangri þessarar aðgerðar fyrir lok árs 2022 og lögin komi til endurskoðunar fyrir 31. desember 2023.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum