Hoppa yfir valmynd

Frétt

16. október 2018 Utanríkisráðuneytið

Minningarathöfn markar upphaf Trident Juncture 2018 á Íslandi

Guðlaugur Þór Þórðarson og James Foggo aðmíráll - myndLHG
Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og James E. Foggo aðmíráll leiddu í morgun minningarathöfn um þau sem létu lífið vegna átaka á Atlantshafi í síðari heimsstyrjöld. Athöfnin markar upphaf varnaræfingarinnar Trident Juncture 2018 á Íslandi. 

Athöfnin í morgun fór fram um borð í varðskipinu Þór á ytri höfninni í Reykjavík. Auk utanríkisráðherra og Foggo aðmíráls voru viðstaddir dómsmálaráðherra, erlendir sendiherrar á Íslandi, íslenskir embættismenn, yfirmenn úr Bandaríkjaher og fjölmiðlar. 

75 ár eru um þessar mundir síðan þáttaskil urðu í orrustunni um Atlantshafið, lengstu samfelldu orrustu seinni heimsstyrjaldar, og bandamenn náðu undirtökunum. Yfir eitt hundrað þúsund manns týndu lífi vegna átakanna á hafinu, þar af um tvö hundruð Íslendingar. Við athöfnina í morgun var þessa fólks minnst. Að loknum ávörpum köstuðu Guðlaugur Þór og Foggo, sem er aðalstjórnandi Trident Juncture-æfingarinnar, blómsveig í hafið og viðstaddir minntust látinna með stuttri þögn. Varðskipsmenn stóðu heiðursvörð meðan á athöfninni stóð. 

„Orrustan um Atlantshafið var ein þýðingarmesta orrusta seinni heimstyrjaldar og það er mikið vafamál hvort sigur hefði unnist í stríðinu ef bandamenn hefðu ekki náð undirtökum á hafinu. Orrustan kostaði miklar fórnir og þess minnumst við í dag. Um leið minnumst við líka þess að Ísland á allt undir því að siglingaleiðir um Atlantshaf séu greiðar og óhindraðar. Það átti við á heimsstyrjaldarárunum og á jafn vel við í dag,“ sagði Guðlaugur Þór að lokinni athöfninni. 

Minningarathöfnin í morgun markar upphaf varnaræfingarinnar Trident Juncture 2018 á Íslandi. Í fyrramálið er gert ráð fyrir að bandarískir landgönguliðar æfi lendingu á Reykjanesskaga og síðar í vikunni verður haldin í Reykjavík skipulagsráðstefna vegna aðalæfingarinnar í Noregi. Von er á um tíu herskipum frá Bandaríkjunum, Bretlandi, Danmörku og Kanada hingað til lands með allt að sex þúsund sjóliða. Um leið verður efnt til svonefndrar vetraræfingar í Þjórsárdal með 400 landgönguliðum hvorn dag. Skipin halda svo til Noregs 21. október. 

Aðalæfing Trident Juncture 2018 fer fram í Noregi, á Norður-Atlantshafi, Eystrasalti og í lofthelgi Svíþjóðar og Finnlands. Hún hefst 25. október og stendur til 7. nóvember og taka þátt í henni fimmtíu þúsund hermenn og borgaralegir sérfræðingar frá meira en þrjátíu aðildarríkjum bandalagsins og samstarfsríkjum, þar á meðal Svíþjóð og Finnlandi. Æfðar verða sameiginlegar varnir með vísan til fimmtu greinar Atlantshafssáttmálans. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum