Hoppa yfir valmynd

Frétt

19. október 2018 Heilbrigðisráðuneytið

Heilsa Evrópubúa – mat á markmiðum Evrópudeildar Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar

Embætti landlæknis - myndVelferðarráðuneytið

Nýútkomin Heilbrigðisskýrsla Evrópu 2018 gefur vísbendingar um jákvæða þróun á flestum sviðum þegar mat er lagt á lykilmarkmið heilbrigðisstefnu Evrópu til ársins 2020 sem Evrópuskrifstofa Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) birti árið 2012. Heilsufarslegur ójöfnuður er hins vegar viðvarandi vandamál, t.d. milli kynja og einnig svæðisbundinn ójöfnuður og er nokkuð fjallað um það í skýrslunni.

Embætti landlæknis hefur unnið samantekt upp úr skýrslunni og er hún aðgengileg í nýlegum Talnabrunni embættisins. Í skýrslunni er greint frá dæmum um árangursrík verkefni innan aðildarríkjanna sem stuðla að heilsu og vellíðan íbúa. Eitt slíkt dæmi er frá Íslandi þar sem fjallað er um tilurð og tilgangi lýðheilsuvísa Embættis landlæknis og notkun þeirra í heilsueflandi starfi.

Eitt af markmiðum evrópsku heilbrigðisstefnunnar (Health 2020) er að aðildarríkin setji sér heilbrigðisstefnu og markmið sem taki mið af stefnu Evrópu. Fram kemur að flest þeirra Evrópulanda sem ekki hafa sett sér slíka stefnu vinni nú að slíkri stefnumótun og er Ísland þeirra á meðal.

Vísað er til þess að alþjóðlegar greiningar gefi til kynna að ef bein útgjöld heimila vegna heilbrigðisþjónustu eru undir 15% af heildarútgjöldum til heilbrigðismála í viðkomandi landi sé lítil hætta á að fjölskyldur lendi í fjárhagslegum vandræðum vegna heilbrigðisútgjalda. Árið 2014 var hlutfall útgjalda heimilanna hærra en sem nemur þessum 15% þröskuldi í 40 Evrópulöndum. Á Íslandi nam hlutur heimila í heildarútgjöldum til heilbrigðismála tæpum 19% árið 2014 en 17,4% árið 2017, samkvæmt upplýsingum Hagstofu Íslands.

Heilbrigðisstefna Evrópu byggir á ákveðnum grunngildum en þau eru sanngirni, sjálfbærni, gæði, gagnsæi, ábyrgð, jafnrétti kynja, virðing og réttur til að taka þátt í ákvarðanatöku. Þessi grunngildi hvetja til einstaklingsmiðaðrar heilbrigðisþjónustu, að stutt sé við heilsueflingu á öllum æviskeiðum og stuðlað að jöfnuði og heilbrigði fyrir alla.

Samantekt Embættis landlæknis í heild í Talnabrunni á vef embættisins

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum