Hoppa yfir valmynd

Frétt

24. október 2018 Forsætisráðuneytið, Forsætisráðuneytið

Ráðherranefnd um jafnréttismál fundar á kvennafrídeginum 24. október 2018

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Sigríður Á. Andersen, dómsmálaráðherra, Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra og Ásmundur Einar Daðason, félags- og jafnréttismálaráðherra - mynd
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, hélt fund í ráðherranefnd um jafnréttismál ásamt Ásmundi Einari Daðasyni, félags- og jafnréttismálaráðherra, Sigríði Á. Andersen, dómsmálaráðherra, Svandísi Svavarsdóttur, heilbrigðisráðherra og embættismönnum, á kvennafrídeginum 24. október 2018.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra:

„Við fórum yfir mörg brýn og mikilvæg mál á fundinum. Fyrir liggur að margt er enn óunnið á sviði jafnréttismála innan samfélagsins og #églíka byltingin hefur svo sannarlega vakið okkur til umhugsunar um það. Mér finnst afar mikilvægt að minna á það á kvennafrídeginum en ekki síður alla hina daga ársins líka og það mun þessi ríkisstjórn gera.“

Kynnt voru drög að áherslum stjórnvalda í aðgerðum gegn mansali á fundinum en meðal annars er gert ráð fyrir vitundarvakningu um mansal og hvernig komið verði í veg fyrir hagnýtingu á vinnandi fólki, greiningu á mögulegum þolendum mansals og aðstoð og vernd í þágu mögulegra þolenda mansals. Gert er ráð fyrir að samráð hefjist á næstu vikum við fjölda hagsmunaaðila um aðgerðir gegn mansali.

Ákveðið var að hefja vinnu við samræmda og heildstæða stefnu um forvarnir og fræðslu sem hafa það markmið að útrýma kynferðislegu ofbeldi, kynferðislegri og kynbundinni áreitni og öðru kynbundnu ofbeldi. Gert er ráð fyrir því að sjónum verði einkum beint að menntakerfinu og íþróttastarfi í því verkefni auk þess sem markmiðið er að efla vitund og þekkingu á eðli og afleiðingum ofbeldis og áreitni innan samfélagsins í heild. Víðtækt samráð verður m.a. haft við frjáls félagasamtök sem hafa unnið mikið starf á þágu forvarna og fræðslu innan samfélagsins í þeirri vinnu sem framundan er.

Jafnframt fjallaði ráðherranefndin um áætlun um kynjaða fjárlagagerð frá 2019 til 2023 og vakin var athygli á ýmsum verkefnum sem hefur verið bætt úr í ljósi greiningar á grundvelli kynjaðrar fjárlagagerðar. Þá var farið yfir stöðu jafnlaunavottunar á vettvangi hins opinbera og á einkamarkaði.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

5. Jafnrétti kynjanna

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum