Hoppa yfir valmynd

Frétt

30. október 2018 Forsætisráðuneytið

Forsætisráðherra Íslands og Bretlands funda í Ósló

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, og Theresa May, forsætisráðherra Bretlands - mynd
Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, áttu tvíhliðafund í Ósló í dag. Forsætisráðherrarnir ræddu meðal annars tvíhliða samstarf ríkjanna, Brexit og alþjóðalega baráttu gegn mansali.

Íslensk stjórnvöld, í samstarfi við Noreg og Liechtenstein, hafa undanfarna mánuði átt í viðræðum við bresk stjórnvöld með það að markmiði að endurspegla í samningi sín á milli þá þætti í útgöngusamningi Bretlands og ESB sem varða þessi ríki. Þar má helst nefna réttindi Íslendinga sem dvelja í Bretlandi til áframhaldandi búsetu eftir útgöngu Bretlands úr ESB og EES og gagnkvæm réttindi breskra borgara.

Viðræður við bresk stjórnvöld hafa gengið vel og eru langt á veg komnar. Á fundinum sagði Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, íslensk stjórnvöld vera reiðubúin til að tryggja réttindi breskra ríkisborgara á Íslandi til áframhaldandi dvalar jafnvel þó svo ólíklega færi að ekki næðust samningar um útgönguskilmála á milli Bretlands og ESB.

„Á fundinum kom fram sá skýri vilji beggja þjóða að við viljum tryggja að réttindi þeirra Íslendinga sem búa á Bretlandseyjum og þeirra Breta sem búa á Íslandi verði óbreytt óháð því. Ég var ánægð með að May staðfesti þennan vilja Breta og að þessi réttindi verða í framhaldinu tryggð með samningi um gagnkvæm réttindi borgara þessara landa, hvernig sem fer í viðræðum Bretlands og ESB“, sagði Katrín að loknum fundinum.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

16. Friður og réttlæti

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum