Hoppa yfir valmynd

Frétt

7. nóvember 2018 Innviðaráðuneytið

Ráðherra fjallaði um flutningamál framtíðar á ráðstefnu

Tónlistar- og ráðstefnuhúsið Harpa - myndVelferðarráðuneytið - ME

Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu og sveitarstjórnarráðherra fjallaði um flutninga- og samgöngumál framtíðarinnar á ráðstefnu um flutningamál í Hörpu í gær. Flutningalandið Ísland stóð að ráðstefnunni en það er vettvangur aðila úr öllum helstu greinum samgangna og flutninga hérlendis.

Í máli ráðherra kom m.a. fram að frumvarp verði lagt fram á vorþingi um samvinnu ríkis og einkaaðila til að flýta framkvæmdum í vegakerfinu sem eru í tillögu að samgönguáætlun á tímabilinu 2019-2033. Niðurstöður starfshóps, um nýjar fjármögnunarleiðir til að flýta framkvæmdum, verður rauður þráður frumvarpsins. Í vinnu við frumvarpið verður jafnframt horft til reynslu annarra þjóða sem hafa nýtt nýjar fjármögnunarleiðir að hluta eða öllu leyti.

Ráðherra fór yfir helstu vegaframkvæmdir sem eru í tillögu að samgönguáætlun sem Alþingi hefur nú til meðferðar. Áhersla væri lögð á að aðskilja aksturstefnur að Hellu, upp í Borgarnes og í flugstöðina í Keflavík en þær eru allar verðmætar flutningaleiðir inn í landið og til og frá höfuðborginni.

Fyrsta flugstefna Íslands mótuð
Í máli ráðherra kom jafnframt fram að unnið væri að því að móta fyrstu flugstefnu Íslands en talið er að flug og tengdar atvinnugreinar leggi til yfir fimmtung af vergri landsframleiðslu (VLF), en hlutfallið var 6,6% árið 2010. Tillögur að flugstefnu mun liggja fyrir á vordögum 2019. Ráðherra greindi einnig frá vinnu sem miðar að því að skoða hvort tveir flugvellir þurfi að vera á suðvesturhorninu.

Þá er starfshópur að leggja lokahönd á tillögur yfir rekstur innanlandsflugvallanna. Í máli ráðherra kom fram að brýnt væri að tryggja öryggi flugfarenda með því að ráðast í uppbyggingu á núverandi varaflugvöllum og setja þá í eitt rekstrarkerfi með sameiginlegum kostnaðargrunni. Á sama tíma munu tillögur að niðurgreiðslu farmiða íbúa á landsbyggðinni liggja fyrir.

Að lokum greindi Sigurður Ingi frá því að aldrei hafi jafn miklu fjármagni verið úthlutað til hafnarframkvæmda. Hann minnti einnig á að Þorlákshöfn væri orðin öflug inn- og útflutningshöfn og að aðliggjandi sveitarfélög í Finnafirði væru að skoða mögulega höfn sem geti gengt víðtæku hlutverki fyrir siglingar um norðurslóðir sem umskipunarhöfn, aðstaða fyrir leit og björgun og ýmsa aðra atvinnustarfsemi.

Ráðstefnan var haldin á vegum Flutningalandsins Íslands og bar yfirskriftina Horft til framtíðar. Flutningalandið Ísland er vettvangur aðila úr öllum helstu greinum samgangna og flutninga hérlendis. Markmið vettvangsins er að auka skilning á mikilvægi flutningakerfisins fyrir samkeppnishæfni þjóðarinnar og efla samstarf á milli aðila í greininni.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum