Hoppa yfir valmynd

Frétt

9. nóvember 2018 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ávarp umhverfis- og auðlindaráðherra á XI. Umhverfisþingi

Góðan dag og verið öll hjartanlega velkomin á XI. Umhverfisþing umhverfis- og auðlindaráðuneytisins. Það er ánægjulegt að sjá ykkur og fá að vera með ykkur hér í dag.

Í júní árið 1999 kom ég í fyrsta skipti inn á miðhálendi Íslands. Áfangastaðurinn var ekki af lakari endanum: Þjórsárver. Svæðið sem svo lengi hafði verið deilt um hvort ætti að virkja eða vernda, sökkva eða hlífa. Ég var heppinn því Þjórsárver áttu eftir að verða sumardvalarstaður minn þetta árið, þar sem ég aðstoðaði við rannsóknir á plöntum. Dvöl mín var svo miklu, miklu meira en rannsóknir – þetta var upplifun og þroskaferli. Að kynnast hálendinu, töfrum þess og ógnum.

Fell eitt skagar fram úr Hofsjökli sem setur mikinn svip á Þjórsárverasvæðið og heitir Hjartafell. Skriðjöklar, hvor sínu megin við fellið, gera það hjartalaga í laginu. Ásýnd Þjórsárverasvæðisins, hugskotin sem lifa með mér, tengjast á margan hátt Hjartafelli. Nú 20 árum síðar hafa skriðjöklarnir hopað, þynnst og lækkað í landinu – og eftir stendur Hjartafell sem ekki er lengur eins og hjarta í laginu. Ástæðan er loftslagsbreytingar og hlýnun Jarðar. Hjartafell er þannig tákngervingur þeirra hnattrænu umhverfisbreytinga sem eiga sér nú stað á Jörðinni. Og eðlilegt er að spyrja: Er hjartað að hverfa?

Í ráðherratíð minni hef ég lagt mesta áherslu á fjögur atriði sem öll tengjast því í raun að gæta að hjartanu: Baráttu fyrir árangri í loftslagsmálum, baráttu fyrir aðgerðum vegna plastmengunar, áherslu á friðlýsingar og fjármögnun alls málaflokksins. Kannski eru stærstu tíðindin þau að fjármagn fylgir nú aðgerðum. Það markar straumhvörf í umhverfis- og náttúruvernd á Íslandi.

Umhverfisþing er nú haldið í XI. skipti. Að þessu sinni hverfist það um náttúruvernd. Efnið er mikilvægt því náttúruvernd er framtíðarmál. Hún nær yfir miklu meira en eitt kjörtímabil. Ákvarðanir í dag munu hafa áhrif á næstu árum og áratugum, rétt eins og friðlýsing Þingvalla var framtíðarmál á sínum tíma, nú eða stækkun efnahagslögsögunnar.

Mikil vinna er nú í gangi hjá stjórnvöldum hvað varðar náttúruvernd og það helsta sem mig langar að nefna er:

• Að stofna þjóðgarð á miðhálendi Íslands,
• Að framfylgja átaki í friðlýsingum,
• Að vinna að gerð fyrstu framkvæmdaáætlunar náttúruminjaskrár um nýjar friðlýsingar,
• Að byggja upp innviði fyrir ferðamenn á friðlýstum svæðum og víðar til verndar náttúrunni,
• Að sameina stofnanir sem vinna að náttúruvernd en vinna við frumvarp um það er á lokametrunum,
• Að auka endurheimt vistkerfa, þ.m.t. endurheimt votlendis og birkiskóga,
• Að vinna að endurbótum á löggjöf um landgræðslu og skógrækt.
• Að endurskoða landsskipulagsstefnu m.t.t. landslags, landnotkunar og breytinga á landnotkun.

Að auki við þetta er auðvitað ómæld önnur vinna unnin hjá stofnunum ráðuneytisins og náttúrustofum.

Miðhálendisþjóðgarður er skrifaður inn í sáttmála ríkisstjórnarinnar, en rætt verður um undirbúning að stofnun hans hér á eftir. Þjóðgarðurinn yrði langstærsta framlag Íslands til náttúruverndar í heiminum hingað til.

Á miðhálendinu er að finna ein stærstu lítt snortnu víðerni Evrópu. Þar er víða mjög víðsýnt og þar kallast eyðisandar á við jökla með gróðurvinjum við upptök stærstu jökuláa landsins. Andstæðurnar eru magnaðar.

Svæðið spannar ótrúlega fjölbreytni í landslagi og jarðmyndunum eins og umsókn Íslands um að setja Vatnajökulsþjóðgarð á heimsminjaskrá UNESCO ber skýrt vitni um.
Miðhálendið er höfuðborg náttúrunnar á Íslandi.

En hver á miðhálendið? Er það ríkið? Eru það sveitarfélög? Eru það einstakir landeigendur? Er það þjóðin?

Sennilega geta allir þessir aðilar gert tilkall til eignarhalds á þessu svæði. Og, það er einmitt fegurðin í þessu – það er eins og Þingvellir – í huga okkar sameign. Það eru svo margir sem nýta og njóta hálendisins í dag sem vinna gott starf. Hvort sem það er landbótastarf á Kili, göngu- eða jeppaferðir ferðafélaga eða ferðaþjónustuaðila, náttúruverndaraðgerðir margvíslegar, rekstur fjallaskála, veiðar eða annað. Rödd þessa fólks er mikilvæg við stofnun þjóðgarðs og þegar kemur að rekstri hans. Þess vegna er samráð og samstarf við sveitarfélög, útivistarfélög, nytjaréttarhafa, landeigendur, náttúruverndarsamtök, bændur, ferðaþjónustuaðila og aðra þá sem nýta og njóta hálendisins, gríðarlega mikilvægt í þessu verkefni.

Á þinginu hér á eftir verður farið í saumana á friðlýsingum og þeim tækifærum sem í þeim geta falist. Í júní sl. kynnti ég í ríkisstjórn áætlun um átak í friðlýsingum. Átakið hverfist í fyrsta lagi um að ráðast í friðlýsingar á grundvelli verndarflokks rammaáætlunar um vernd og orkunýtingu landsvæða. Í öðru lagi að vinna að friðlýsingum á grundvelli náttúruverndaráætlana sem samþykktar hafa verið á Alþingi og í þriðja lagi að friðlýsa viðkvæm svæði sem eru undir álagi ferðamanna.

Til að vinna að framgangi átaksins var ákveðið að ráðast í nokkur verkefni og samstarf aukið milli Umhverfisráðuneytisins og Umhverfisstofnunar sem lögum samkvæmt ber að undirbúa friðlýsingar. Teymi sérfræðinga frá báðum aðilum vinnur nú saman að þessu átaki.
Einnig er unnið að ýmsum samstarfsverkefnum sem lúta að nýrri hugsun og nýrri nálgun í náttúruvernd og á friðlýsingu svæða. Hagfræðistofnun Háskóla Íslands var fengin til að meta efnahagsleg áhrif friðlýstra svæða hérlendis með umfangsmikilli rannsókn og verða niðurstöður hennar kynntar hér í dag. Þá er fram undan rannsóknarverkefni sem unnið verður í samstarfi við HHÍ og Landshlutasamtök sveitarfélaga þar sem settar verða upp sviðsmyndir um tækifæri sem geta falist í nýjum friðlýsingum.

Þá munu talningar ferðamanna á friðlýstum svæðum verða auknar og unnið er að undirbúningi að samstarfsverkefni ráðuneytisins og Bændasamtaka Íslands um hvernig bændur geti í auknu mæli tekið að sér verkefni í náttúruvernd.
Þetta allt mun skila okkur mikilvægum upplýsingum og tillögum sem geta haft gríðarlega jákvæð áhrif á náttúruvernd í landinu og aukið tækifæri samfélaga vítt og breitt um land til atvinnusköpunar í sátt við náttúru og umhverfi.

Eðlilegt er að spyrja: Hvernig gengur átakið í friðlýsingum?

Því er til að svara að nú þegar hafa friðlýsingarskilmálar fyrir fimm svæði í verndarflokki rammaáætlunar verið sendir út til kynningar og ekki er langt að bíða þess að fleiri bætist í hópinn. Hægt ætti að vera að ljúka þessum friðlýsingum fyrir mitt næsta ár.
Friðlýsing tveggja svæða sem viðkvæm eru gagnvart ágangi ferðamanna er í pípunum og fleiri til skoðunar. Þessi tvö svæði eru Reykjadalur í Ölfusi og Gjáin í Þjórsárdal og hafa fundir verið haldnir fundir með heimamönnum og stutt í að auglýsa megi áform um friðlýsingu þessara svæða.

Að auki við þetta hafa Umhverfisstofnun og ráðuneytið tekið að vinna að óskum sveitarfélaga um friðlýsingar, sem ekki endilega falla undir ofangreinda flokka. Nýtt dæmi um það eru friðlýsingaráform Akureyjar á Kollafirði sem nýlega voru send til kynningar.
Góðir umhverfisþingsgestir: Friðlýsingarhjólin eru aftur farin að snúast.

En þá er kannski vert að spyrja sig einnar grundvallarspurningar. Hvers vegna að friðlýsa svæði? Dregur það ekki bara fleiri ferðamenn að, virkar eins og segull á málm?
Nýjar íslenskar rannsóknir sýna að fólk á landsbyggðunum sér mikil tækifæri í ferðamönnum og ferðaþjónustu. Rannsóknir sýna jafnframt að fólk hefur áhyggjur af því að ferðaþjónustunni fylgi of mikið álag á umhverfið og náttúruna. Þetta kom m.a. fram á Byggðaráðstefnu í Stykkishólmi í nýliðnum mánuði. Við vitum líka að fólk kemur hingað til lands fyrst og fremst til þess að upplifa náttúruna, hið ósnortna og villta. Það liggur því fyrir að nauðsynlegt er að búa til skýra umgjörð svo að tækifærin sem fólk sér í ferðamönnum glatist ekki og að áhyggjum fólks vegna ágangs sé mætt og þær raungerist ekki.

Þá má spyrja: Hvernig gerum við það? Friðlýsingar eru skipulagsform, ef svo má að orði komast, til að búa til þessa umgjörð til að vernda náttúruna og upplifunina. Til að styðja við friðlýst svæði voru sett lög árið 2016 um uppbyggingu innviða á ferðamannastöðum. Fjárveitingar til slíks starfs, hvort sem það er göngustígagerð, salernisaðstaða eða aðrir innviðir, fara fyrst og fremst inn á friðlýst svæði. Stóraukin fjárframlög hins opinbera til þessa málaflokks eru fyrirhuguð samkvæmt fjármálaáætlun sem samþykkt var í apríl síðastliðnum.

Góðir gestir!

Í heimi örra umhverfis- og samfélagsbreytinga er auðvelt að missa móðinn. Við þurfum jákvæð teikn. Sjálfur bind ég miklar vonir við aðgerðaáætlun í loftslagsmálum, tillögur til að draga úr notkun plasts og það friðlýsingastarf sem nú fer fram.

Þó svo að hjartað í Hjartafelli í Þjórsárverum sé ekki lengur eins og hjarta í laginu, þá mótar enn fyrir útlínum þess. Hjartað er ekki að hverfa. Það er von.

Um leið og ég segi XI. Umhverfisþing sett og bið Björgu Magnúsdóttur fjölmiðlakonu um að stýra þinginu, vil ég vitna til orða Bandaríkjamannsins Aldo Leopolds, föður náttúrusiðfræðinnar, sem skrifaði í grein sinni The Land Ethic árið 1949:

„A thing is right when it tends to preserve the integrity, stability and beauty of the biotic community. It is wrong when it tends otherwise.”

Eitthvað er rétt þegar það varðveitir heild, stöðugleika og fegurð lífheimsins. Það er rangt ef þróunin er í aðra átt.

Takk fyrir og vertu velkomin Björg.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum