Hoppa yfir valmynd

Frétt

23. nóvember 2018 Forsætisráðuneytið

Samtal um fullveldi og þjóðaröryggi - Ávarp á málþingi þjóðaröryggisráðs

Góðan dag gott fólk.

Kæru gestir,

Velkomin á þetta málþing um fullveldi og þjóðaröryggi. Þetta er einn af fjöldamörgum viðburðum í tilefni af aldarafmæli fullveldis Íslands.

Tímamót sem þessi, aldarafmæli fullveldisins, gefa okkur tækifæri til að líta um öxl, en einnig að spegla fortíð í nútíð og horfa fram á veg. Hvaða merkingu hefur fullveldið fyrir okkur í samtímanum? Hvaða merkingu hefur hugtakið þjóð í hugum Íslendinga árið 2018 og hvaða merkingu hefur hugtakið þjóðaröryggi í nútímanum?

Þjóðarhugtakið er, eins og við þekkjum hér inni , kannski fyrst og fremst pólitískt hugtak eins og við nýtum það í nútímanum, hugtak sem á rætur sínar í 19. öldinni. Fyrir þann tíma töluðum við um þjóðir, sem vorum fremur hópar og þá skilgreindu menn sig ýmist sem Íslendinga, norræna menn eða Dalamenn eftir því hvaðan þeir voru í hvaða samhengi þeir voru að tala. En hið pólitíska hugtak þjóð verður ekki síst til á 19. öldinni. Þjóðerni hefur síðan verið skilgreint með ólíkum hætti meðal ólíkra þjóða, en hér leitum við nú gjarnan í hugtök eins og land, þjóð og tunga, en allt hefur þetta tekið viðamiklum breytingum á þeirri öld sem liðin er frá því Ísland varð fullvalda ríki.

Samsetning þjóðarinnar og samfélagsgerð hefur breyst og fullveldisafmælið er því kærkomið tækifæri til að velta því fyrir okkur hver við erum og hvaða gildi við leggjum til grundvallar því að kalla okkur þjóð. Um leið og okkur ber að standa vörð um þær rætur sem við eigum, þann menningararf sem við eigum tungumálið og söguna, þá eigum við að leyfa bæði menningunni og tungumálinu að þróast svo það rúmi nýjar hugmyndir, nýja strauma og nýtt fólk.

Við eigum að fagna því samfélagi sem er nú orðið svo miklu fjölbreyttara en það var fyrir einni öld.

Ég hef líka stundum velt því fyrir mér, þegar ég ferðast um landið, hvort landnámsmennirnir myndu þekkja Ísland dagsins í dag. Landið hefur breyst, ekki síst af mannavöldum, líka fyrir tilstilli náttúrunnar. Fimmtíu eldgos hafa breytt ásýnd landsins, svo dæmi séu tekin á öldinni. Við höfum líka breytt landinu sjálf, ýmist til atvinnuuppbyggingar, til þess að bæta samgöngur og stundum höfum við kannski gengið um of á auðlindir okkar.

Það er mikið fagnaðarefni hversu breytt viðhorf eru í samtímanum ef við lítum bara nokkra áratugi aftur í tímann, til umhverfisverndar, náttúruverndar, gildis og mikilvægis ósnortinnar náttúru fyrir okkur sem samfélag, Ég tel að nú sé a.m.k. víðtækari samstaða um umhverfis- og loftslagsmál en nokkru sinni fyrr. Um leið horfum við til þess að Ísland er ekki eyland í umhverfismálum, það getur ekkert eitt land afstýrt hlýnun jarðar og umhverfisbreytingum sem ógna öllu lífríkinu okkar. Þarna þurfum við að starfa saman og þar eigum við brýnt erindi í alþjóðlegu samstarfi.

Það segir kannski sitthvað að það vakti töluverða athygli mína könnun sem var kynnt nýlega, þar sem fram kom að mikill meiri hluti Íslendinga eru sannfærðir um loftlagsbreytingar af mannavöldum, að þær séu staðreynd og við skerum okkur úr öðrum þjóðum hvað það varðar, en sömuleiðis höfum við litlar áhyggjur af því. Sem segir kannski eitthvað um hið íslenska þjóðerni og hina íslensku sjálfsmynd, ég hugsaði þarna kemur fram ,,þetta reddast“ sjálfsmyndin sterk inn.

En við fögnum fullveldisafmælinu á mjög óvenjulegum tímum, þar sem það sem við einu sinni töldum sjálfgefið er það ekki lengur og við erum knúin til samtals um endurmat á viðteknum hugmyndum og sjónarmiðum. Þættir á borð við loftlagsbreytingar, hnattræna þróun, tækniþróun, náttúruvá og skipan alþjóðasamstarfs skipa veigameiri sess en áður í samfélagi okkar og hafa óhjákvæmilega í för með sér breytingar. Afleiðingar og áhrif þessarar þróunar þarf að meta á hverjum tíma. Sumt er fyrirsjáanlegt, annað ekki. Við þurfum að vera opin fyrir því að endurmeta verklag og forgangsröðun og fær um að bregðast hratt við bæði hinu fyrirsjáanlega en ekki síður hinu ófyrirsjáanlega.

Sannkölluð bylting hefur orðið í upplýsingatækni. Aðgengi að upplýsingum hefur aldrei verið greiðara og meira, og flest er það á allt öðru tungumáli en íslenskri tungu og kannski hefur sjaldan verið flóknara að greina kjarnann frá hisminu í öllu upplýsingastreyminu, þar sem við sjáum dæmi þess að það er jafn auðvelt eða auðveldara er að dreifa röngum staðreyndum og réttum. Ekki síst vegna þess að það sem hefur verið skilgreint sem rangar upplýsingar byggjast gjarnan á því að spila á tilfinningar fólks og slíkar fréttir fá mun hraðar útbreiðslu en fréttir, sem byggja á staðreyndum, en eru ekki sérstaklega að spila með tilfinningar.

Og það er stór áskorun fyrir fullveldið á næstu öld, að standa vörð um opna upplýsta umræðu, sem er grundvallarþáttur í okkar lýðræðislegum stjórnskipan.

Hundrað árum eftir að Ísland varð fullvalda ríki stöndum við frammi fyrir nýjum viðfangsefnum þegar kemur að öryggismálum. Hernaðarógnin lítur öðruvísi út en hún gerði þá, tæknin hefur breytt hernaði og alþjóðlegt samstarf breytt stríðsrekstri. Með auknu flæði bæði fólks og fjármagns hefur skipulögð brotastarfsemi gerbreyst, nýjar net- og tækniógnir verði til nánast dag hvern. Það er mikilvægt ekki síst fyrir lítið ríki eins og okkar að tæknibreytingarnar stingi okkur ekki af, heldur að þjóni tæknin okkur.

Í þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland, sem Alþingi samþykkti, skapaðist breið samstaða um nýtt öryggishugtak, útvíkkun öryggishugtaksins, þótt vissulega sé enn pólitískur skoðanaágreiningur milli okkar, sem teljum að Ísland eigi að standa utan hernaðarbandalaga og hinna sem líta á þau sem mikilvægan þátt í alþjóðasamstarfi Íslands. Markmið stefnunnar er að tryggja sjálfstæði, fullveldi og friðhelgi landamæranna, öryggi borgaranna og vernd stjórnkerfis og grunnvirkja samfélagsins. Og það er svo að þrátt fyrir pólitískan ágreining, þá hlýtur það að vera skoðun allra stjórnmálamanna að ein af frumskyldum hvers samfélags er að tryggja öryggi borgaranna. En þá skiptir líka miklu máli að við séum meðvituð um það sem felst í öryggishugtakinu, og hvaða ógnir steðja að öryggi okkar í samtímanum. Það var löngu tímabært að mínu viti þegar þjóðaröryggisstefnan var samþykkt, að breikka þetta hugtak, að einblína ekki á hefðbundnar hernaðarógnir, heldur líta líka til svonefndra „nýrra ógna“ hnattrænna og þverþjóðlegra, samfélagslegra og mannlegra.

Í stefnunni er lögð áhersla á tryggja víðtæka öryggishagsmuni Íslands með virku alþjóðasamstarfi á grundvelli alþjóðalaga og með friðsamlega lausn deilumála að leiðarljósi, sem og almannaöryggi. Og þar eru skilgreindar ýmsar þær ógnir sem Alþingi taldi á þeim tíma að væri mikilvægt að þjóðaröryggisstefnan tæki á og það eru eins og ég sagði ekki eingöngu hinar hefðbundnu hernaðarógnir, þær varða matvæla- og fæðuöryggi, þær varða loftlagsbreytingar, þær varða netöryggi, því með aukinni sjálfvirknivæðingu, þar sem skurðaðgerðir verða í framtíðinni framkvæmdar þannig að við leggjumst undir hnífinn hjá vélmenni, þá getið þið ímyndað ykkur möguleikana – ég tala um möguleika en ekki tækifæri í þessu samhengi - fyrir aðila til þess að ráðast í netárásir sem geta til að mynda lamað heilbrigðiskerfið. Og við þekkjum dæmi um það frá öðrum löndum um netárásir á mikilvæga samfélagslega innviði bæði heilbrigðisstofnanir en líka aðra slíka innviði þannig að þetta verður risavaxið viðfangsefni á næstu árum.

Og ég gæti haldið áfram og rætt síðan það sem við þekkjum kannski best á Íslandi og höfum mesta reynslu í og það eru viðbrögðin við náttútuvá, þegar eldfjöllin okkar fóru að gjósa, jökulárnar okkar að flæða og svo framvegis, þær ógnir eru ekki að fara neitt, og skiptir miklu máli að við bregðumst við þeim með réttum hætti á hverjum tíma - ekki aðeins til þess að bregðast við ógnunum sjálfum heldur út frá samfélaginu sjálfu, sem skiptir máli að hafa í huga þegar við bregðumst við slíkum ógnum

Kæru gestir,

Það eru mörg tímamót um þessar mundir.

Aldarafmæli fullveldisins helst í hendur við það að 100 ár eru liðin frá lokum fyrri heimsstyrjaldarinnar. Eftirleikur hennar hafði umfangsmikil áhrif á heimsskipulagið eins og við þekkjum það. Smám saman molnaði undan nýlendustefnunni, Bandaríkin urðu að stórveldi og grunnurinn var lagður að alþjóðlegu samstarfi sem síðar skilaði sér í stofnun Sameinuðu þjóðanna. Um þessar mundir fögnum við líka 70 ára afmæli mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna, sem var á sínum tíma afar framsækin, og ég hef velt því fyrir mér hvort hún er svo framsækin að þjóðir heims gætu varla komið sér saman um hana núna að koma sér saman um slík algild mannréttindi með þessum hætti.

Í þeim hræringum sem við sjáum nú felast nýjar ógnir, að grafið sé undan alþjóðlegu samstarfi sem er hornsteinn algildra mannréttinda. Svarið er ekki minna samstarf eða minni samskipti, heldur meiri.

Því er fullt tilefni til að spyrja okkur í dag hvað við getum lært af aldarsögunni og hvaða þýðingu sagan hefur fyrir okkur nú. Hvernig hefur fullveldishugtakið þróast og hvaða áhrif hefur alþjóðasamstarf, tækniþróun og hnattvæðing haft á fullveldishugtakið? Hvernig er sjálfsákvörðunarréttur ríkja í hnattvæddum heimi og hvaða áhrif hafa algild réttindi á fullveldi? Þetta er meðal þeirra spurninga sem verða ræddar hér í dag. Málþinginu verður skipt í þrjá hluta. Fyrst verður sjónum beint að inntaki fullveldishugtaksins, í öðrum hluta er fjallað um þjóðaröryggi og í þriðja hluta eru áskoranir framtíðar reifaðar með tilliti til fullveldis og þjóðaröryggis.

Ég ætla að reyna að vera með ykkur hér í dag, ég á að loka þinginu en ég biðst fyrirfram afsökunar á því að ég þarf að bregða mér í burtu í tuttugu mínútur á eftir, en það er líka til þess að sinna mjög mikilvægu verkefni; að ræða við börn sem ætla að leggja fram nokkrar réttindakröfur.

En þar sem markmiðið með þessu málþingi var að draga fram þessa breiðu sýn og ólíku nálgun ég vil þakka Þjóðaröryggisráði, Alþjóðamálastofnun og háskólunum okkar sem vinna saman að þessu verkefni. Ég vona að samtalið verði flott og fjörugt og okkur til gagns til að móta sýn okkar á þjóðaröryggi á komandi öld fullveldisins.

Hér með set ég þetta málþing.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum