Hoppa yfir valmynd

Frétt

30. nóvember 2018 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Sameiginlegri menningararfleifð Íslands og Noregs fagnað í Osló

Hermann Ingólfsson sendiherra Íslands í Noregi, Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra, Tone W. Trøen forseti norska Stórþingsins og Kitty Dahl stjórnarformaður menningarbókasafns Thorleif Dahl.   - mynd
Í tilefni af 100 ára fullveldisafmæli Íslands var haldin hátíðarsamkoma í Oslóarháskóla í gær, þar sem sameiginlegri menningararfleifð Íslands og Noregs var fagnað, með sérstakri áherslur á hlutverk kvenna í norrænum bókmenntum. Að þessu tilefni var kynnt ný norsk útgáfa Njálu. Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra var heiðursgestur ásamt Tone W. Trøen forseta norska Stórþingsins.

„Íslendingasögurnar eru eitt helsta framlag okkar til heimsbókmenntanna og Brennu-Njálssaga er margslungið verk og síungt. Við deilum sameiginlegum menningararfi með frændþjóðum okkar og höfum í sameiningu unnið að því að auðvelda aðgengi Norðurlandabúa að honum, nú eru Íslendingasögurnar til að mynda komnar út í heildarþýðingu á norsku, dönsku, sænsku auk ensku. Þessi nýja útgáfa Njálu er afar glæsileg og ég vona að hún verði til þess að sagan eignist enn fleiri aðdáendur,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Meðal þess sem gestir hátíðarsamkomunnar fengu að njóta var flutningur Ískórsins á laginu Vökuró eftir Jórunni Viðar, kvæðaupplestur leikarans Hilmis Snæs Guðnasonar og áhugavert samtal Jóns Gunnars Jörgensen, prófessors í norrænum fræðum við Háskólann í Osló og þýðanda Njálu, við samstarfsfólk úr fræðasamfélaginu. Hátíðarsalurinn var þéttsetinn en um 600 manns höfðu skráð sig til þátttöku og var mikill hátíðarbragur yfir öllu.

Nánari upplýsingar um hátíðahöld í tilefni fullveldisafmælisins má finna hér.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum