Hoppa yfir valmynd

Frétt

30. nóvember 2018 Forsætisráðuneytið

Stjórnarsamstarf í eitt ár


Fyrir ári hófu Framsóknarflokkur, Sjálfstæðisflokkur og Vinstrihreyfingin - grænt framboð stjórnarsamstarf. Formlegar stjórnarmyndunarviðræður höfðu staðið yfir í rúmar tvær vikur í kjölfar óvæntra kosninga þegar stjórnarsáttmáli var undirritaður í Listasafni Íslands. Flokkarnir þrír höfðu um margt að ræða enda fulltrúar ólíkra enda og miðju á hinu pólitíska litrófi. Frá upphafi var stefnan tekin á að flýta sér hægt og vanda til verka, ræða mikilvæg mál og stefnur í þaula og leita samráðs og sérfræðiþekkingar.

Það er nefnilega svo að gott samstarf og samráð tekur tíma. En er ekki of flókið að mynda slíka stjórn, þar sem innanborðs eru flokkar sem eru ekki náttúrulegir bandamenn í stjórnmálum? - fengum við oft að heyra. Jú, það var flókið - en flókið þarf ekki endilega að vera slæmt. Í öllum málum þarf að gæta vel að ólíkum sjónarhornum og samráð er lykilatriði. Fyrir vikið eru mál unnin í meiri pólitískri sátt og því vonandi þannig úr garði gerð að þau geti staðist tímans tönn - og sviptingar í pólitík.

Íslenskt efnahagslíf hefur náð undraverðum bata á þeim tíu árum sem liðin eru frá hruni. Við höfum búið við samfelldan hagvöxt og batnandi kaupmátt og lífskjör. Ytri aðstæður hafa verið okkur hagfelldar. Vel tókst að greiða úr eftirmálum falls bankanna og í kjölfarið hafa skuldir ríkissjóðs verið lækkaðar markvisst og búið í haginn fyrir framtíðina. Eitt af þeim verkefnum sem þessi ríkisstjórn einsetti sér að ráðast í var að skila hagsældinni sem hér hefur ríkt til alls samfélagsins og gæta þess að komandi kynslóðir njóti hennar líka. Það hefur verið gert með því að ráðast í uppbyggingu innviða. Þá verður komið á fót Þjóðarsjóði sem er ætlað að draga úr áhrifum meiriháttar efnahagslegra áfalla.

Við erum stolt af þeim árangri sem náðst hefur á þessu fyrsta starfsári. Ríkisstjórnin hefur lagt fram tvenn fjárlög og aukið framlög til samfélagslegra verkefna og innviða verulega, eða samtals um 90 milljarða króna. Við höfum lagt fram frumvarp til að lækka tryggingagjald, nýtt dómstig hefur tekið til starfa og hagsmunagæsla vegna EES-samstarfsins verið styrkt. Mikilvæg skref hafa verið tekin til að innleiða stafræna stjórnsýslu til að auka aðgengi og bæta þjónustu við almenning og nýta almannafé betur. Metnaðarfull aðgerðaáætlun í loftslagsmálum hefur verið kynnt og unnið er að fyrstu skrefunum; orkuskiptum í samgöngum og aukinni kolefnisbindingu.

Skóflustunga hefur verið tekin að meðferðarkjarna nýs Landspítala og áhersla lögð á að styrkja heilsugæslur um allt land. Fyrstu skref hafa verið tekin í að draga úr kostnaði fólks við að sækja sér læknisþjónustu og þeirri vinnu verður haldið áfram út kjörtímabilið. Framlög til menntamála hafa stóraukist og nú stendur yfir vinna við gerð menntastefnu. Istanbúl-sáttmálinn um forvarnir og baráttu gegn ofbeldi gegn konum var fullgiltur, aðgerðaáætlun um úrbætur í meðferð kynferðisbrota fullfjármögnuð og stýrihópur um heildstæðar úrbætur gegn kynferðislegu ofbeldi tók til starfa.

Stuðningur við nýsköpun og rannsóknir hefur enn verið efldur, nú síðast með tvöföldun hámarksupphæða endurgreiðslu vegna rannsóknar- og þróunarverkefna fyrirtækja. Sömuleiðis er unnið að nýsköpunarstefnu fyrir Ísland sem er lykilatriði fyrir framtíð samfélagsins og fjölbreyttari stoðir efnahagslífsins. Unnið er að endurskoðun á starfsumhverfi vísinda og rannsókna og von á frumvarpi um heilindi í vísindarannsóknum.

Sérstök áhersla hefur verið lögð á samráð við aðila vinnumarkaðarins um ýmis málefni. Í skattabreytingum hefur verið lögð aukin áhersla á jöfnuð og í þeim fjárlögum sem nú eru til umfjöllunar á Alþingi er lagt til að barnabætur hækki um 16% á milli ára en þar með fjölgar þeim um rúmlega 2200 sem eiga rétt á barnabótum. Löggæsla hefur verið styrkt og í fjármálaáætlun til næstu fimm ára er gert ráð fyrir endurnýjun þyrlukosts Landhelgisgæslunnar. Sérstakt átak í vegamálum er hafið og framlög til nýframkvæmda og viðhalds hafa verið aukin til að mæta uppsafnaðri þörf í vegakerfinu.

Á árinu hefur áhersla verið lögð á málefni barna, umhverfi barnaverndar verður endurskoðað og á næsta ári verður í fyrsta sinn haldið Barnaþing með þátttöku barna hvaðanæva af landinu. Máltækniáætlun er nú loksins fjármögnuð enda eitt mikilvægasta tækið til að styðja við íslenska tungu á tækniöld. Listinn er miklu lengri og hér er stiklað á stóru.

Það er svo að ein helsta gagnrýni sem höfð hefur verið uppi á þessa ríkisstjórn hefur ekki snúist um verk hennar heldur að hún hafi verið mynduð og vissulega er það svo að slíkt stjórnarmynstur er óvenjulegt. En um leið er það svo að það að vinna með þeim sem eru manni ósammála gerir mann stærri. Þetta er vert að hafa í huga þegar sjá má öfga- og lýðskrumsflokka og stjórnmálamenn sækja í sig veðrið víða um heim. Markmið þeirra er gjarnan að sundra og grafa undan þeim lýðræðislegu gildum sem hafa tryggt stórstígar framfarir í mannréttindamálum, hagsæld og öryggi. Sjaldan hefur það verið mikilvægara að sýna fram á að það er hægt að taka tillit til ólíkra sjónarmiða, miðla málum og vinna samhent að sameiginlegum markmiðum, þvert á flokka, samfélaginu öllu til heilla.


Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum