Hoppa yfir valmynd

Frétt

17. desember 2018 Heilbrigðisráðuneytið

Auglýst eftir ráðuneytisstjóra í nýju heilbrigðisráðuneyti

Nýtt heilbrigðisráðuneyti tekur til starfa 1. janúar 2019 - mynd

Auglýst hefur verið laust til umsóknar embætti ráðuneytisstjóra í nýju heilbrigðisráðuneyti sem tekur til starfa 1. janúar 2019. Ráðuneytið verður til við skiptingu velferðarráðuneytisins í heilbrigðisráðuneyti og félagsmálaráðuneyti í samræmi við forsetaúrskurð nr. 119/2018 um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta.

Auglýsingin var birt á Starfatorgi 14. desember sl. og er eftirfarandi:

Auglýst er laust til umsóknar embætti ráðuneytisstjóra í nýju heilbrigðisráðuneyti. Ráðuneytið verður til við skiptingu velferðarráðuneytisins í heilbrigðisráðuneyti og félagsmálaráðuneyti, sbr. forsetaúrskurð nr. 119/2018 um skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands og 1. mgr. 2. gr. laga um Stjórnarráð Íslands nr. 115/2011.

Ráðuneytisstjóri stýrir ráðuneytinu undir yfirstjórn heilbrigðisráðherra.

Helstu verkefni nýs heilbrigðisráðuneytis varða heilbrigðisþjónustu á landinu öllu, lyfjamál og lýðheilsumál. Undir ráðuneytið heyrir fjöldi stofnana, þar á meðal Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu, Landspítali, heilbrigðisstofnanir um land allt, Sjúkratryggingar Íslands og Embætti landlæknis. Einnig fer ráðuneytið með alþjóðlegt samstarf í samvinnu við utanríkisráðuneytið. Heilbrigðisráðuneytið annast rekstur og starfsmannahald bæði fyrir heilbrigðisráðuneytið og félagsmálaráðuneytið. Lögð er rík áhersla á náið samráð við Alþingi, önnur ráðuneyti, hagsmunaaðila og notendur þjónustunnar þegar unnið er að gerð laga, reglugerða og stefnumótandi áætlana á málefnasviðum heilbrigðisráðuneytisins.

Menntunar- og hæfniskröfur:

  • Háskólamenntun sem nýtist í starfi. Embættis- eða meistarapróf skilyrði.
  • Yfirgripsmikil þekking og reynsla á verkefnasviði hins nýja heilbrigðisráðuneytis.
  • Yfirgripsmikil þekking og reynsla á sviði opinberrar stjórnsýslu.
  • Þekking og reynsla á sviði reksturs og starfsmannahalds æskileg.
  • Leiðtogahæfileikar og umfangsmikil stjórnunarreynsla.
  • Færni í mannlegum samskiptum.
  • Mjög góð íslensku- og enskukunnátta.
  • Kunnátta í einu Norðurlandamáli æskileg.
  • Hæfni til að tjá sig í ræðu og riti.

Hið nýja ráðuneyti mun taka til starfa 1. janúar 2019. Gert er ráð fyrir að skipað verði í embættið hið fyrsta eftir að skýrsla nefndar sem metur hæfni umsækjenda, sbr. 19. gr. laga nr. 115/2011 um Stjórnarráð Íslands, liggur fyrir. Skipað er í embættið til fimm ára, sbr. ákvæði laga nr. 115/2011 um Stjórnarráð Íslands og laga nr. 70/1996 um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Um laun og önnur starfskjör fer samkvæmt gildandi lögum á hverjum tíma.

Upplýsingar um starfið veita Anna Lilja Gunnarsdóttir ([email protected] ), Ólafur Darri Andrason ([email protected] ) og Vilborg Grétarsdóttir (vilborg.gretarsdó[email protected]). Áhugasamir einstaklingar, án tillits til kyns, eru hvattir til að sækja um.

Umsókn skal fylgja ítarleg ferilskrá ásamt kynningarbréfi þar sem gerð er grein fyrir hæfni viðkomandi til að gegna embættinu. Umsókn skal skila rafrænt á netfangið [email protected] eða til heilbrigðisráðuneytisins, Skógarhlíð 6, 105, Reykjavík, eigi síðar en 14. janúar 2019. Öllum umsóknum verður svarað þegar ákvörðun um ráðningu liggur fyrir.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum