Hoppa yfir valmynd

Frétt

20. desember 2018 Forsætisráðuneytið

771/2018. Úrskurður frá 7. desember 2018

Úrskurður

Hinn 7. desember 2018 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 771/2018 í máli ÚNU 18100001.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 29. september 2018, kærði A afgreiðslutöf Landsvirkjunar á beiðni kæranda um upplýsingar, m.a. í tengslum við samningsgerð stofnunarinnar við Íslenskar orkurannsóknir, ÍSOR.

Með bréfi til Landsvirkjunar, dags. 31. júlí 2018, óskaði kærandi eftir afriti af samningi sem Landsvirkjun gerði við ÍSOR í kjölfar ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins nr. 20/2012 um undanþágu ÍSOR frá tilteknu ákvæði samkeppnislaga nr. 44/2005. Kærandi óskaði jafnframt eftir rökstuðningi sem Landsvirkjun kynni að hafa sent Samkeppniseftirlitinu í aðdraganda þess máls, auk yfirlits yfir greiðslur Landsvirkjunar til ÍSOR samkvæmt þeim samningi sem gerður var. Auk þessa óskaði kærandi eftir upplýsingum og afritum af samningum og greiðslum vegna jarðfræðikorta á Austursvæði og mögulega víðar, sem getið væri um í öðrum nánar tilgreindum samningi milli umhverfis- og auðlindaráðuneytis og ÍSOR frá apríl 2018.

Málsmeðferð

Í umsögn Landsvirkjunar til úrskurðarnefndar, dags. 8. október 2018, er vísað til 3. mgr. 2. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012, þar sem fram kemur að ef starfsemi lögaðila sé í samkeppni á markaði geti ráðherra ákveðið að slíkur lögaðili skuli ekki falla undir gildissvið upplýsingalaga. Fram kemur jafnframt að ráðherra skuli halda skrá yfir þá lögaðila sem hafi fengið slíka undanþágu. Í umsögninni er svo vísað til ákvörðunar forsætisráðuneytisins frá 28. júní 2016, þar sem stofnuninni var veitt undanþága frá gildissviði upplýsingalaga. Með vísan til þessa er Landsvirkjun undanþegin upplýsingalögum og því ekki skylt að fylgja ákvæðum laganna né að verða við fram kominni beiðni um aðgang að gögnum.

Athugasemdir kæranda við umsögn Landsvirkjunar bárust úrskurðarnefndinni með bréfi, dags. 16. október 2018. Þar tekur kærandi fram að hluti umbeðinna gagna í málinu hafi orðið til áður en undanþága forsætisráðuneytisins til handa Landsvirkjun kom til. Þar sem lög séu almennt ekki afturvirk, og með hliðsjón af þeirri ríku skyldu sem upplýsingalög nr. 140/2012 setji opinberum stofnunum og fyrirtækjum varðandi það að upplýsa almenning og hagsmunaaðila á samkeppnismarkaði um aðgerðir og fjárútlát opinberra aðila, þá verði ekki séð að undanþágan nái til þeirra samninga og þjónustukaupa sem urðu til milli Landsvirkjunar og ÍSOR á tímabilinu september 2012 og fram til 28. júní 2013. Því óskaði kærandi eftir því að Landsvirkjun yrði gert að afhenda sér þann rammasamning sem stofnunin gerði við ÍSOR í kjölfar ákvörðunar Samkeppniseftirlitsins nr. 20/2012 og þær greiðslur sem Landsvirkjun innti af hendi til ÍSOR frá gerð samningsins og fram til 28. júní 2013.

Niðurstaða

Samkvæmt 20. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 er heimilt að bera undir úrskurðarnefnd um upplýsingamál synjun á beiðni um aðgang að gögnum samkvæmt lögunum. Samkvæmt 2. gr. laganna taka þau til allrar starfsemi lögaðila sem eru að 51% hluta eða meira í eigu hins opinbera. Það á við um Landsvirkjun.

Í 2. mgr. 3. gr. upplýsingalaga segir: „Ef starfsemi lögaðila sem fellur undir 2. mgr. er að nær öllu leyti í samkeppni á markaði getur ráðherra, að fenginni tillögu hlutaðeigandi ráðherra eða sveitarstjórnar og umsögn Samkeppniseftirlitsins, ákveðið að hann skuli ekki falla undir gildissvið laga þessara eða dregið slíka ákvörðun til baka. Ráðuneytið skal halda opinbera skrá yfir þá lögaðila sem hafa fengið undanþágu samkvæmt málsgreininni, og skal undanþága einstakra aðila endurskoðuð á þriggja ára fresti. Ákvörðun samkvæmt þessari málsgrein tekur gildi við birtingu hennar í B-deild Stjórnartíðinda.“

Á grundvelli þessarar heimildar hefur ráðherra birt auglýsingu um undanþágur lögaðila frá upplýsingalögum, sbr. auglýsingu nr. 600/2013. Landsvirkjun er meðal þeirra lögaðila sem þar eru nefndir, og taka því upplýsingalög ekki til stofnunarinnar. Undanþága 2. mgr. 3. gr. laganna er skýr og óskilyrt. Afgreiðslutöf Landsvirkjunar á beiðni um gögn samkvæmt upplýsingalögum verður því ekki skotið til úrskurðarnefndar um upplýsingamál og verður því ekki hjá því komist að vísa málinu frá nefndinni. Það hefur ekki áhrif á niðurstöðuna að kærandi hafi síðar afmarkað beiðni sína við gögn sem til urðu áður en Landsvirkjun var veitt undanþága frá upplýsingalögum, enda er það lögaðilinn sjálfur sem er undanþeginn lögunum samkvæmt ákvörðun ráðherra en ekki einstök gögn í hans vörslu. Að öðrum kosti væri viðbúið að ákvæðið í 3. mgr. 2. gr. upplýsingalaga næði ekki tilgangi sínum.

Úrskurðarorð:

Kæru A á hendur Landsvirkjun er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.



Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum