Hoppa yfir valmynd

Frétt

27. desember 2018 Heilbrigðisráðuneytið

Gjaldskrárbreytingar vegna heilbrigðisþjónustu um áramót

Bótafjárhæðir slysatrygginga almannatrygginga og sjúkradagpeningar hækka 1. janúar um 3,6% til samræmis við launa- og verðlagsuppfærslur fjárlaga. Gjaldskrár vegna heilbrigðisþjónustu hækka að sama skapi sem þessu nemur, að undanskildum komugjöldum í heilsugæslu. Breytingar verða á greiðsluþátttöku fyrir tæknifrjóvgun og vegna þjálfunar.

Í reglugerð um greiðsluþátttöku sjúkratryggðra í kostnaði vegna heilbrigðisþjónustu er kveðið er á um gjöld sem sjúkratryggðir skulu greiða fyrir heilbrigðisþjónustu sem veitt er á heilsugæslustöðvum, sjúkrahúsum og Heyrnar- og talmeinastöðinni og fyrir heilbrigðisþjónustu sem veitt er af sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsfólki sem starfar á grundvelli samnings við Sjúkratryggingar Íslands. Um áramótin hækka greiðslur fyrir þessa þjónustu um 3,6% að undanskildum komugjöldum í heilsugæslu sem falla niður hjá öldruðum og öryrkjum og haldast að öðru leyti óbreytt að krónutölu. Með reglugerðinni verður einnig gerð sú breyting um áramótin að þeir sem hafa verið metnir í þörf fyrir sjúkra- iðju- eða talþjálfun eiga rétt á allt að 15 meðferðartímum á einu ári í stað 20 áður. Sjúkratryggingar geta veitt heimild fyrir fleiri meðferðartímum með greiðsluþátttöku að uppfylltum nánari skilyrðum samkvæmt vinnureglum sem stofnunin setur.

Heilbrigðisráðherra hefur sett reglugerð um þátttöku sjúkratrygginga í kostnaði vegna tæknifrjóvgunarmeðferðar. Undanfarin ár hefur engin greiðsluþátttaka verið vegna fyrstu meðferðar en frá 1.  janúar næstkomandi verður 5% greiðsluþátttaka vegna fyrstu glasafrjóvgunar og smásjárfrjóvgunar.

Heilbrigðisráðherra hefur einnig sett reglugerð um greiðsluþátttöku sjúkratrygginga í kostnaði sjúkratryggðra vegna dvalar í hjúkrunarrýmum og dvalarrýmum á stofnunum sem ekki eru á föstum fjárlögum árið 2019 og sem eru án samnings við Sjúkratryggingar Íslands.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum