Hoppa yfir valmynd

Frétt

11. janúar 2019 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Verksmiðjan gangsett

Grein eftir Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, sem birtist í Morgunblaðinu 11. janúar 2019.
Meðal mikilvægustu verkfæra unga fólksins okkar, sem móta munu framtíð samfélagsins, eru samvinnuhæfni, frumkvæði, skapandi hugsun og það að geta unnið með upplýsingar og tækni á fjölbreyttan hátt. Fjórða iðnbyltingin krefur okkur með sínum öru samfélags- og tæknibreytingum um nýja nálgun á ýmis kerfi, þar með talið menntun og starfþjálfun af öllu tagi.

Í gær tók ég þátt í óvenjulegri gangsetningu nýrrar Verksmiðju. Sú Verksmiðja er hugmynda- og uppfinningakeppni þar sem nemendur í efstu bekkjum grunnskóla raungera og útfæra hugmyndir sínar með aðstoð leiðbeinenda, fagfólks, fyrirtækja og hvetjandi sjónvarpsefnis. Verkefni þetta er unnið í góðu samstarfi m.a. milli Samtaka iðnaðarins, Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands og Ríkisútvarpsins og framkvæmt með stuðningi mennta- og menningarmálaráðuneytisins. Markmið þessa verkefnis er að hvetja ungmenni til að veita hugmyndum sínum og hæfileikum athygli, efla nýsköpun og fjalla á margvíslegan hátt um tækifæri sem felast í iðn- og tæknimenntun. Verksmiðjan er stafræn og til húsa á slóðinni ungruv.is/verksmidjan.

Við lærum einna best gegnum athafnir og með því að framkvæma það sem við hugsum. Sköpun er veigamikill þáttur í námi á öllum skólastigum og fjölbreytni er brýn í skólakerfinu til þess að efla og þroska einstaklinga til allra starfa og ekki síður til þess að hjálpa nemendum að finna sína fjöl - eða fjalir. Manneskjan er í mótun alla ævi og því er mikilvægt að byrja snemma að virkja hæfni eins og sköpun og frumkvæði. Verksmiðjan nýja er að mínu mati kjörin til þess. Aukin áhersla á nýsköpun og frumkvöðlafræðslu eflir unga fólkið okkar og kynnir þeim ný tækifæri og námsleiðir. Það er ekki síst brýnt fyrir samfélag sem fjölga vill starfskröftum með iðn-, verk- og tæknimenntun. Eitt okkar forgangsmála nú er að fjölga nemum í slíkum greinum og gleðilegt er að uppi eru vísbendingar um að aðgerðir séu farnar að skila árangri, meðal annars með aukinni ásókn í slíkt nám. Ég er bjartsýn á að grunnskólanemendur muni taka Verksmiðjunni fagnandi og hún muni opna hug þeirra, og foreldranna, fyrir þeim möguleikum sem fólgnir eru í fjölbreyttu námsframboði hér á landi.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum