Hoppa yfir valmynd

Frétt

21. janúar 2019 Heilbrigðisráðuneytið

Lifrarbólga C: Einstakur árangur meðferðarátaks sem verður að viðhalda

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra segir mikilvægt að viðhalda þeim einstaka árangri sem þriggja ára meðferðarátak heilbrigðisyfirvalda gegn lifrarbólgu C hefur skilað. Verkefnið stendur á tímamótum og er formlega lokið. Öllum sem smitaðir eru af lifrarbólgu C var á tímabilinu boðin lyfjameðferð og 95% þeirra hafa þegið meðferð.

Í tengslum við læknadaga sem nú standa yfir var haldið málþing í Hörpu undir yfirskriftinn Útrýming lifrarbólgu C: Íslenska forvarnarverkefnið í kastljósi umheimsins. Verkefninu var formlega ýtt úr vör í október árið 2015 þegar kynnt var opinberlega ákvörðun heilbrigðisyfirvalda og lyfjafyrirtækisins Gilead um að ganga til samstarfs um átak til að útrýma lifrarbólgu C á Íslandi. Heilbrigðisyfirvöld lögðu til fjármagn vegna framkvæmdarinnar, allt að 450 milljónir króna á þriggja ára tímabili, en Gilead lagði til lyf án endurgjalds til meðferðar allra sjúkratryggðra einstaklinga sem smitaðir eru af lifrarbólgu C. Miðstöð verkefnisins var á Landspítala, yfirumsjón með verkefninu var á hendi sóttvarnalæknis og sjúkrahúsið Vogur var lykilsamstarfsaðili.

Ísland leiðandi í heiminum í baráttunni gegn lifrarbólgu C

Á málþinginu í Hörpu var fjallað um árangurinn af verkefninu, forvarnargildi þess og margvíslegan lærdóm sem af því má draga. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur sett þjóðum heims það takmark að útrýma lifrarbólgu C sem meiriháttar heilbrigðisvá árið 2030. Fram kom á málþinginu að Ísland telst nú leiðandi meðal þjóða heims sem stefna að því að ná þessu markmiði.

Heilbrigðisráðherra veitir 23 milljóna króna framlag til að gera upp verkefnið

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra ræddi í ávarpi sínu á málþinginu um mikilvægi þess að læra af meðferðarátakinu, taka saman niðurstöður þess og miðla þeim og síðast en ekki síst að viðhalda þeim góða árangri sem náðst hefur gegn þessum skæða sjúkdómi: „Til að ljúka rannsóknarþætti verkefnisins, þ.e. úrvinnslu gagna og  kynningu á niðurstöðunum, hef ég ákveðið að veita Landspítalanum sérstakt framlag, samtals 23 milljónir króna. Heilbrigðisráðuneytið styrkir einnig forvarnarverkefnið Frú Ragnheiði sem Rauði krossinn rekur, fjármunir hafa verið veittir í því skyni að tryggja þeim sem sprauta sig með fíkniefnum greiðari aðgang að hreinum áhöldum og draga þannig úr smiti og síðast en ekki síst bind ég vonir við að á þessu ári verði unnt að opna svokallað neyslurými í borginni í kjölfar umfjöllunar Alþingis um nauðsynlega lagabreytingu til að svo megi verða.

Um lifrarbólgu C

Lifrarbólga C er alvarlegur, langvinnur bólgusjúkdómur í lifur sem leitt getur til skorpulifrar, lifrarbilunar og lifrarkrabbameins. Lifrarbólga C er ein algengasta orsök skorpulifrar á Vesturlöndum og algeng ástæða lifrarígræðslu. Talið er að í heiminum séu um 70 milljónir einstaklinga smitaðir. Sjúkdómurinn smitast með líkamsvessum,  svo sem þegar nálum er deilt við vímuefnaneyslu í æð, með kynmökum og við blóðgjöf. Stór hluti þeirra sem fá lifrarbólgu C eru einstaklingar sem sprauta sig með vímuefnum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum