Hoppa yfir valmynd

Frétt

21. janúar 2019 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Mikið traust til kennara og vellíðan nemenda

Grein eftir Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, sem birtist í Morgunblaðinu 21. janúar 2019.

Rannsóknastofa í tómstundafræðum birti á dögunum niðurstöður rannsóknarinnar Heilsa og lífskjör skólanema sem unnin er að tilstuðlan Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar (e. WHO). Niðurstöðurnar byggja á svörum rúmlega 7.000 nemenda á landinu öllu sem þátt tóku í rannsókninni í fyrra. Rannsóknin er lögð fyrir á fjögurra ára fresti fyrir nemendur í 6., 8. og 10. bekk. Þar koma fram margar áhugaverðar niðurstöður en mig langar að nefna hér þrennt sem vekur sérstaka athygli mína.

Í fyrsta lagi svara um 90% nemenda að þeim líði þokkalega eða mjög vel í skólanum. Um 10% nemenda segjast ekki líða vel en 2,7%-4,2% nemenda líður mjög illa samkvæmt rannsókninni. Þessi niðurstaða er í samræmi við aðrar rannsóknir og það er mjög ánægjulegt hversu háu hlutfalli nemenda líður vel í skólanum sínum. Hins vegar þarf að huga sérstaklega að þeim nemendum sem ekki líður vel og gera bragarbót þar á.

Í öðru lagi telja flestir nemendur að kennurum sé annt um þá eða um 81% nemenda í 6. bekk og 65% í 10. bekk sem er jákvæð niðurstaða og rímar vel við almenna vellíðan nemenda í skólum landsins. Langflestir treysta kennara sínum vel og virðist það eiga við nemendur í öllum landshlutum. Þetta eru afar jákvæð tíðindi fyrir kennara landsins.

Í þriðja lagi telja um 70% nemenda í öllum árgöngum sig sjaldan eða aldrei finna fyrir depurð. Hins vegar ber að skoða þessar niðurstöður gaumgæfilega því marktæk aukning er milli fyrirlagna í 6. og 10. bekk þar sem 10-15% nemenda í 6. bekk segjast upplifa depurð einu sinni eða oftar í viku en um 20% nemenda í 10. bekk grunnskóla. Séu niðurstöður skoðaðar eftir kyni nemenda kemur í ljós að stelpur eru mun líklegri til að finna fyrir depurð á hverjum degi og ástandið versnar eftir því sem unglingar eldast. Þessar niðurstöður þarf að taka alvarlega, skoða hvað veldur þessari þróun og hvernig við sem samfélag getum unnið gegn henni.

Meginstyrkleiki íslenska menntakerfisins er að nemendum líður vel og mikið traust ríkir á milli kennara og nemenda. Í þessu felast mikil sóknarfæri sem hægt er að byggja á og nýta til að efla menntun í landinu enn frekar. Það er samvinnuverkefni skólasamfélagsins, foreldra, sveitarfélaga og atvinnulífs. Séu styrkleikarnir nýttir sem skyldi og tekist á við áskoranir á réttan hátt eru okkur allir vegir færir til þess að byggja upp framúrskarandi menntakerfi til framtíðar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum