Hoppa yfir valmynd

Frétt

28. janúar 2019 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Framfaramál fyrir íslenskt vísindasamfélag

Grein eftir Lilju Alfreðsdóttur, mennta- og menningarmálaráðherra, sem birtist í Morgunblaðinu 26. janúar 2019.

Við viljum stuðla að því að íslenskir vísinda- og fræðimenn hafi greiðan aðgang að nútímalegum rannsóknarinnviðum sem standast alþjóðlegan samanburð. Í vikunni mælti ég fyrir frumvarpi um breytingar á lögum um opinberan stuðning við vísindarannsóknir. Inntak þess snýr að tveimur mikilvægum sjóðum á sviði rannsókna og nýsköpunar. Annars vegar er um að ræða Innviðasjóð sem veitir styrki til kaupa á rannsóknarinnviðum eins og tækjum, gagnagrunnum og hugbúnaði. Hins vegar tengist frumvarpið Rannsóknasjóði sem styrkir vísindarannsóknir og rannsóknatengt framhaldsnám.


Markvissari uppbygging rannsóknarinnviða
Með samþykkt frumvarpsins verður sú breyting gerð að sérstök stjórn verður sett yfir Innviðasjóð sem mun skerpa á stefnumótandi hlutverki hans og málefnum rannsóknarinnviða. Góðir rannsóknarinnviðir stuðla að auknum gæðum í rannsóknastarfi, samstarfi um rannsóknir og hagnýtingu þekkingar í þágu lands og þjóðar. Á árinu 2018 bárust 67 umsóknir að upphæð 679 milljónum kr. til Innviðasjóðs og voru 27 þeirrar styrktar, að upphæð alls 296 milljónum kr. eða 43,6% umbeðinnar upphæðar. Nýlega voru skilgreindar í opnu samráði þær samfélagslegu áskoranir sem brýnast er talið að íslenskt vísindasamfélag takist á við. Innviðasjóður mun meðal annars gegna mikilvægu hlutverki í því að mæta þeim áskorunum.


Auknir möguleikar í alþjóðlegu samstarfi
Önnur breyting sem gerð yrði með samþykkt frumvarpsins er að veita stjórn Rannsóknasjóðs heimild til þess að taka þátt í samfjármögnun alþjóðlegra rannsóknaáætlana í samstarfi við erlenda rannsóknasjóði. Slík samfjármögnun felur í sér að rannsóknasjóðir frá mismunandi löndum koma sér saman um áætlanir með áherslu á sérstök svið ásamt því að skipa sameiginlega fagráð til að meta umsóknir. Þetta er jákvæð breyting enda er Rannsóknasjóður afar þýðingamikill fyrir rannsókna- og vísindastarf í landinu. Fyrr í mánuðinum úthlutaði sjóðurinn 850 milljónum kr. til 61 rannsóknarverkefnis.


Árangurinn talar sínu máli
Boðaðar breytingar í frumvarpinu eru til þess fallnar að bæta enn frekar stoðkerfi rannsókna og vísinda á Íslandi og auka möguleika íslenskra vísindamanna á að taka þátt í alþjóðlegu rannsóknasamstarfi. Það er ánægjulegt að geta þess að íslenskir vísindamenn eru eftirsóttir í alþjóðlegu samstarfi og hafa staðið sig einstaklega vel. Skýrt dæmi um það er árangur íslenskra aðila í Sjóndeildarhring 2020 (e. Horizon 2020), áttundu rammaáætlun Evrópusambandsins um rannsóknir og nýsköpun. Í gegnum þá áætlun hafa um 8 milljarðar kr. runnið til íslenskra aðila frá árinu 2014 og er árangurshlutfallið rúmlega 18% sem telst mjög gott. Annað dæmi eru úthlutanir Evrópska rannsóknarráðsins sem styður við brautryðjandi rannsóknir færustu vísindamanna heims, en fjórir íslenskir vísindamenn hafa fengið styrk frá ráðinu á síðustu árum.


Ísland, norðurslóðir og vísindi
Annar vettvangur þar sem Ísland hefur látið að sér kveða í alþjóðlegu vísindasamstarfi er á norðurslóðum þar sem rannsóknir á lífríki, umhverfi og samfélögum norðurslóða eru í brennidepli. Vísindarannsóknir og vöktun breytinga á svæðinu veita veigamikla undirstöðu fyrir stefnumótun stjórnvalda en alþjóðlegt vísindasamstarf er forsenda þess að unnt verði að skilja og bregðast við afleiðingum hlýnunar á umhverfi og samfélög norðurslóða. Íslenskir vísindamenn og stofnanir búa yfir dýrmætri reynslu og þekkingu á fjölmörgum sviðum slíkra rannsókna, má þar sem dæmi nefna rannsóknir á samfélagslegum áhrifum loftslagsbreytinga, jöklum, breytingum á vistkerfi sjávar og kortlagningu hafsbotnsins. Ljóst er að miklir hagsmunir eru fólgnir í því fyrir Ísland að taka þátt í alþjóðlegu vísindasamtarfi tengdu norðurslóðum. Hringborð norðurslóða (e. Arctic Circle) gegnir þar lykilhlutverki sem þungamiðja samvinnu og þekkingarmiðlunar fyrir þjóðir heims sem láta sig málefni svæðisins varða. Þá mun Ísland í samstarfi við Japan standa að ráðherrafundi um vísindi norðurslóða árið 2020 (e. Arctic Science Ministerial 3). Fundurinn verður haldinn í Japan. Ákvörðun þessi var tekin á hliðstæðum ráðherrafundi um vísindi norðurslóða í Berlín 2018. Sá fundur var skipulagður í samstarfi Þýskalands, Finnlands og framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins og sóttu hann leiðtogar 25 ríkja auk fulltrúa Evrópusambandsins og sex samtaka frumbyggja.


Áfram veginn
Rannsóknir, vísindi og hagnýting hugvits er forsenda fjölbreytts atvinnulífs, velferðar og styrkrar samkeppnisstöðu þjóða. Ég lít björtum augum til framtíðar vitandi af þeim öfluga mannauði í vísinda- og rannsóknastarfi sem við eigum. Ég er sannfærð um að íslenskt vísindasamfélag muni halda áfram að eflast og hafa jákvæð áhrif á samfélagið hér innanlands sem og samfélög erlendis. Við ætlum að halda áfram að byggja upp öflugt þekkingarsamfélag hér á landi því afrakstur þess mun skila okkur betri lífsgæðum, menntun, heilsu og efnahag. Fyrrnefnt frumvarp er mikilvægt skref í að efla umgjörð vísindastarfs og mun færa okkur fram á veginn á því sviði.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum