Hoppa yfir valmynd

Frétt

30. janúar 2019 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Grein Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra - Umhverfismálin eru lykilmál

Eftirfarandi grein Guðmundar Inga Guðbrandssonar umhverfis- og auðlindaráðherra birtist í Fréttablaðinu 30. janúar 2019.

 

Umhverfismálin eru lykilmál

Samkvæmt nýlegri könnun Gallup nefna helmingi fleiri en áður umhverfismál og loftslagsbreytingar sem helstu áskoranirnar sem Ísland stendur frammi fyrir í dag. Áhyggjur Íslendinga af loftslagsbreytingum hafa aukist milli ára og fleiri segjast jafnframt hugsa mikið um hvað þau geti gert til að draga úr áhrifum sínum á loftslagið, nærri 60%. Þetta er þó ekki einungis spurning um að hugsa heldur líka gera. Þannig var gleðilegt að sjá að mikill meirihluti landsmanna kveðst hafa breytt hegðun sinni síðastliðið ár til að lágmarka áhrif sín á umhverfi og loftslag. Þá segist um helmingur hafa breytt neysluvenjum sínum í sama tilgangi. Það sem hafði mest áhrif á breytta hegðun var aukin umræða, fréttaumfjöllun og fræðsla.

Samkvæmt gagnagrunni Fjölmiðlavaktarinnar hefur fréttum sem innibera orðið „umhverfismál“ fjölgað um tæp 80% á einungis fimm árum. Plast hefur aldeilis komist á dagskrá en 56% aukning varð á fréttum um plast seinustu þrjú ár. Nær tvöföldun hefur orðið á fréttum um friðlýsingar á sama tímabili og æ fleiri fréttir eru fluttar um matarsóun. Árið 2010 innihéldu 164 fréttir orðið „loftlagsbreytingar“ en í fyrra tæplega 1.000 eða hátt í þrjár á dag.

Ég hef alltaf haft þá bjargföstu trú að það að auka sýnileika umhverfismála skipti máli og lagt áherslu á að við gerum í sameiningu allt sem við getum til að auka þennan sýnileika. Ég gladdist því að fá staðfest í könnuninni að þetta geti sannarlega verið afl til breytinga.

Umhverfismálin eru lykilmál

Mun fleiri en áður telja stjórnvöld almennt ná miklum árangri í að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda í samfélaginu. 19,6% voru á þeirri skoðun árið 2017 en 33,9% nú. Í könnuninni kemur líka fram að fólk vill að stjórnmálamenn geri enn meira til að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda á Íslandi. Það eru góðar fréttir.

Fólk vill samkvæmt könnuninni að ríki, sveitarfélög og fyrirtæki taki umhverfismálin föstum tökum. Umhverfismálin eru orðin lykilmál.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum