Hoppa yfir valmynd

Frétt

30. janúar 2019 Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Viðskipti við hið opinbera einfölduð og dregið úr kostnaði með rafrænum reikningum

Fjármála- og efnahagsráðuneytið vinnur að því að samræma kröfur til rafrænna reikninga vegna opinberra innkaupa í því augnamiði að einfalda viðskipti fyrirtækja við hið opinbera og draga úr hindrunum og kostnaði í viðskiptum jafn innanlands sem og milli landa. Reikningarnir eru umhverfisvænir og skapa verulegt hagræði, m.a. í sparnaði við útgáfu, miðlun, móttöku og úrvinnslu.

Í þessu skyni hefur tekið gildi ný reglugerð, sem felur í sér að tekinn er upp staðall sem ríki og sveitarfélög skulu styðja og einfaldar sendingu rafrænna reikninga til opinberra aðila. Innleiðingu skal vera lokið fyrir 18. apríl 2019.

Rafrænn reikningur er tölvulesanlegt skjal á XML formi sem styður við sjálfvirkni í innlestri inn í fjárhagskerfi kaupanda. Reikningar á .pdf formi flokkast því ekki sem rafrænir reikningar. Notkun rafrænna reikninga felur, auk umhverfissjónarmiða, í sér að afgreiðsla verður hraðari og öruggari og sendingar- og geymslukostnaður lægri.

Í gildandi viðskiptaskilmálum ríkisins kemur fram að allir reikningar til ríkisstofnana skulu vera með rafrænum hætti nema um annað sé samið og hefur hlutfall rafrænna reikninga farið hækkandi ár frá ári. Mikil hagræðing hefur náðst fram, bæði hjá kaupendum og seljendum frá því innleiðing rafrænnna reikninga hófst árið 2007, meðal annars vegna aukinnar sjálfvirknivæðingar ferla sem rafrænir reikningar bjóða upp á. Hlutfall reikninga sem berast með rafrænum hætti er komið upp í 70%. Stefnt er að því að á komandi árum verði þrengt enn frekar að notkun pappírs með það að markmiði að allir reikningar til hins opinbera verði rafrænir.

Reglugerð um rafræna reikninga vegna opinberra samninga

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum