Hoppa yfir valmynd

Frétt

31. janúar 2019 Heilbrigðisráðuneytið

Sjúkrahótelið við Hringbraut afhent í dag

Sjúkrahótelið við Hringbraut - myndHeilbrigðisráðuneytið

Formleg afhending sjúkrahótelsins við Hringbraut fór fram í dag. Hótelið er hluti af fyrsta áfanga þess verkefnis sem felst í heildaruppbyggingu Landspítalans. Sjúkrahótelið er á fjórum hæðum, með 75 herbergjum af mismunandi gerð miðað við ólíkar þarfir dvalargesta.

 

Svandís SvavarsdóttirSvandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra sagði í ávarpi við þetta tækifæri að afhending hótelsins marki tímamót í heilbrigðisþjónustu við alla landsmenn: „Meðal annars mun opnun sjúkrahótelsins stuðla að því mikilvæga markmiði að sjúklingar fái þjónustu á réttu og viðeigandi þjónustustigi, eins og er leiðarstef í þeirri heilbrigðisstefnu sem nú er til umfjöllunar á Alþingi.“ Hún nefndi einnig þau skilgreindu markmið með hótelinu sem snúa að því að auka gæði heilbrigðisþjónustu og stuðla að hagkvæmni í rekstri. Eins væri það mikilvægur liður í því að jafna aðgang allra landsmanna, óháð búsetu, að sérhæfðri heilbrigðisþjónustu.

Sjúkrahótelið mun nýtast fólki sem þarf heilsu sinnar vegna eða vegna aðstandenda að dvelja fjarri heimabyggð vegna rannsókna og meðferðar og eins munu konur sem bíða fæðingar og fjölskyldur þeirra njóta góðs af sjúkrahótelinu, ekki síst þegar verðandi mæður þurfa að vera í nálægð við fæðingardeildina þegar um áhættufæðingu er að ræða. Eins mun hótelið nýtast þeim sem eru útskrifaðir af sjúkrahúsi en þurfa að vera í tengslum við spítalann og/eða þurfa tíma til að jafna sig áður en þeir verða fullfærir um að búa heima hjá sér. Sjúkrahótelið mun því í ýmsum tilvikum geta flýtt fyrir útskrift sjúklinga af Landspítalanum og vera til þess fallið að styðja bataferli þeirra og búa þeim öryggi við góðar aðstæður í kjölfar sjúkrahúslegu.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, sagðist í ávarpi vonast til að sjúkrahótelið muni styðja við rekstur spítalans og létta af honum álagi. Um mikilvægan áfanga væri að ræða til að tryggja landsmönnum fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu. Páll Matthías, forstjóri Landspítalans tók í sama streng og sagði tilkomu hótelsins veita Landspítalanum tækifæri til að efla enn frekar þjónustu við sjúklinga og fjölskyldur þeirra. Fram kom í máli hans að stefnt sé að opnun hótelsins á vordögum, væntanlega í apríl.

Gunnar Svavarsson framkvæmdastjóri Nýs Landspítala segist fullviss um að sjúkrahótelið muni gjörbreyta aðstöðu fyrir sjúklinga og aðstandendur þeirra: „Annar áfangi Hringbrautarverkefnisins er hafinn en það eru jarðvinnuframkvæmdir við byggingu nýs meðferðarkjarna. Áætlanir okkar eru þær að byggingu spítalans verði lokið 2024 í samræmi við fjármálaáætlun Alþingis 2019-2023.“

  • Svandís Svavarsdóttir - mynd
  • Sjúkrahótelið við Hringbraut afhent í dag - mynd úr myndasafni númer 2
  • Gunnar Svavarsson, framkvæmdastjóri Nýs Landspítala - mynd
  • Svandís Svavarsdóttir og Páll Matthíasson - mynd
  • Páll Matthíasson - mynd
  • Sjúkrahótelið við Hringbraut afhent í dag - mynd úr myndasafni númer 6
  • Erling Ásgeirsson, stjórnarformaður Nýs Landspítala - mynd
  • Sjúkrahótelið við Hringbraut afhent í dag - mynd úr myndasafni númer 8
  • Bjarni Benediktsson fjármála- og efnahagsráðherra - mynd
  • Sjúkrahótelið við Hringbraut afhent í dag - mynd úr myndasafni númer 10
  • Erling Ásgeirsson og Bjarni Benediktsson - mynd
  • Sjúkrahótelið við Hringbraut afhent í dag - mynd úr myndasafni númer 12
  • Sjúkrahótelið við Hringbraut afhent í dag - mynd úr myndasafni númer 13

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum