Hoppa yfir valmynd

Frétt

22. febrúar 2019 Heilbrigðisráðuneytið

Drög að frumvarpi varðandi neyslurými til umsagnar

Drög að frumvarpi heilbrigðisráðherra um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni hefur verið birt til umsagnar. Markmiðið með frumvarpinu er að veita heimild til að stofna og reka neyslurými að uppfylltum tilteknum skilyrðum. Umsagnarfrestur er til 4. mars næstkomandi. 

Áformað er að leggja fram á vorþingi 2019 frumvarp til laga um breytingu á lögum um ávana- og fíkniefni, nr. 65/1974, í því skyni að heimila stofnun og rekstur neyslurýma að uppfylltum tilteknum skilyrðum sem kveðið verður á um í reglugerð, en hún verður jafnframt kynnt í Samráðsgáttinni þegar að því kemur.

Neyslurými er lagalega verndað umhverfi þar sem einstaklingar sem eru 18 ára og eldri geta neytt vímuefna í æð, undir eftirliti heilbrigðisstarfsmanna, og þar sem gætt er fyllsta hreinlætis, öryggis og sýkingavarna.

Við vinnslu frumvarpsdraganna voru meðal annars höfð til hliðsjónar ákvæði dönsku og norsku laganna sem heimila stofnun og rekstur neyslurýma, en talið er að um 90 neyslurými séu rekin í tíu löndum.

Neyslurými byggjast á hugmyndafræði skaðaminnkunar, en í henni felt að draga úr heilsufarslegum, félagslegum og efnahagslegum afleiðingum notkunar vímuefna án þess þó að draga úr notkuninni sjálfri, enda gagnast skaðaminnkun ekki aðens fólki sem neytir efna heldur einnig fjölskyldum þeirra og samfélaginu öllu. 

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum