Hoppa yfir valmynd

Frétt

27. febrúar 2019 Forsætisráðuneytið, Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Ræddu samstarf í upplýsingatæknimálum í Eistlandi

Jüri Ratas, forsætisráðherra Eistlands og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands - mynd

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, funduðu í dag með Jüri Ratas, forsætisráðherra Eistlands og Rene Tammist, upplýsingatækniráðherra landsins, um aukið samstarf þjóðanna á sviði upplýsingatækni og stafrænnar stjórnsýslu.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, Rene Tammist, upplýsingatækniráðherra Eistlands og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra ÍslandsRáðherrarnir kynntu sér árangur Eista í stafrænni opinberri þjónustu og ræddu samstarf þjóðanna í heimsókn sinni til Eistlands. Íslensk stjórnvöld hafa sett sér það markmið að stafræn samskipti verði meginsamskiptaleið almennings og stjórnvalda fyrir lok árs 2020.

Ráðherrarnir fengu kynningu á skipulagi upplýsingamála hins opinbera í Eistlandi, löggjöf sem styður við opinbera þjónustu og X-Road-kerfinu og þýðingu þess fyrir aukna samvirkni milli þjónustukerfa hins opinbera. Þá var fjallað um hvernig Eistar nýta netið til þess að veita opinbera þjónustu, m.a. með notkun stafrænna skilríkja. Farið var yfir framkvæmd netkosninga og ráðherrunum veitt innsýn í hvernig stafræn þjónusta auðveldar daglegt líf almennings.

Á fundi forsætisráðherra og fjármála- og efnahagsráðherra með Jüri Ratas, forsætisráðherra Eistlands, ræddu ráðherrarnir einnig fyrirhugaðar kosningar í Eistlandi sem fara fram á sunnudaginn, loftslagsmál og möguleika landanna á samstarfi í baráttunni gegn loftslagsbreytingum, jafnréttismál og stöðuna í alþjóðasamskiptum. Einnig ræddu ráðherrarnir samstarf Norðurlanda og Eystrasaltsríkja og formennsku Íslands í Norðurskautsráðinu.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra:

„Samskipti Íslands og Eistlands byggja á traustum grunni og einkennast af gagnkvæmri vináttu og virðingu. Það er mikilvægt að rækta þessi samskipti og þar eru mikil tækifæri á sviði stafrænnar stjórnsýslu. Það er ljóst að við búum við einstaka stöðu á Íslandi þegar kemur að því að geta nýtt stafrænar lausnir í samskiptum við almenning vegna þess að við höfum góða tæknilega innviði og fólk á Íslandi er almennt nettengt. Við eigum að nýta okkur þessa stöðu og auðvelda aðgengi og samskipti fólks við stjórnvöld. Það er mikilvægt að geta lært af og unnið með Eistum sem hafa skipað sér í fremstu röð í þessum málaflokki.”

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra:

„Við fórum til Eistlands til að læra af þeim sem hafa tekið forystu í stafrænni opinberri þjónustu. Ég hef sannfærst enn frekar um þann mikla ávinning sem við getum haft af því að stórauka framboð af stafrænni opinberri þjónustu á Íslandi. Eistum hefur tekist að gera alla helstu ferla stafræna, allt frá því að skrá nafn á barni til þess að stofna fyrirtæki. Við höfum náð góðum áföngum á undanförnum árum á einstaka sviðum, eins og í skattamálum, en þurfum að setja markið hærra eins og yfirlýsing ríkisstjórnarinnar frá því í fyrra felur í sér, um að stafræn samskipti verði meginstefnan í þjónustu ríkisins fyrir árslok 2020. Það kom fram að fjöldi sparaðra ársverka í Eistlandi sé að aukast með stafrænni þjónustu, og þau séu nú um 1400 á hverju ári. Umreiknað á íslenskan mælikvarða gæti það þýtt sparnað upp á um 400 ársverk. Þar fyrir utan er allt annað hagræði, aukin ánægja með opinbera þjónustu og óendanleg tækifæri til að gera betur.”


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum