Hoppa yfir valmynd

Frétt

28. mars 2019 Utanríkisráðuneytið

Rússneskar herflugvélar í loftrýmiseftirlitssvæðinu

Eurofighter-þota ítalska flughersins - myndWikimedia Commons

Tvær ítalskar orrustuþotur, sem eru á Íslandi við loftrýmisgæslu, voru í gærkvöld sendar á loft til að auðkenna tvær óþekktar flugvélar sem komnar voru inn í loftrýmiseftirlitssvæði Atlantshafsbandalagsins hér við land.

Um var að ræða tvær rússneskar sprengjuflugvélar af gerðinni Tupolev Tu-142 (Bear F). Þær höfðu hvorki tilkynnt sig til flugumferðarstjórnar né voru með ratsjársvara í gangi. Þetta er í annað sinn í þessum mánuði sem rússneskar sprengjuflugvélar fljúga inn fyrir mörk loftrýmiseftirlitssvæðis Atlantshafsbandalagsins við Ísland.

„Það er til marks um vaxandi hernaðarumsvif Rússa við Ísland að rússneskar herflugvélar hafa í þessum mánuði flogið tvisvar inn í loftrýmiseftirlitssvæði Atlantshafsbandalagsins hér við land. Þetta atvik kemur upp þegar ítalski flugherinn er á Íslandi við loftrýmisgæslu, öll viðbrögð hans voru í fyllsta samræmi við vinnureglur Atlantshafsbandalagsins. Atvikið staðfestir enn einu sinni mikilvægi loftrýmiseftirlits og loftrýmisgæslu hér á landi,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra. 

Loftrýmisgæsla Atlantshafsbandalagsins við Ísland stendur nú yfir en flugsveit ítalska flughersins kom hingað til lands fyrir nokkru. Verkefnið heyrir undir svæðisstjórnstöð Atlantshafsbandalagsins í Uedem, Þýskalandi (Combined Air Operations Center) en Landhelgisgæsla Íslands ber ábyrgð á framkvæmdinni hérlendis, í samvinnu við Isavia. Ítalska flugsveitin er með fjórar Eurofighter Typhoon EF-2000 orrustuþotur.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum