Hoppa yfir valmynd

Frétt

29. mars 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Ráðherra fundaði í Reykjanesbæ vegna WOW

Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, fór til fundar við forsvarsmenn þjónustuskrifstofu Vinnumálastofnunar í Reykjanesbæ í dag og ræddi stöðuna sem upp er komin eftir gjaldþrot WOW. Þann fund sátu sömuleiðis fulltrúar stéttarfélaga, félagsmálastjórar og forsvarsmenn sveitarfélaganna á svæðinu. Fjöldi íbúa á Suðurnesjum starfaði hjá WOW eða hefur atvinnu af starfsemi sem tengist flugfélaginu á jörðu niðri. Var það niðurstaða fundarins að gjaldþrot félagsins er mikið áfall fyrir Suðurnesin og ljóst að stjórnvöld þurfa að gæta að því að velferðarkerfið grípi þá sem á þurfa að halda.

Vinnumálastofnun efld í ljósi aðstæðna

Stjórnvöld hafa í ljósi frétta af stöðu WOW air undanfarna daga og vikur verið í viðbragðsstöðu ásamt Vinnumálstofnun. Var í því skyni skipað teymi innan stofnunarinnar sem fékk það hlutverk að setja upp viðbragðsáætlun. Þegar ljóst var í gær að félagið væri gjaldþrota var sú áætlun virkjuð.

Ásmundur Einar fundaði með forsvarsmönnum Vinnumálastofnunnar og viðbragðsteyminu strax í hádeginu í gær þar sem farið var yfir þær aðgerðir sem þyrfti að ráðast í strax. Fram kom að búið var að yfirfara heimasíðuna og gera hana eins notendavæna og unnt er. Starfsfólki á símavöktum og í þjónustuveri var samstundis fjölgað. Eins var ákveðið var að lengja afgreiðslutíma stofnunarinnar í Reykjavík og Keflavík í dag, föstudaginn 29. mars.

Þá lagði Ásmundur Einar það til við ríkisstjórnina í morgun að Vinnumálastofnun verði veitt 80 milljón króna tímabundið framlag vegna þeirra óvæntu viðfangsefna sem blasa við. Var sú tillaga samþykkt. „Aldrei í sögu Atvinnuleysistryggingasjóðs og Ábyrgðasjóðs launa hafa jafn margir misst vinnuna á sömu stundu og ljóst að starfsemi Vinnumálastofnunnar verður að miklu leyti helguð þessu verkefni á komandi vikum og mánuðum,“ segir Ásmundur Einar.

Ásmundur sagði félagsmálaráðuneytið koma til með að eiga reglulega fundi með Vinnumálastofnun næstu daga til að fylgjast með framvindu mála og veita henni þann stuðning sem nauðsynlegt er. „Við munum halda áfram að vakta stöðuna, vinna þétt saman og vera í góðu samtali við hagsmunaaðila og stofnanir,“ segir Ásmundur Einar.

  •   - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum