Hoppa yfir valmynd

Frétt

1. apríl 2019 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Ráðherra mælir fyrir frumvarpi um breytingu á lögum um loftslagsmál

Horft að Keili frá Sjálandi í Garðabæ - myndHugi Ólafsson

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, mælti í dag fyrir frumvarpi til laga um breytingu á lögum um loftslagsmál. Markmiðið er að styrkja umgjörð og stjórnsýslu loftslagsmála hér á landi.

Í frumvarpinu er mælt fyrir um loftslagsstefnu ríkisins og lögð sú skylda á Stjórnarráð Íslands, stofnanir ríkisins og fyrirtæki í meirihlutaeigu ríkisins að setja sér loftslagsstefnu. Setja skal fram skilgreind markmið um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda og kolefnisjöfnun viðkomandi starfsemi, ásamt aðgerðum svo þeim markmiðum verði náð. Í greinargerð er tekið fram að mikilvægt sé að Stjórnarráðið og ríkisaðilar sýni frumkvæði og fordæmi í þessum efnum.

„Það að mæla með þessum hætti fyrir um skyldu ríkisaðila til að setja sér loftslagsstefnu og skýr markmið um samdrátt í losun markar tímamót. Með þessu sýnum við ríkan vilja til að takast af krafti á við verkefnið fram undan – að minnka áhrif okkar á loftslagið,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra.

Í frumvarpinu er í fyrsta skipti kveðið á um loftslagsráð í lögum og tekið fram að ráðið sé sjálfstætt og óhlutdrægt í störfum sínum. Enn fremur er lagt til nýtt ákvæði sem fjallar um aðlögun íslensks samfélags að loftslagsbreytingum. Verði frumvarpið að lögum verður fest í lög sú skylda ráðherra að láta vinna áætlun um aðlögun íslensks samfélags að loftslagsbreytingum, á grundvelli bestu vísindalegrar þekkingar.

Auk þess er í frumvarpinu ákvæði um skýrslugerð um áhrif loftslagsbreytinga á náttúrufar og samfélag á Íslandi. Slíkar skýrslur hafa áður verið unnar að beiðni ráðherra, en í ljósi fyrirsjáanlegra breytinga á náttúrufar og samfélag verður slík skýrslugerð nú lögfest. Skýrslurnar skulu taka mið af reglulegum úttektarskýrslum IPCC, milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, og nýjustu og bestu upplýsingum um áhrif loftslagsbreytinga á Íslandi hverju sinni. Veðurstofa Íslands leiðir vinnu við skýrslugerðina með aðkomu sérfræðinga á sviði náttúruvísinda og samfélagslegra þátta sem fjallað er um.

Önnur ákvæði frumvarpsins varða breytingar á gildandi ákvæðum laganna, til dæmis varðandi loftslagssjóð. Einnig eru lagðar til breytingar á ákvæðum um aðgerðaáætlun í loftslagsmálum til að styrkja hana sem stjórntæki til að ná markmiðum Parísarsamningsins um samdrátt í losun gróðurhúsalofttegunda til 2030 og markmiðum ríkisstjórnarinnar um kolefnishlutleysi árið 2040.

„Frá því að lög um loftslagsmál voru sett fyrir sjö árum hefur loftslagsvandinn vaxið og meðvitund um hann stóraukist. Margt hefur breyst og rík þörf er á að uppfæra lögin. Ríkisstjórnin hefur sett loftslagsmálin á oddinn og mikil vinna á sér nú stað varðandi þennan málaflokk. Loksins hafa loftslagsmálin fengið þann sess sem þeim ber,“ segir Guðmundur Ingi.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum