Hoppa yfir valmynd

Frétt

3. apríl 2019 Innviðaráðuneytið, Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Menningar- og viðskiptaráðuneytið

Öruggara net- og tækniumhverfi fyrir íslensk börn

Ásmundur Einar Daðason félags- og barnamálaráðherra, Sigrún Edda Eðvarðsdóttir formaður samtakanna Heimili og skóli, Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. - mynd

SAFT – samfélag, fjölskylda og tækni er mikilvægt vakningarátak um örugga tækninotkun barna og unglinga á Íslandi. Í dag var undirritaður samningur um stuðning við starfsemi verkefnisins til ársloka 2020 og fór undirritunin fram í Klettaskóla í Reykjavík. Klettaskóli er sérskóli á grunnskólastigi sem starfað hefur frá árinu 2011.

Að samningnum standa félagsmálaráðuneyti, mennta- og menningarmálaráðuneyti og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti annars vegar og hins vegar landssamtök foreldra Heimili og skóli, Rauði krossinn, Ríkislögreglustjóri og Barnaheill – Save the Children á Íslandi. Verkefnið er hluti af netöryggisþætti samgönguáætlunar Evrópusambandsins.

Netnotkun er orðin samofin lífi barna og unglinga og eftirlit með notkun þeirra mismikil. Öflugt starf er unnið á vegum SAFT á sviði forvarna og fræðslu á því sviði og kannanir sýna fram á góðan árangur þess. Á vegum SAFT er starfrækt ungmennaráð sem er verkefninu til ráðgjafar og stuðlar að virkri þátttöku ungmenna í því. Fulltrúi ungmennaráðsins, Katrín Árnadóttir nemandi í 8. bekk í Hagaskóla kynnti við undirritunina í morgun niðurstöður fundar evrópskra ungmennaráða um forgangsatriði netöryggismála.

Samningurinn sem undirritaður var snýr að rekstri SAFT-verkefnisins á Íslandi en vitundarvakning þess um örugga og jákvæða notkun netsins og annarra nýmiðla snýr ekki aðeins að börnum og ungmennum heldur einnig foreldrum, kennurum, fjölmiðlum og þeim sem starfa við upplýsingatækni.

Meðal annarra markmiða SAFT-verkefnisins eru:

  • stuðla að stafrænni borgaravitund barna og ungmenna
  • stuðla að auknu netöryggi og persónuvernd barna og ungmenna á netinu
  • að berjast gegn ólöglegu efni á netinu og að veita börnum og ungmennum aðstoð í því skyni
  • að vinna gegn hatursorðræðu á netinu með hliðsjón af Evrópuráðsverkefninu „Ekkert hatur“

SAFT-verkefnið leiðir síðastnefnda verkefnið um hatursorðræðu á netinu fyrir hönd mennta- og menningarmálaráðuneytis í samstarfi við Mannréttindaskrifstofu Íslands, SAMFÉS, Landssamband æskulýðsfélaga og Æskulýðsvettvanginn. Verkefninu er ætlað stuðla að jafnrétti, virðingu, mannréttindum og fjölbreytileika. Markmið þess eru meðal annars að stuðla að vitundarvakningu um hatursáróður og hatursorðræðu á netinu meðal ungs fólks, kynna þau fyrir mikilvægi miðlalæsis og styðja þau í að verja mannréttindi á netinu.

Heildarkostnaður við SAFT-verkefnið er um 30 milljónir kr. á ári og greiða íslensk stjórnvöld helming þeirrar upphæðar á móti Evrópusambandinu. Í verkefnisstjórn SAFT sitja fulltrúar frá ráðuneytunum, samtökunum Heimili og skóli, Barnaheill, Rauða krossinum, Ríkislögreglustjóra, Persónuvernd, Háskóla Íslands, Fjölmiðlanefnd og Menntamálastofnun.

Nánar má fræðast um SAFT og mikilvægi netöryggismála á heimasíðunni www.saft.is.

  • Öruggara net- og tækniumhverfi fyrir íslensk börn - mynd úr myndasafni númer 1
  • Öruggara net- og tækniumhverfi fyrir íslensk börn - mynd úr myndasafni númer 2
  • Öruggara net- og tækniumhverfi fyrir íslensk börn - mynd úr myndasafni númer 3

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

4. Menntun fyrir öll
16. Friður og réttlæti

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum