Hoppa yfir valmynd

Frétt

11. apríl 2019 Utanríkisráðuneytið

Skráning Iceland Foods á orðmerkinu Iceland ógilt

Hugverkastofa Evrópusambandsins- EUIPO - mynd

Hugverkastofa Evrópusambandsins (EUIPO) hefur komist að þeirri niðurstöðu að vörumerkjaskráning bresku verslunarkeðjunnar Iceland Foods Ltd. á orðmerkinu Iceland í Evrópusambandinu sé ógild í heild sinni. Fyrirtækið hefur tvo mánuði til að áfrýja úrskurðinum. 

Íslensk stjórnvöld, Íslandsstofa og Samtök atvinnulífsins ákváðu á sínum tíma að grípa til til lagalegra aðgerða gegn Iceland Foods Ltd., sem fékk árið 2014 orðmerkið Iceland skráð hjá Hugverkastofu Evrópusambandsins. Krafa Íslands var að þessi skráning Iceland Foods yrði ógilt, enda væri um þekkt landfræðilegt heiti að ræða og einnig að merkið Iceland væri almennt, sérkennalaust og hefði aldrei átt að fást skráð

„Ég fagna þessari niðurstöðu þótt hún komi mér ekki alls kostar á óvart enda gengur það gegn almennri skynsemi að erlent fyrirtæki geti slegið eign sinni á nafn fullvalda ríkis eins og þarna hefur verið gert. Hér er um að ræða áfangasigur í afar þýðingarmiklu máli fyrir íslensk útflutningsfyrirtæki. Landið okkar er þekkt fyrir hreinleika og sjálfbærni og því verðmæti fólgin í vísun til uppruna íslenskra vara,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra.

Úrskurðurinn sem kveðinn var upp síðastliðinn föstudag er afgerandi en fallist er alfarið á kröfur Íslands. Skráning Iceland Foods Ltd. á orðmerkinu Iceland hjá EUIPO er því ógilt í heild sinni. Sýnt hafi verið fram á með fullnægjandi hætti að neytendur í ESB-löndunum viti að Iceland sé land í Evrópu og og eins hafi landið sterk söguleg og efnahagsleg tengsl við ESB-ríkin ásamt landfræðilegri nálægð. Neytendur tengi merkið því við Ísland fyrir allar vörur og þjónustu sem undir skráninguna falla eða séu líklegir til að gera það í framtíðinni. Merkið sé þar af leiðandi fyrst og fremst lýsandi fyrir landfræðilegan uppruna og uppfylli ekki kröfur um sérkenni, sem er ein meginforsenda þess að vörumerki fáist skráð. 

Iceland Foods Ltd. á eftir sem áður orð- og myndmerki sitt, svokallað „lógó“, skráð í Evrópu og víðar og getur haldið áfram að stunda viðskipti undir nafninu. Frestur Iceland Foods til að vísa málinu til áfrýjunarnefndar EUIPO rennur út 5. júní nk.  

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum