Hoppa yfir valmynd

Frétt

12. apríl 2019 Heilbrigðisráðuneytið

Stuðningur við aldraða til sjálfstæðrar búsetu verði aukinn

Efnt verður til samstarfsverkefnis með áherslu á heilsueflingu aldraða og markvissari þjónustu við þá sem þurfa stuðning til að geta búið á eigin heimili vegna heilsubrests. Ríkisstjórnin samþykkti tillögu heilbrigðisráðherra þessa efnis á fundi sínum í dag. Undirbúningur verkefnisins verður á hendi ráðuneyta heilbrigðis- forsætis- félags- og fjármála, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Embættis landlæknis og mun starfshópur þessara aðila skila tillögum um fyrirkomulag þess til heilbrigðisráðherra í júní næstkomandi.

Margvíslegur ávinningur ef markmiðin nást

Þjóðin eldist og samkvæmt tölum Hagstofunnar mun fólki eldra en 80 ára fjölga um tæplega 6.000 eða 46% til ársins 2030. Hætta á sjúkdómum eykst með hækkandi aldri og þar vega þungt ýmsir sjúkdómar tengdir lífsstíl. Margþættur ávinningur felst í því að efla heilsu aldraðra og gera þeim kleift að búa sem lengst á eigin heimili. Með því er unnt að auka lífsgæði fólks, stemma stigu við auknum kostnaði heilbrigðiskerfisins og stuðla að meiri gæðum þjónustunnar í samræmi við þarfir einstaklinganna.

Undanfarin ár hefur Embætti landlæknis stuðlað markvisst að heilsueflingu landsmanna, m.a. með samstarfssamningum við sveitarfélög um heilsueflandi samfélag og útgáfu lýðheilsuvísa. Heilsuefling er mikilvæg á öllum aldursskeiðum en ör fjölgun í elstu aldurshópunum kallar á að aldraðir fái sérstaka athygli. Skapa þarf aðstæður sem ýta sérstaklega undir heilsueflingu og markvissar forvarnir meðal aldraðra. Einnig þarf að stórefla félagslega aðstoð við aldraða í heimahúsum og sömuleiðis heimahjúkrun. Fjölgun dagdvalarrýma er líka mikilvægur liður í þessu. Með þessu móti ætti að vera hægt að draga verulega úr þörf meðal aldraðra fyrir búsetu á hjúkrunarheimili.

Öflug heimahjúkrun ræður miklu um möguleika aldraðra til að búa heima þegar sjúkdómar fara að gera vart við sig. Ísland er eftirbátur hinna Norðurlandaþjóðanna ef borin eru saman fjárframlög hins opinbera til heimahjúkrunar sem hlutfall af vergri landsframleiðslu og er hlutfallið að jafnaði tífalt hærra hjá grannþjóðunum en okkur (nánar um þetta í skýrslu KPMG: Mat á InterRai-mælitækjum og færni- og heilsumati, 2018).

Samstarf ríkis og sveitarfélaga

Ríki og sveitarfélög þurfa að ræða sín á milli hvernig þau geta saman komið þessum málum í bestan farveg þannig að aldraðir njóti á hverjum tíma þeirrar þjónustu sem gagnast best þörfum þeirra og aðstæðum. Meðal annars þarf að ræða hlutverkaskiptinguna og hvernig ríkið getur stutt sveitarfélögin til að sinna þessum málaflokki sem mikilvægri þjónustu við íbúa í heimabyggð.

Undirbúningur samstarfsverkefnisins sem ríkisstjórnin fjallaði um í dag verður á hendi ráðuneyta heilbrigðis- forsætis- félags- og fjármála, Sambands íslenskra sveitarfélaga og Embættis landlæknis. Starfshópur þessara aðila mun skila tillögum til heilbrigðisráðherra um fyrirkomulag verkefnisins í júní næstkomandi.

Fundur um forvarnir og heilsueflingu

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra fundaði nýverið með sérfræðingum á sviði forvarna og heilsueflingar ásamt fulltrúum aldraðra. Áherslur fundarmanna styðja vel þá hugsun sem býr að baki fyrirhuguðu samstarfsverkefni. Þótt margt sé vel gert séu margvísleg tækifæri til að gera betur, sníða þjónustuna betur að einstaklingsbundnum þörfum aldraðra og skerpa á mikilvægum þáttum sem hægt er að sinna betur og geta skipt miklu um möguleika aldraðra til að halda lengur heilsu, færni og getu til þess að búa heima við góðar aðstæður.

Hér má sjá myndir frá fundinum.

 

  • Janus Guðlaugsson, Dóra Guðrún Guðmundsdóttir og Elva Gísladóttir - mynd
  • Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra - mynd
  • Þórunn Sveinbjörnsdóttir - mynd
  • Sigríður Snæbjörnsdóttir og Þórunn Sveinbjörnsdóttir - mynd
  • Frá fundi um forvarnir og heilsueflingu aldraðra - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum