Hoppa yfir valmynd

Frétt

15. apríl 2019 Forsætisráðuneytið

778/2019. Úrskurður frá 5. apríl 2019

Úrskurður

Hinn 5. apríl 2019 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 778/2019 í máli ÚNU 18040009.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 6. apríl 2018, kærði A ófullnægjandi afgreiðslu og synjun Lánasjóðs íslenskra námsmanna, LÍN, á beiðni um afhendingu gagna sem vörðuðu annars vegar kæranda og hins vegar B.

Með tölvupósti til LÍN, dags. 3. október 2017, óskaði kærandi eftir öllum gögnum sem vörðuðu sig og til væru hjá stofnuninni frá árinu 2007 fram til þess dags. Með því væri m.a. átt við tölvupóstssamskipti LÍN við innheimtufélög stofnunarinnar, þ.m.t. Gjaldskil ehf., sem vörðuðu hagsmuni sína, allar skráningar, nýskráningar, afskráningar og breytingar í málaskrá LÍN, og öll önnur gögn sem kynnu að varða hagsmuni sína, þ.m.t. um fyrningu krafna á hendur sér. Kærandi setti einnig fram samhljóða beiðni um gögn sem vörðuðu B. Tekið var fram að nauðsynlegt væri að gögnin bærust sem fyrst til að kærandi gæti haldið uppi fullnægjandi vörnum í dómsmáli LÍN á hendur sér. Kærandi ítrekaði beiðni sína með tölvupósti, dags. 30. nóvember 2017.

Með erindi, dags. 19. janúar 2018, leitaði kærandi til úrskurðarnefndar um upplýsingamál vegna óhæfilegs dráttar LÍN á afgreiðslu beiðni sinnar um afhendingu gagna. Kæran var kynnt LÍN með bréfi, dags. 20. febrúar 2018, og frestur veittur til að taka ákvörðun um afgreiðslu beiðninnar.

Í svarbréfi LÍN, dags. 9. mars 2018, var farið yfir beiðni kæranda um gögn frá 3. október 2017. Fyrri liður erindisins hefði snúið að gögnum sem vörðuðu kæranda sjálfan. Á sama tíma og erindi kæranda hefði borist LÍN hafi verið til meðferðar mál milli stofnunarinnar og kæranda fyrir héraðsdómstólum vegna ákvörðunar sýslumanns að stöðva aðfarargerð á hendur kæranda sem ábyrgðarmanni að námslánum B. Lögmenn beggja aðila hefðu annast gagnaöflun í málinu og framlagningu þeirra gagna fyrir dómi. Meðfylgjandi svarbréfi LÍN væru að nýju öll þau gögn sem lögð hafi verið fram fyrir dómi, en einnig öll afrit af bréfum til kæranda sem send hefðu verið með sjálfvirkum hætti úr innheimtukerfi stofnunarinnar vegna innheimtu námslána og yfirlita til ábyrgðarmanns frá árinu 2007. Þar með teldi LÍN sig hafa afhent kæranda öll gögn sem vörðuðu kæranda frá árinu 2007.

LÍN nefndi í svarbréfi sínu að upp hefði komið misskilningur milli kæranda og LÍN varðandi beiðni um aðgang að gögnum, en gögn sem hafi verið til hjá stofnuninni varðandi umrætt mál og sneru að kæranda og hefðu ekki verið lögð fram af öðrum hvorum aðila við meðferð málsins hjá sýslumanni hefðu verið lögð fram við meðferð málsins fyrir héraðsdómstólum. LÍN taldi því lögmenn aðila hafa séð um samskipti vegna umræddrar beiðni kæranda um afhendingu gagna og afgreiðslu hennar.

Hvað varðaði síðari lið erindis kæranda, sem sneri að afhendingu gagna sem vörðuðu B, væri ljóst að kærandi nyti ekki aðildar að málum sem vörðuðu B í skilningi stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Samkvæmt 1. mgr. 5. gr. upplýsingalaga nr. 140/2012 væri hins vegar skylt að veita almenningi aðgang að fyrirliggjandi gögnum sem vörðuðu tiltekið mál. Í samræmi við 1. mgr. 15. gr. sömu laga skyldi sá sem færi fram á aðgang að gögnum tilgreina þau eða efni þess máls sem þau tilheyrðu með nægjanlega skýrum hætti til að hægt væri, án verulegrar fyrirhafnar, að afmarka beiðni við tiltekin gögn eða tiltekið mál. Á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga teldi LÍN ekki mögulegt að afmarka beiðni kæranda og yrði honum því veittur kostur á að afmarka beiðni sína nánar, sbr. 3. mgr. 15. gr. upplýsingalaga. Til að hægt væri að afgreiða beiðni yrði hún að vera sett fram með nægilega nákvæmum hætti til að hægt væri að finna þau mál sem upplýsinga væri óskað um, t.d. með einfaldri orða- eða efnisatriðaleit í málaskrá.

Í kjölfarið var mál kæranda hjá úrskurðarnefndinni fellt niður með bréfi, dags. 12. mars 2018, þar sem erindi kæranda hefði verið svarað af LÍN og því ekki tilefni fyrir nefndina að aðhafast frekar í málinu. Kæranda var leiðbeint um að teldi hann að sér hefði ranglega verið synjað um aðgang að gögnum þyrfti hann að kæra synjunina sérstaklega til nefndarinnar og yrði málið þá tekið fyrir sem nýtt kærumál.

Í kæru sinni til úrskurðarnefndarinnar, dags. 6. apríl 2018, tók kærandi fram að þau gögn sem hann fór upphaflega fram á hefðu enn ekki verið afhent í heild sinni. Í því samhengi nefndi hann að gögn úr lánakerfi LÍN, e-LÍNu, og gögn úr eldra lánakerfi stofnunarinnar lægju ekki fyrir, og ekki heldur tölvupóstssamskipti LÍN við nánar tilgreint innheimtufélag sem varðað gætu kæranda. Kærandi hafnaði því að hann teldist ekki aðili að málum sem vörðuðu B. Hann hefði tekið á sig ábyrgð á tilteknum námslánum B á sínum tíma. Þar af leiðandi teldist hann hafa beina, verulega, sérstaka og lögvarða hagsmuni af úrlausn mála B og þar með af að fá aðgang að þeim upplýsingum sem vörðuðu mál B. Kærandi telur að í versta falli ætti hann rétt til aðgangs að gögnum sem vörðuðu mál B á grundvelli 14. gr. upplýsingalaga, þar sem fjallað er um upplýsingarétt aðila þegar gögn hafa að geyma upplýsingar um hann sjálfan.

Kærandi hafnaði því að gagnabeiðni sín væri ekki nægilega vel afmörkuð, sbr. 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga. Hann vísaði sérstaklega til tölvupóstssamskipta LÍN við nánar tilgreint innheimtufélag sem varðaði sig og B. Ekki yrði séð að leit að gögnum hvað þetta varðaði væri íþyngjandi fyrir stofnunina. Beiðnin væri enn fremur afmörkuð við málaskrárkerfi LÍN og þær upplýsingar sem þar væri að finna, annað hvort um sig eða B, en í afhentum gögnum væri ekki að sjá neitt úr slíku kerfi.

Kærandi tók fram að upplýsingabeiðni sín væri ekki einskorðuð við gögn sem lytu að fyrningu krafna á hendur sér eða B, heldur einnig niðurfellingu mála hjá stofnuninni eða annað sem gæti haft áhrif á hagsmuni kæranda. Að lokum ítrekaði kærandi að afgreiðslu málsins yrði hraðað í ljósi yfirstandandi innheimtuaðgerða LÍN á hendur sér.

Málsmeðferð

Með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 24. apríl 2018, var kæran kynnt LÍN og frestur veittur til að senda nefndinni umsögn um kæruna og koma að frekari rökstuðningi fyrir ákvörðun sinni. Jafnframt var óskað eftir afriti af þeim gögnum sem kæran lyti að. LÍN var veittur viðbótarfrestur í málinu til og með 8. maí 2018.

Í umsögn LÍN, dags. 8. maí 2018, voru fyrri svör stofnunarinnar ítrekuð sem fram komu í erindi LÍN til kæranda frá 9. mars 2018. Hvað varðaði staðhæfingu kæranda að ekki hefðu öll gögn sem vörðuðu sig verið afhent var tekið fram að e-LÍN væri nýtt útlánakerfi og kærandi hefði ekki verið aðili að neinum útlánum hjá stofnuninni frá því kerfið var tekið í gagnið. Þá hefðu báðir aðilar notið atbeina lögmanna við málareksturinn, sem hefðu séð um gagnaöflun og framlagningu gagna.

Tölvupóstssamskiptum LÍN við nánar tilgreint innheimtufélag taldi LÍN að skyldi ekki veita aðgang að með vísan til 2. tölul. 1. mgr. 16. gr. stjórnsýslulaga, þar sem fram kemur að bréfaskipti stjórnvalda við sérfróða menn til afnota í dómsmáli eða við athugun á því hvort slíkt mál skuli höfðað séu undanþegin upplýsingarétti. Afrit af samskiptunum fylgdu erindi LÍN til úrskurðarnefndarinnar.

Að því er varðaði beiðni kæranda um aðgang að gögnum um B ítrekaði LÍN fyrri sjónarmið sín um að kæranda hefði verið gefinn kostur á að afmarka gagnabeiðni sína nánar með vísan til 3. mgr. 15. gr. upplýsingalaga. LÍN bætti því svo við að ef kærandi afmarkaði beiðni sína nánar þyrfti stofnunin að meta hvort heimilt væri að afhenda umbeðin gögn á grundvelli 9. gr. upplýsingalaga, þar sem fjallað er um takmarkanir á upplýsingarétti vegna einkahagsmuna.

Með bréfi, dags. 15. maí 2018, var kæranda kynnt umsögn LÍN og honum gefinn kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Frekari athugasemdir kæranda bárust ekki.

Niðurstaða
1.

Í máli þessu er deilt um afgreiðslu LÍN á beiðni kæranda um gögn sem varða annars vegar hann sjálfan og hins vegar B frá árinu 2007 til þess dags sem beiðnin var sett fram. Fram hefur komið að kærandi gekkst á sínum tíma í sjálfskuldarábyrgð fyrir skuldabréf vegna námslána B hjá LÍN. Stofnunin höfðaði mál gegn kæranda vegna ákvörðunar sýslumanns að stöðva aðfarargerð á hendur kæranda vegna fjárnáms fyrir kröfu LÍN á hendur kæranda, sem ábyrgðarmanni að námslánum B. Í desember 2017 var kveðinn upp dómur í héraði þar sem ákvörðun sýslumanns var felld úr gildi og lagt fyrir hann að halda aðfarargerðinni áfram.

2.

Í fyrri hluta beiðni kæranda um gögn var óskað eftir öllum gögnum sem vörðuðu hann og til væru hjá stofnuninni frá árinu 2007 fram til þess dags sem beiðnin var sett fram. Voru þar m.a. nefnd tölvupóstssamskipti LÍN við innheimtufélög stofnunarinnar, þ.m.t. Gjaldskil ehf., sem vörðuðu hagsmuni sína, skráningarupplýsingar í málaskrá LÍN og önnur gögn sem kynnu að varða hagsmuni kæranda. Með svari LÍN fylgdu þau gögn sem lögð höfðu verið fram í dómsmáli LÍN gegn kæranda vegna þeirrar ákvörðunar sýslumanns að stöðva aðfarargerð á hendur honum og nokkur bréf til kæranda úr innheimtukerfi stofnunarinnar. Var tekið fram í svarinu að með þessu teldi stofnunin sig hafa afhent öll gögn sem fyrir lægju hjá LÍN og vörðuðu kæranda allt aftur til ársins 2007.

Í kæru til úrskurðarnefndar kom fram að kæranda hefðu hvorki verið afhent gögn úr nýja lánakerfi LÍN, e-LÍNu, né úr eldra lánakerfi stofnunarinnar. Auk þess hefði hann ekki enn fengið aðgang að tölvupóstssamskiptum LÍN við innheimtufélag stofnunarinnar, sem varðað gætu sig. Í umsögn LÍN kom fram að e-LÍN væri nýtt lánakerfi og kærandi hefði ekki verið aðili að neinum útlánum hjá stofnuninni frá því það var tekið í gagnið. Kom svo fram að báðir aðilar hefðu notið atbeina lögmanna við málareksturinn, sem hefðu séð um gagnaöflun og framlagningu gagna.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál getur ekki fallist á að afgreiðsla LÍN á beiðni kæranda um gögn varðandi hann sjálfan hafi verið fullnægjandi. Í svari stofnunarinnar til kæranda kom ekki fram hvort fyrir lægju tölvupóstssamskipti LÍN við innheimtufélag stofnunarinnar sem varðað gætu hagsmuni kæranda á því tímabili sem hann tiltók í beiðni sinni, og ef svo væri, hvort kærandi ætti rétt til aðgangs að þeim. Þess í stað fylgdu umsögn LÍN til úrskurðarnefndarinnar tiltekin tölvupóstssamskipti LÍN við nánar tilgreint innheimtufélag, sem fram kom í umsögninni að skyldu undanþegin aðgangi kæranda á grundvelli 2. tölul. 1. mgr. 16. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Ekki kom hins vegar fram hvort um væri að ræða öll tölvupóstssamskipti LÍN við innheimtufélagið sem varðað gætu kæranda eða hvort aðeins væri um að ræða hluta af þeim. Í svari LÍN til kæranda var í engu minnst á tölvupóstssamskiptin. Þar sem ekki liggur fyrir að kæranda hafi verið synjað um aðgang að þeim á lægra stjórnsýslustigi telur úrskurðarnefndin sér ekki fært að leggja efnislegt mat á gögnin og mögulegan rétt kæranda til aðgangs að þeim.

Í svari LÍN komu hvorki fram upplýsingar um þau gögn sem gætu legið fyrir um kæranda í málaskrá stofnunarinnar né hvort kærandi ætti rétt til aðgangs að þeim. Hvað varðar önnur gögn í vörslum LÍN sem gætu varðað hagsmuni kæranda nefndi hann sérstaklega í kæru sinni að hann óskaði upplýsinga úr lánakerfum stofnunarinnar, bæði úr nýrri og eldri kerfum. Í umsögn LÍN til úrskurðarnefndarinnar kom fram að eftir að nýtt lánakerfi hefði verið tekið í gagnið hefði kærandi ekki verið aðili að neinum útlánum hjá stofnuninni. Hins vegar var í engu vikið að því hvort finna mætti upplýsingar um kæranda í eldra lánakerfi LÍN, né hvort nokkuð væri því til fyrirstöðu að hægt væri að afhenda honum þær.

3.

Síðari hluti beiðni kæranda til LÍN varðaði aðgang að gögnum sem vörðuðu B. Orðalag beiðninnar var samhljóða þeim hluta hennar sem sneri að gögnum um kæranda sjálfan og LÍN taldi afmarkaðan með fullnægjandi hætti. LÍN taldi hins vegar ekki mögulegt, á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga, að afmarka beiðni kæranda varðandi gögn B og veitti honum kost á að afmarka beiðni sína nánar, sbr. 3. mgr. 15. gr. upplýsingalaga. Kærandi var ósammála því að beiðni sín væri ekki nægilega vel afmörkuð.

Í 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga kemur fram að sá sem fari fram á aðgang að gögnum skuli tilgreina þau eða efni þess máls sem þau tilheyra með nægjanlega skýrum hætti til að hægt sé, án verulegrar fyrirhafnar, að afmarka beiðni við tiltekin gögn eða tiltekið mál. Í 3. mgr. sömu greinar segir að beiðni megi vísa frá ef ekki sé talið mögulegt á grundvelli fyrirliggjandi upplýsinga að afmarka hana við tiltekin gögn eða tiltekið mál. Í athugasemdum við 15. gr. í frumvarpinu sem varð að upplýsingalögum kemur fram að til að hægt sé að afgreiða beiðni verði hún að vera fram sett með nægilega nákvæmum hætti til að stjórnvald geti, t.d. með einfaldri orða- eða efnisatriðaleit í málaskrá sinni, fundið þau mál sem lúta að því málefni sem aðili óskar að fá upplýsingar um.

Úrskurðarnefndin telur að beiðni kæranda um gögn sem varða B hafi uppfyllt þær kröfur sem gerðar eru með ákvæði 1. mgr. 15. gr. upplýsingalaga, enda er í henni óskað allra gagna sem til eru hjá stofnuninni og varða B frá árinu 2007 til þess dags sem beiðnin var sett fram. Að auki er í framhaldinu útskýrt hvaða gögn komi til greina í því samhengi.

Eins og rakið er hér að framan kom fram í umsögn LÍN, dags. 8. maí 2018, að taka yrði afstöðu til þess hvort heimilt væri að afhenda umbeðin gögn um B með hliðsjón af 9. gr. upplýsingalaga, yrði beiðnin afmörkuð með fullnægjandi hætti. Í tilefni af þessu bendir úrskurðarnefndin á að hér kann einnig að koma til skoðunar hvort kærandi kunni að eiga rétt til aðgangs að einhverjum gagnanna á grundvelli 1. mgr. 14. gr. upplýsingalaga. Ef svo er myndi ekki reyna á takmarkanir á upplýsingarétti skv. 9. gr. upplýsingalaga heldur skv. 3. mgr. 14. gr. laganna.

Að öllu framangreindu virtu skortir að mati úrskurðarnefndar um upplýsingamál verulega á að tekin hafi verið rökstudd afstaða til gagnabeiðni kæranda líkt og upplýsingalög gera ráð fyrir, sbr. einnig 10. gr. stjórnsýslulaga nr. 37/1993. Því verður að telja að beiðni kæranda, bæði varðandi gögn um sjálfan sig og um B, hafi ekki fengið þá efnislegu meðferð á lægra stjórnsýslustigi sem úrskurðarnefndinni sé fært að endurskoða. Hin kærða ákvörðun er þannig haldin efnislegum annmörkum sem eru að mati nefndarinnar svo verulegir að ekki verður hjá því komist að fella hana úr gildi og leggja fyrir LÍN að taka málið til nýrrar og lögmætrar meðferðar. Við þá afgreiðslu ber stofnuninni að fjalla um hvern og einn lið upplýsingabeiðninnar, taka afstöðu til þess hvaða gögn, ef nokkur, heyra undir viðkomandi lið og heimfæra álitaefnið undir viðeigandi ákvæði upplýsingalaga. Það sem athuga þarf sérstaklega er hvort tekin hafi verið afstaða til allra tölvupóstssamskipta við innheimtufélagið Gjaldskil ehf., og hugsanlega önnur innheimtufélög, eða einungis hluta þeirra, gagna um kæranda sem gætu legið fyrir í málaskrá stofnunarinnar og í eldra lánakerfi LÍN svo og gagna er varða B, sbr. umfjöllun um gögn þessi í tölul. 2 og 3 hér að framan.

Úrskurðarnefnd um upplýsingamál leggur að lokum áherslu á að meðferð málsins verði hraðað sem kostur er í ljósi þeirra tafa sem þegar hafa orðið á því að kærandi fái efnislega úrlausn í máli sínu.

Úrskurðarorð:

Beiðni A, dags. 3. október 2017, er vísað til Lánastofnunar íslenskra námsmanna til nýrrar meðferðar og afgreiðslu.


Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum