Hoppa yfir valmynd

Frétt

15. apríl 2019 Forsætisráðuneytið

781/2019. Úrskurður frá 5. apríl 2019

Úrskurður

Hinn 5. apríl 2019 kvað úrskurðarnefnd um upplýsingamál upp svohljóðandi úrskurð nr. 781/2019 í máli ÚNU 18110016.

Kæra og málsatvik

Með erindi, dags. 20. nóvember 2018, kærði A, f.h. Samherja hf., tafir Seðlabanka Íslands á meðferð beiðni um aðgang að gögnum.

Í kæru kemur fram að Seðlabankinn hafi óskað eftir því með tveimur beiðnum, dags. 23. mars 2012, að Héraðsdómur Reykjavíkur veitti húsleitar- og haldlagningarheimildir á starfsstöðvum kæranda og fleiri lögaðila á Akureyri og í Reykjavík. Samkvæmt kröfum bankans hafi rannsókn hans einkum miðað að því að upplýsa hvort verð kæranda við útflutning til tengdra aðila væri í samræmi við það sem almennt tíðkast í viðskiptum óskyldra aðila. Kærandi hafi fengið afhent gögn í apríl 2012 sem hafi sýnt að ómögulegt væri annað en að útreikningur Seðlabanka á karfaverði byggðist á stærðfræðilegri skekkju. Frá þeim tíma hafi kærandi ítrekað óskað eftir afhendingu útreikninganna sjálfra. Seðlabankinn hafi ýmist látið hjá líða að svara kæranda eða sent önnur gögn en útreikningana.

Með bréfi kæranda til bankaráðs Seðlabanka Íslands, dags. 20. ágúst 2018, óskaði kærandi eftir upplýsingum um fjölda, númer og gögn í tilteknum málum í málaskrá Seðlabankans. Kærandi tekur fram að miklu máli skipti hvernig staðið hafi verið að rannsókn á hendur honum og tengdra aðila af hálfu Seðlabankans. Þegar kæra barst úrskurðarnefndinni hafi þrír mánuðir liðið án þess að beiðnin hafi verið afgreidd.

Loks óskaði kærandi eftir því með tölvupósti, dags. 14. nóvember 2018, að fá afhent lögfræðiálit sem bankinn aflaði og sneri að máli kæranda. Þó ekki sé langt liðið frá beiðninni telur kærandi ekki líklegt að hún hljóti skjóta afgreiðslu í ljósi reynslunnar.

Málsmeðferð

Með bréfi, dags. 26. nóvember 2018, var kæran kynnt Seðlabanka Íslands og því beint til bankans að taka ákvörðun um afgreiðslu beiðna kæranda eigi síðar en þann 11. desember 2018.

Í umsögn Seðlabanka Íslands, dags. 11. desember 2018, segir að í 1. málsl. 2. mgr. 4. gr. upplýsingalaga komi fram að lögin gildi ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt stjórnsýslulögum. Fyrir liggi að umbeðnar upplýsingar varði stjórnsýslumál kæranda hjá Seðlabankanum. Engu að síður geti bankinn upplýst að Seðlabankinn hafi svarað kæranda með tölvupósti, dags. 22. nóvember 2018. Þar komi fram að bankinn hafi þegar afhent lögmanni kæranda lögfræðiálit sem vísað var til í fréttatilkynningu bankans. Hvað varðar beiðni um útreikninga á karfaverði hafi Seðlabankinn vísað til svarbréfs bankans, dags. 26. október 2017, í tilefni af gagnabeiðni, dags. 10. ágúst 2017. Jafnframt hafi Héraðsdómur Reykjavíkur komist að þeirri niðurstöðu í máli nr. E-1523/2014 að upplýsingar sem lúti að öðrum útflytjendum séu undanþegnar upplýsingarétti aðila samkvæmt stjórnsýslulögum. Loks hafi bankinn útskýrt tilurð mála í málaskrá sinni.

Með bréfi, dags. 14. febrúar 2019, var umsögn Seðlabanka Íslands kynnt kæranda og veittur kostur á að koma á framfæri frekari athugasemdum í ljósi hennar. Í athugasemdum kæranda, dags. 18. febrúar 2019, kemur m.a. fram að umsögn Seðlabankans varðandi karfaútreikninga feli í sér útúrsnúninga og mótbárur bankans eigi ekki við. Beiðni kæranda snúi að útreikningum bankans þar sem stærðfræðileg villa komi fram en ekki hrágögnunum þar að baki. Þá hafi bankinn ekki útskýrt tilurð mála í málaskrá sinni með fullnægjandi hætti í ljósi fyrri svara hans. Loks er fallið frá þeim lið kærunnar sem varðar lögfræðiálit, þar sem kæranda hafi verið veittur aðgangur að því.

Niðurstaða

Í máli þessu er deilt um rétt kæranda til aðgangs að gögnum mála og upplýsingum sem tengjast rannsóknum Seðlabanka Íslands á málefnum kæranda, einkum í tengslum við verð við útflutning kæranda til tengdra aðila.

Samkvæmt 2. mgr. 4. gr. upplýsingalaga gilda lögin ekki um aðgang að upplýsingum samkvæmt stjórnsýslulögum. Af þessu leiðir enn fremur að ákvarðanir um aðgang að gögnum á grundvelli stjórnsýslulaga verða ekki kærðar til úrskurðarnefndar um upplýsingamál heldur ber að beita sérstakri kæruheimild í 2. mgr. 19. gr. stjórnsýslulaga. Í máli þessu liggur fyrir að umbeðin gögn tilheyra stjórnsýslumálum sem voru til meðferðar hjá Seðlabanka Íslands og var kærandi aðili málanna í skilningi stjórnsýslulaga. Um aðgang hans að upplýsingum sem tengjast málunum fer því samkvæmt 15.-19. gr. stjórnsýslulaga. Í kæru er einnig byggt á því að kærandi eigi rétt til aðgangs að umbeðnum gögnum á grundvelli 1. mgr. 15. gr. stjórnsýslulaga. Samkvæmt framangreindu fellur kæra þessi utan gildissviðs upplýsingalaga og verður því að vísa henni frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.

Úrskurðarorð:

Kæru Samherja hf. á hendur Seðlabanka Íslands er vísað frá úrskurðarnefnd um upplýsingamál.


Hafsteinn Þór Hauksson
formaður


Sigurveig Jónsdóttir Friðgeir Björnsson

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum