Hoppa yfir valmynd

Frétt

27. apríl 2019 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Uppbygging á Reykjanesi: stækkun Fjölbrautaskóla Suðurnesja

Fulltrúar sveitarfélaga á Suðurnesjum skrifuðu í vikunni undir samkomulag um fyrirhugaða stækkun Fjölbrautaskóla Suðurnesja. Undirritunin fór fram í húsakynnum skólans í Reykjanesbæ og skrifaði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra undir samkomulagið við fulltrúa Reykjanesbæjar, Grindavíkurbæjar, sveitarfélagsins Voga og Suðurnesjabæ. Viðbyggingin mun hýsa félagsrými nemenda og bæta mjög aðstöðu þeirra.

„Það er virkilega ánægjulegt að geta gengið frá þessu samkomulagi og rúllað þessum bolta af stað. Það er þörf á uppbyggingu við skólann – á þessu svæði hefur orðið mikil fólksfjölgun á síðustu árum og það er mikilvægt að innviðirnir okkar geti tekið við þeim sem hér vilja stunda nám – og skólinn boðið þeim góða aðstöðu. Nemendaaðstaðan er oft hjartað í hverjum skóla, ég samgleðst nemendum og aðstandendum Fjölbrautaskóla Suðurnesja innilega með þetta góða skref,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Um er að ræða byggingaráfanga sem verður um 300 fm að stærð. Áætlaður stofnkostaður er um 123 milljónir kr. og er kostnaðarhlutdeild ríkisins 60%. Skólinn hefur verið í stöðugri uppbyggingu frá stofnun árið 1976, en hann var annar fjölbrautaskólinn sem byggður var hér á landi. Nemendur við skólann nú eru rúmlega 830, á starfs-, bók- og verknámsbrautum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum