Hoppa yfir valmynd

Frétt

15. maí 2019 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Niðurstöður úttektar á þjónustu við fatlað fólk í Hveragerðisbæ

Gæða- og eftirlitsstofnun félagsþjónustu og barnaverndar (GEF) hefur unnið úttekt á þjónustu við fatlað fólk í Hveragerðisbæ og liggja niðurstöður nú fyrir. Í úttektinni var m.a. kannað hvernig þjónustu við fatlað fólk í Hveragerðisbæ hafi verið og er háttað og hvort sveitarfélagið hafi farið að réttum stjórnsýslureglum við undirbúning ákvarðana varðandi þjónustu við fatlað fólk og framkvæmd hennar.

Tildrög úttektarinnar voru erindi frá Öryrkjabandalagi Íslands og Landssamtökunum Þroskahjálp sem Réttindavakt velferðarráðuneytisins framsendi GEF með bréfi í júní sl. Þar var óskað eftir því að þjónusta Hveragerðisbæjar við fatlað fólk yrði tekin til skoðunar í kjölfar ábendinga sem borist höfðu Öryrkjabandalaginu og Þroskahjálp. Ábendingar bárust einnig frá réttindagæslumanni fyrir hönd foreldra tveggja barna vegna þjónustu sveitarfélagsins við þau.

GEF beinir ábendingum til Velferðarþjónustu Árnesþings sem byggjast m.a. á niðurstöðum símakönnunar, viðtölum við foreldra tveggja fatlaðra barna og viðtölum við starfsmenn velferðarþjónustunnar.

Velferðarþjónustan er hvött til að huga að eftirfarandi þáttum varðandi framkvæmd þjónustu við fatlað fólk í Hveragerðisbæ:

  • Notkun samræmds matstækis við mat á stuðningsþörfum fatlaðs fólks.
  • Áhersla verði lögð á samráð við notendur við mat á stuðningsþörfum og breytingar á þjónustu.
  • Gæðamál, svo sem skráning verkferla og ábendinga.
  • Markvisst innra eftirlit með skipulagi og framkvæmd þjónustu við fatlað fólk.

- Þjónusta við fatlað fólk í Hveragerðisbæ

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum