Hoppa yfir valmynd

Frétt

15. maí 2019 Forsætisráðuneytið, Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið, Fjármála- og efnahagsráðuneytið

Samkomulag undirritað um Kjaratölfræðinefnd

  • Áreiðanlegar upplýsingar um laun og efnahag sem nýtast við undirbúning kjarasamninga


Samkomulag um hlutverk og umgjörð Kjaratölfræðinefndar var undirritað á 15. samráðsfundi stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins í Ráðherrabústaðnum í dag.

Kjaratölfræðinefndin er samstarf heildarsamtaka á vinnumarkaði, ríkis og sveitarfélaga um gerð og hagnýtingu tölfræðigagna um laun og efnahag til undirbúnings og eftirfylgni með kjarasamningum. Nefndinni er ætlað að stuðla að því að aðilar samkomulagsins hafi sameiginlegan skilning á eðli, eiginleikum og þróun þeirra hagtalna sem mestu varða við gerð kjarasamninga.

Aðilar að nefndinni eru forsætisráðuneyti, félagsmálaráðuneyti, fjármála- og efnahagsráðuneyti, Alþýðusamband Íslands, Bandalag háskólamanna, BSRB, Kennarasamband Íslands, Samband íslenskra sveitarfélaga, Samtök atvinnulífsins og Hagstofa Íslands.

Félags- og barnamálaráðherra skipar nefndina til fjögurra ára í senn eftir tilnefningum þeirra sem eiga aðild að nefndinni, einn fulltrúa frá hverjum aðila. Ráðherra skipar jafnframt formann nefndarinnar án tilnefningar. Nefndin er hýst hjá Ríkissáttasemjara sem leggur til fundar- og starfsaðstöðu.

Endurskoðun á samkomulagi um Þjóðhagsráð, vinnu við gerð fyrirhugaðrar grænbókar um framtíðarumhverfi kjarasamninga og vinnumarkaðsmála og um eftirfylgni með aðgerðum ríkisstjórnar í tengslum við gerð Lífskjarasamninga var einnig til umfjöllunar á fundinum.


  •   - mynd
  •   - mynd
  •   - mynd

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum