Hoppa yfir valmynd

Frétt

24. maí 2019 Menningar- og viðskiptaráðuneytið

122% aukning umsókna í listkennsludeild LHÍ

122% aukning umsókna í listkennsludeild LHÍ - myndListaháskóli Íslands
Fjöldi umsókna í listkennsludeild Listaháskóla Íslands hefur aukist um 122% frá síðasta ári, ekki síst vegna tilkomu nýrrar námsleiðar við deildina fyrir nemendur sem hafa grunngráðu í öðru en listum en vilja bæta við sig meistaranámi í kennslufræðum. Markmiðið með nýju námsleiðinni er að byggja brú milli ólíkra greina og fagsviða og skila þannig fleiri vel menntuðum kennurum út í samfélagið sem geta verið forustuafl skapandi greina. Góð aðsókn er í nýja námið en um þessar mundir standa yfir inntökuviðtöl við deildina.

Listkennsludeild skólans á 10 ára starfsafmæli um þessar mundir en árlega útskrifast um 20 listgreinakennarar frá skólanum. Úr nýja náminu munu nemendur ekki ljúka meistaragráðu sem listkennarar með sérstaka áherslu á ákveðna listgrein heldur sem almennir kennarar með áherslu á skapandi listmiðað skólastarf, á grunni þeirrar sérhæfingar sem viðkomandi býr yfir.
„Öflugt menntakerfi er forsenda framfara og það kerfi er borið uppi af kennurum sem með sínum störfum leggja grunn að annarri fagmennsku í samfélaginu. Til þess að mæta áskorunum framtíðarinnar þurfum við fjölhæfa og drífandi kennara og aukna áherslu á gagnrýna hugsun og sköpun í skólastarfi. Ég fagna mjög auknum áhuga á kennaranámi, og þeim nýju leiðum sem kennaramenntunarstofnanir eins og Listaháskólinn bjóða nú upp á. Við höfum kynnt fyrstu aðgerðirnar sem miða að því að fjölga kennurum, þeim hefur verið mjög vel tekið og ég er bjartsýn á árangur þeirra og það sem koma skal,“ segir Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Listaháskóli Íslands er einn fjögurra háskóla hér á landi sem bjóða upp á kennaranám en hinir eru Háskólinn á Akureyri, Háskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík. Umsóknafrestur um grunnnám í kennslufræðum í Háskóla Íslands og Háskólanum á Akureyri er til 5. júní nk. Nánari upplýsingar um valkosti í kennaranámi má nálgast á vefnum komduadkenna.is.

Hér má kynna sér aðgerðir stjórnvalda sem miða að fjölgun kennara.



Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum