Hoppa yfir valmynd

Frétt

12. júní 2019 Forsætisráðuneytið

Frumvarp um vandaða starfshætti í vísindum samþykkt

Haraldur Jónasson / Hari - mynd
Frumvarp forsætisráðherra um vandaða starfshætti í vísindum var samþykkt á Alþingi í gær. Lögunum er ætlað að stuðla að því að rannsóknir fari fram í samræmi við siðferðisviðmið og auka þannig trúverðugleika vísindastarfs og rannsókna í samfélaginu.

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra:

„Það hefur lengi verið til umræðu á vettvangi vísinda- og tækniráðs og í vísindasamfélaginu hér á landi að efla þurfi vitund um siðfræði rannsókna og styrkja ramma um siðferðilegar hliðar vísindarannsókna. Með þessu frumvarpi skipum við okkur í hóp með öðrum Norðurlandaþjóðum sem sett hafa lög um heilindi í vísindum.“

Forsætisráðherra mun skipa óháða nefnd um vandaða starfshætti í vísindum til fjögurra ára í senn og skal nefndin vera til ráðgjafar og stuðla að fræðslu um efnið auk þess að fjalla um mál sem til hennar er vísað eða hún tekur upp að eigin frumkvæði.

Forsætisráðherra, sem er formaður vísinda- og tækniráðs, ákvað í júní 2018 að skipa starfshóp til að undirbúa lagaumgjörð um heilindi í vísindum en Vilhjálmur Árnason, prófessor, var formaður hópsins. Við gerð frumvarpsins var sérstaklega horft til löggjafar annars staðar á Norðurlöndum en þar eru nefndir sem hafa það hlutverk að beita sér fyrir því að upplýsa fólk og veita ráðgjöf um vandaða starfshætti í vísindum. Einnig hafa slíkar nefndir úrræði á grundvelli laga eða stjórnvaldsfyrirmæla til að leysa úr málum þegar upp koma grunsemdir um óvandaða starfshætti í rannsóknum, svo sem uppspuna, falsanir og ritstuld. Með slíkri fræðslu og úrræðum er leitast við að efla vandaða starfshætti í vísindasamfélaginu og traust almennings á vísindum og rannsóknum.

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

9. Nýsköpun og uppbygging

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum