Hoppa yfir valmynd

Frétt

26. júní 2019 Forsætisráðuneytið

Viðhorfskönnun um stjórnarskrá lýðveldisins

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, hefur í samráði við fulltrúa allra flokka sem sæti eiga á Alþingi ákveðið að fela Félagsvísindastofnun HÍ að kanna viðhorf Íslendinga til stjórnarskrárinnar og endurskoðunar hennar. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar kemur fram að ríkisstjórnin vilji halda áfram heildarendurskoðun stjórnarskrárinnar í þverpólitísku samstarfi með aðkomu þjóðarinnar og nýta meðal annars til þess aðferðir almenningssamráðs og er könnunin liður í því.

Meginmarkmiðið með viðhorfskönnuninni er að draga fram sameiginleg grunngildi íslensku þjóðarinnar, að kanna viðhorf til tillagna sem komið hafa fram á undanförnum árum að breytingum á stjórnarskrá lýðveldisins og kortleggja sýn almennings á þau viðfangsefni stjórnarskrárendurskoðunar sem tekin eru fyrir á þessu kjörtímabili.

Stefnt er að því að gögn úr könnuninni nýtist jafnframt í tengslum við rökræðukönnun sem haldin verður 9.–10. nóvember nk. um afmörkuð atriði stjórnarskrárendurskoðunarinnar. Rökræðukönnun byggir á viðhorfskönnuninni enda eiga niðurstöður viðhorfskönnunar að nýtast til frekari umræðna frekar en að þjóna sem endanleg niðurstaða um fylgi eða andstöðu við einstakar breytingar.

Þeir einstaklingar sem lenda í úrtaki eru hér með hvattir til að taka þátt og leggja þannig sitt af mörkum til að stjórnarskrárendurskoðunin takist vel. Viðhorfskönnunin er síma- og netkönnun meðal úrtaks úr þjóðskrá og úr netpanel Félagsvísindastofnunar.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum