Hoppa yfir valmynd

Frétt

8. ágúst 2019 Mennta- og barnamálaráðuneytið

Lilja fundaði með menntamálaráðherra Manitoba

Kelvin Goertzen mennta- og innflytjendamálaráðherra Manitoba og Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra. - mynd

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra fundaði með Kelvin Goertzen  mennta- og innflytjendamálaráðherra Manitobafylkis í Kanada. Fundurinn var hluti af dagskrá ráðherra á Íslendingadeginum í Gimli og þar ræddu ráðherrarnir um mikilvægi tungumálakennslu fyrir innflytjendur og börn með annað móðurmál. Menntamálastofnun, fyrir hönd mennta- og menningarmálaráðuneytis, á í samskiptum við menntamálayfirvöld í Manitoba vegna tungumálakennslu innflytjenda.

,,Ein af stærstu áskorunum menntakerfisins er staða barna með annað móðurmál en íslensku. Á framhaldsskólastiginu sjáum við hærri brottfallstölur hjá þeim hópi en hjá þeim sem hafa íslensku sem móðurmál. Innan mennta- og menningarmálaráðuneytisins er unnið að umbótum  í málefnum þessa hóps og það var fróðlegt að bera saman bækur við starfsbróður minn í Manitoba hvað þetta varðar,‘‘ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra.

Talsverð tengsl eru milli Íslands og Manitoba á sviði menntamála en samstarfssamningur milli Háskóla Íslands og Manitobaháskóla hefur verið í gildi frá árinu 1999. Þá eru Landbúnaðarháskólinn á Hvanneyri, Háskólinn á Hólum og Háskólinn á Bifröst einnig með samstarfssamninga við Manitobaháskóla. Íslenskudeild hefur verið starfrækt við skólann síðan 1951 með stuðningi íslenskra stjórnvalda. Í heimsókn sinni í Gimli á Íslendingadaginn  tilkynnti ráðherra um aukinn stuðning við deildina með ráðningu kennara til þriggja ára til að sinna kennslu í íslenskum bókmenntum ásamt öðrum verkefnum.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum