Hoppa yfir valmynd

Frétt

18. ágúst 2019 Forsætisráðuneytið, Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Forsætisráðherra segir róttækra aðgerða þörf til að bregðast við hamfarahlýnun

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, ásamt Mary Robinson, fyrrverandi forseta Írlands, við athöfnina í dag - mynd

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, tók þátt í athöfn í dag sem fram fór við Ok í tilefni þess að komið var fyrir minnisvarða um jökulinn sem var en er nú horfinn. Katrín hélt ræðu við rætur fjallsins og sagði að afleiðingar hamfarahlýnunar blöstu nú við um heim allan. Hún biðlaði til heimsbyggðarinnar um að grípa til róttækra aðgerða. Mikill fjöldi erlendra fréttamiðla var viðstaddur viðburðinn.

Hvarf jökulsins á Oki er skýr birtingarmynd hnattrænnar hlýnunar og viðvörun um að loftslagsváin er ekki í fjarlægri framtíð heldur hér og nú. Ok er fyrsti nafnkunni jökullinn á Íslandi til að missa titil sinn en á næstu 200 árum er talið að allir jöklar landsins fari sömu leið.

Katrín sagði að íslensk stjórnvöld hefðu sett fram fjármagnaða aðgerðaáætlun í fyrra sem þyrfti að endurskoða reglulega og bæta við frekari aðgerðum. Framundan væru viðamikil orkuskipti í samgöngum, grænir skattar hefðu verið kynntir til sögunnar og stóraukið við kolefnisbindingu, auk fjölda annarra aðgerða. Ísland hvetti önnur ríki til að grípa markvisst til aðgerða.

Forsætisráðherra undirstrikaði í ræðu sinni þá afstöðu Íslands að berjast þyrfti fyrir loftslagsréttlæti, enda væru mannréttindi, félagslegt réttlæti og jafnrétti kynjanna samtengd loftslagsmálum og allar aðgerðir gegn loftslagsbreytingum yrðu að taka mið af því.

Auk forsætisráðherra hélt Mary Robinson, fyrrum forseti Írlands og baráttukona fyrir loftslagsréttlæti, ræðu við rætur fjallsins. Að því búnu var haldið upp á fjallið þar sem minnisvarðanum var komið fyrir upp úr hádegi.


Efnisorð

Heimsmarkmiðin

13. Aðgerðir í loftslagsmálum

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum