Hoppa yfir valmynd

Frétt

4. september 2019 Utanríkisráðuneytið

Utanríkisráðherra og varaforseti Bandaríkjanna leiddu hringborðsumræður um viðskipti

Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra og Mike Pence, varaforseti Bandaríkjanna, leiddu hringborðsumræður um samstarf á sviði efnahags- og viðskiptamála og um vísinda- og menningarleg tengsl Íslands og Bandaríkjanna með forsvarsmönnum atvinnulífs beggja landa á fundi í Höfða í dag. 

Utanríkisráðherra undirstrikaði mikilvægi heimsóknar varaforseta Bandaríkjanna til að efla samstarf Íslands og Bandaríkjanna. Hann lagði áherslu á stöðu Bandaríkjanna sem mikilvægasta einstaka samstarfsríkis Íslands á sviði viðskipta, en 16 prósent af viðskiptum Íslendinga með vöru og þjónustu eru við Bandaríkin. Bandarískir fjárfestar eru einnig stærstu erlendu fjárfestarnir á Íslandi. Íslensk fyrirtæki stuðla sömuleiðis að nýsköpun, atvinnusköpun og fjárfestingum í Bandaríkjunum, einkum á sviði ferðaþjónustu og í lyfja-, tækni- og nýsköpunariðnaði. „Við sjáum mikla möguleika til að styrkja náin tengsl okkar með frekari viðskiptum,“ segir Guðlaugur Þór. 

Mike Pence lagði áherslu á styrk efnahagssamstarfs Íslands og Bandaríkjanna og lýsti áhuga á því að auka viðskipti og fjárfestingartækifæri enn frekar, til hagsbóta fyrir bæði ríki. Hann fagnaði forystu Íslands í að byggja upp nýsköpunardrifið hagkerfi og ítrekaði mikilvægi efnahagssamráðs ríkjanna sem sett var á fót í júní síðastliðnum til að dýpka viðskiptatengslin enn frekar. Varaforsetinn beindi athyglinni að mikilvægu hlutverki Íslands sem formennskuríkis í Norðurskautsráðinu næstu tvö árin og sagði Bandaríkin skuldbundin til þess að dýpka samstarf ríkjanna hvað varðar málefni norðurslóða, meðal annars með því að efla nýsköpun, frumkvöðlastarf og sjálfbæra þróun á norðurslóðum. 

Forsvarsmenn atvinnulífsins lýstu yfir áhuga sínum á að efla viðskipti á milli ríkjanna og ræddu hvernig styrkja mætti gott samband enn frekar. Fulltrúar íslenskra fyrirtækja voru frá: Icelandair, Íslandsbanka, Kerecis og Marel, ásamt fulltrúum frá Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins og Nýsköpunarsjóði. Fulltrúar bandarískra fyrirtækja voru frá: Bell, Grassy Creek Ventures, Lockheed Martin, Maine North Atlantic Development Office, OneWeb og Teledyne Marine. 

 
  • Utanríkisráðherra og varaforseti Bandaríkjanna leiddu hringborðsumræður um viðskipti  - mynd úr myndasafni númer 1
  • Utanríkisráðherra og varaforseti Bandaríkjanna leiddu hringborðsumræður um viðskipti  - mynd úr myndasafni númer 2
  • Utanríkisráðherra og varaforseti Bandaríkjanna leiddu hringborðsumræður um viðskipti  - mynd úr myndasafni númer 3
  • Utanríkisráðherra og varaforseti Bandaríkjanna leiddu hringborðsumræður um viðskipti  - mynd úr myndasafni númer 4

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum