Hoppa yfir valmynd

Frétt

9. september 2019 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið, Utanríkisráðuneytið

Endurheimt landgæða einn stærsti þátturinn í baráttunni við loftslagsvána - Viljayfirlýsing undirrituð

Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og Inger Andersen, framkvæmdastjóri UNEP, undirrituðu viljayfirlýsinguna í gær. - mynd
Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra og Inger Andersen, framkvæmdastjóri Umhverfisstofnunar Sameinuðu þjóðanna (UNEP) undirrituðu í gær viljayfirlýsingu Íslands og UNEP um samstarf á sviði landgræðslu. Guðmundur Ingi er staddur á aðildarríkjaþingi Eyðimerkursamnings Sameinuðu þjóðanna (UNCCD) í Nýju Delí á Indlandi þar sem ráðherrahluti þingsins hófst í dag.

,,Með þessari yfirlýsingu viljum við vinna að því að koma á formlegu samstarfi með Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna um landgræðsluverkefni í þróunarlöndum sem hluta af þróunarsamvinnu Íslands. Þannig getum við m.a. byggt á vinnu Landgræðsluskóla Háskóla SÞ og aldagamalli þekkingu okkar og reynslu í baráttunni gegn landeyðingu og fyrir endurheimt landgæða. Ég bind miklar vonir við þetta samstarf enda endurheimt landgæða einn stærsti þátturinn í baráttunni við loftslagsvána. Hér getum við lagt okkar af mörkum,“ segir Guðmundur Ingi.

Í yfirlýsingunni er sérstök áhersla á þróunarríki í Afríku en það byggir á svipaðri hugmyndafræði og samstarfsverkefni Íslands og UNEP um málefni jarðhita í álfunni. Gert er ráð fyrir að íslenskir sérfræðingar og fulltrúar UNEP muni á næstu mánuðum vinna að sameiginlegri tillögugerð um mögulegar fjármögnunarleiðir stærri verkefna.

Landnotkun, loftslagsbreytingar og sjálfbær orka í forgrunni

Á aðildarríkjaþingi Eyðimerkursamningsins í dag stýrði Guðmundur Ingi hringborði með fulltrúum 40 ríkja þar sem meginviðfangsefnið var landnotkun, loftslagsbreytingar og sjálfbær orka. Hann átti einnig fund með Yannick Glenmarec, framkvæmdastjóra Græna loftslagssjóðsins (Green Climate Fund), auk þess sem hann sat hádegisverðarfund í boði Amina J. Mohammed, aðstoðarframkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna með ráðherrum víðs vegar að úr heiminum þar sem rætt var um landnýtingu og loftslag.

Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum