Hoppa yfir valmynd

Frétt

9. september 2019 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Tilnefningar til Fjölmiðlaverðlauna á Degi íslenskrar náttúru 2019

Verðlaunagripurinn Jarðarberið, sem hannaður er af Finni Arnari Arnarssyni. - mynd

Dómnefnd hefur tilnefnt fjóra til Fjölmiðlaverðlauna umhverfis- og auðlindaráðuneytisins sem veitt verða á Degi íslenskrar náttúru, 16. september. Tilnefnd til verðlaunanna eru í stafrófsröð: Bára Huld Beck og Birna Stefánsdóttir, Sagafilm, Sigríður Halldórsdóttir og ritstjórn Stundarinnar.

Rökstuðningur dómnefndar fyrir valinu er eftirfarandi:

Bára Huld Beck og Birna Stefánsdóttir blaðamenn á Kjarnanum fyrir umfjöllun um neyslumenningu

Bára Huld og Birna beindu sjónum lesenda að neysluhegðun og þeim úrslitaáhrifum sem breyting á henni mun hafa í baráttunni við loftslagsbreytingar. Í þremur fréttaskýringum sem taka m.a. á mikilli fataneyslu almennings, neyslu dýraafurða og plastúrgangi draga Bára Huld og Birna upp ítarlega og fræðandi mynd af þeim vanda sem felst í óhóflegri neyslu almennings og hvaða leiðir eru færar í gera þessa neyslu sjálfbærari.

SagaFilm fyrir þáttaröðina „Hvað höfum við gert?“ sem sýnd var í RÚV sjónvarpi

Í þáttaröðinni er fjallað með vönduðum og yfirveguðum hætti um hið margslungna viðfangsefni sem loftslagsbreytingar eru. Afrakstur ítarlegrar rannsóknarvinnu, frumlegrar myndvinnslu og vönduðu vali á viðmælendum er þáttaröð sem kom viðfangsefninu rækilega á dagskrá í íslensku samfélagi og varð þannig hvati að fjölbreyttri umræðu um það hvernig við tökumst á við loftslagsbreytingar; hvernig við stemmum stigu við þeim, hvernig við aðlögumst þessum breytingum og hvernig hvert og eitt okkar getum lagt okkar lóð á vogarskálarnar í þessu mikla verkefni.

Sigríður Halldórsdóttir, fréttamaður á RÚV fyrir umfjöllun um plastmengun í fréttaskýringaþættinum Kveik

Sigríður sýnir fram á hversu útbreidd plastmengun er á Íslandi, á láði og legi. Þessu nær Sigríður fram með því að fylgja vísindamönnum í rannsóknum sínum, sem og með því að varpa ljósi á plastneyslu almennings. Enn fremur sýnir umfjöllunin fram á að ekki er allt sem sýnist þegar endurvinnsla plasts er annars vegar. Þannig tekst Sigríði að undirstrika hvernig plastmengun er ekki aðeins vandamál sem snertir einstaklinginn og nærumhverfi hans, heldur einnig hvernig viðfangsefnið er hafið yfir landamæri, eins og svo oft er raunin þegar hvers kyns mengun er annars vegar.

Stundin, ritstjórn fyrir umfjöllun um loftslagsbreytingar undir yfirskriftinni „Hamfarahlýnun“

Ítarlegri, myndrænni og vandaðri umfjöllun Stundarinnar um hamfarahlýnun tókst einkar vel að draga fram og vekja athygli á mikilvægi einstaklingsframtaksins. Í umfjölluninni var að finna fróðlegar og áhugaverðar frásagnir fólks sem hefur breytt lífsstíl sínum vegna þeirra breytinga sem ýmist eru hafnar eða eru yfirvofandi vegna breytinga á loftslagi. Á sama tíma freista blaðamenn Stundarinnar þess að svara áleitnum og mikilvægum spurningum um losun Íslands á gróðurhúsalofttegundum og hvernig stjórnvöldum hefur vegnað í því verkefni sínu að draga úr losun.

Dómnefnd skipa Kjartan Hreinn Njálsson, Ragna Sara Jónsdóttir, formaður og Valgerður Anna Jóhannsdóttir

Þakkað er fyrir allar ábendingar og tilnefningar vegna verðlaunanna.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum