Hoppa yfir valmynd

Frétt

17. september 2019 Umhverfis-٫ orku- og loftslagsráðuneytið

Evrópsk samgönguvika hafin

„Göngum‘etta“ er yfirskrift Samgönguviku í ár, en hún hófst í gær, 16. september. Um er að ræða samevrópska viku sem árlega stendur yfir dagana 16. – 22. september.

Þema vikunnar er ætlað að minna á að gönguferðir milli staða séu einnig hluti daglegra samgangna fólks. Þær séu heilsueflandi, umhverfisvænn og hagkvæmur samgöngumáti.
Fjöldi viðburða verða á vegum sveitarfélaga og félagasamtaka í vikunni en nálgast má upplýsingar um dagskrá vikunnar hér á vef Stjórnarráðsins, á heimasíðum sveitarfélaganna, auk Facebook síðu vikunnar.

Þannig verður boðið í ýmsa göngu- og hjólatúra, ljósmyndasamkeppni verður í gangi alla vikuna, hjólakappar sýna listir sínar og boðið verður upp á hjólaþrautir, dr. Bæk aðstoðar við hjólaviðgerðir og viðgerðastandar verða teknir í notkun auk þess sem upplýsingar um samgöngustíga á höfuðborgarsvæðinu verða aðgengilegar.

Ráðstefnan Hjólað til framtíðar verður haldin í níunda sinn í samstarfi við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og fleiri aðila en markmið hennar er að ýta undir fjölbreytta ferðamáta og auka veg hjólreiða á Íslandi. Í samræmi við þema vikunnar í ár verður meðal annars áhersla á gönguferðir á ráðstefnunni og sagt verður frá þróun nýrra lausna fyrir hjólandi vegfarendur, svo fátt eitt sé nefnt.

Vikan endar svo á „Bíllausa deginum“ 22. september þegar efnt verður til Bíllausu göngunnar í fyrsta sinn. Um er að ræða fjölskylduviðburð og skrúðgöngu fyrir fjölbreytta ferðamáta um Miklubraut og Hringbraut að Lækjartorgi. Ókeypis verður í strætó á höfuðborgarsvæðinu og á Akureyri að venju en þar verður strætóferðum einnig fjölgað í tilefni dagsins.

Dagskrá Evrópskrar samgönguviku


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum