Hoppa yfir valmynd

Frétt

27. september 2019 Utanríkisráðuneytið

Tveggja daga kjörræðismannaráðstefnu lauk í dag

Mynd: Lárus Karl Ingason - mynd

Tveggja daga ráðstefnu utanríkisráðuneytisins fyrir kjörræðismenn Íslands á erlendri grundu lauk í dag. Markaðs- og kynningarstarf, menningarmál, jafnréttismál og borgaraþjónusta voru á meðal þess sem hæst bar á ráðstefnunni.

Nú gegna 213 einstaklingar í 90 ríkjum um heim allan hlutverki kjörræðismanna Íslands. Þeir eru ólaunaðir og starfa náið með utanríkisráðuneytinu og sendiskrifstofum Íslands að hagsmunagæslu fyrir Íslands hönd á ólíkum sviðum. Utanríkisráðuneytið stendur að jafnaði á fimm ára fresti fyrir ráðstefnu fyrir kjörræðismenn Íslands.

Ráðstefnan, sem er sú áttunda sem haldin hefur verið, fór fram á Grand hóteli í Reykjavík. Sem fyrr er tilgangur ráðstefnunar að fræða kjörræðismennina um íslensk málefni og helstu áherslur á sviði utanríkismála, efnahags- og viðskiptamála og menningar. Sérstök áhersla var að þessu sinni lögð á þætti er varða nýsköpun og sprotafyrirtæki, jafnréttismál og á borgaraþjónustu.

„Framlag kjörræðismanna Íslands um allan heim verður seint ofmetið. Þeir vinna óeigingjarnt starf við að kynna Ísland og greiða götu íslenskra útflutningsfyrirtækja en um leið veita þeir Íslendingum sem lenda í vanda erlendis ómetanlega aðstoð á sviði borgaraþjónustu. Fyrir alla þessa vinnu þiggja þeir engin laun. Án þessara útvarða Íslands væri íslensk utanríkisþjónusta talsvert fábrotnari,“ segir Guðlaugur Þór Þórðarson utanríkisráðherra en hann flutti opnunarávarp ráðstefnunnar.

Fyrirlesarar á ráðstefnunni komu úr ýmsum áttum, meðal annars frá Íslandsstofu, Icelandair, Landsvirkjun og Stofnun Árna Magnússonar, auk fyrirtækja á sviði nýsköpunar, svo sem Íslenska sjávarklasanum, Kerecis, Nox Medical, Icelandic Startups og Crowberry Capital. Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti stöðu og horfur í þjóðarbúskapnum og Sturla Sigurjónsson, ráðuneytisstjóri í utanríkisráðuneytinu, flutti erindi um utanríkisþjónustuna. Þá stóð starfsfólk utanríkisráðuneytisins fyrir námskeiði um borgaraþjónustu en auk þess voru haldnir fyrirlestrar um jafnréttismál og íslenskar matarhefðir.

Í gærkvöld hélt svo ríkisstjórnin kvöldverðarboð í Hörpu til heiðurs kjörræðismönnunum þar sem þau Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Norman Hamilton, kjörræðismaður Íslands í Glasgow, fluttu ávörp. Hamilton hefur gegnt hlutverki sínu lengst allra kjörræðismannanna, eða frá 1973. Nú síðdegis tók Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, á móti kjörræðismönnunum á Bessastöðum.

Sem fyrr segir gegna kjörræðismennirnir veigamiklu hlutverki þegar kemur að margvíslegum aðstoðarmálum á sviði borgaraþjónustu í ríkjum og á svæðum þar sem Ísland er ekki með sendiskrifstofur, til dæmis vegna andláts íslenskra borgara, fangelsunar eða slysfara. Kjörræðismenn Íslands vinna jafnframt mikilvægt starf í samvinnu við íslensk stjórnvöld og fyrirtæki þegar kemur að markaðsmálum og sölu á íslenskum afurðum á erlendum mörkuðum. Fjölmargir þeirra eru líka vel tengdir á sínum heimaslóðum og beita sér í þágu íslenskra hagsmuna þegar kemur að samskiptum við stjórnvöld og fjölmiðla.


Efnisorð

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum