Hoppa yfir valmynd

Frétt

27. september 2019 Menningar- og viðskiptaráðuneytið, Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Tvö tímamótaverkefni í ferðaþjónustu: Framtíðarsýn og Jafnvægisás

Íslensk ferðaþjónusta á að vera leiðandi í sjálfbærri þróun. Þetta er megináherslan í nýrri framtíðarsýn og leiðarljósum ferðaþjónustunnar til ársins 2030 sem unnin var í sameiningu af ráðuneyti ferðamála, Samtökum ferðaþjónustunnar og Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

 

Til að styðja við framtíðarsýnina hafa einnig verið sett niður markmið um að árið 2030 verði heildarútgjöld ferðamanna 700 milljarðar króna, yfir 90% landsmanna verði jákvæð í garð ferðaþjónustu, meðmælaskor erlendra ferðamanna verði hærra en 75 og virkri álagsstýringu hafi verið komið á.

 

Í dag er einnig kynnt annað stórt verkefni á sviði ferðaþjónustu: Jafnvægisás ferðamála.

 

Jafnvægisásinn er nýtt, viðamikið og mikilvægt stjórntæki sem segir til um það hvar ferðaþjónustan stendur gagnvart yfir 60 mælikvörðum sjálfbærrar nýtingar. Er þá horft til samfélagslegra, efnahagslegra og umhverfislegra þátta. Þetta mun vera í fyrsta sinn í heiminum sem slíkt verkefni er unnið á landsvísu. Mælikvarðarnir spanna allt frá ástandi náttúrunnar og ánægju heimamanna til framboðs á heimagistingu og ástandi vegakerfisins.  Meginniðurstaðan er að núverandi ástand sé á heildina litið farið að nálgast þolmörk. Að óbreyttu þolum við tveggja prósenta árlegan vöxt til ársins 2030 en við fimm prósenta vöxt værum við komin yfir þolmörk árið 2030.

 

 

„Við ætlum að vera leiðandi í sjálfbærri þróun. Við ætlum að hafa samkeppnishæfni að leiðarljósi og starfa í sátt við land og þjóð. Við ætlum að setja arðsemi framar fjölda ferðamanna, vinna að ávinningi heimamanna um allt land, gæta jafnvægis milli verndar og nýtingar og miða að einstakri upplifun, gæðum og fagmennsku. Það er mikilvægur áfangi að allir helstu hagsmunaaðilar séu sammála um þessa framtíðarsýn og  þessi leiðarljós. Og Jafnvægisásinn tryggir að við munum beina kröftum okkar í rétta átt til að ná settu marki,“ segir Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamálaráðherra.

 

Á vefnum anr.is/framtidarsyn má finna öll gögn og fræðslu um Jafnvægisásinn og Framtíðarsýnina.

 

Efnisorð

Heimsmarkmiðin

8. Góð atvinna og hagvöxtur
11. Sjálfbærar borgir og samfélög
13. Aðgerðir í loftslagsmálum

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum